Af hverju heitir dagurinn í dag, föstudagurinn langi?

Kristur á krossinum, hluti af altaristöflu eftir Jan van Eyck (1390-1441).

„Þetta er eitt af því sem er ekki vitað með vissu. Eðlilegasta skýringin er sú að dagurinn hefur vissulega verið býsna langur í lífi Krists samkvæmt píslarsögunni og endaði með langri pínu á krossinum. Önnur skýring er að kaþólskum mönnum fyrr á öldum hefur þótt dagurinn langur. Þeir höfðu þá fastað í margar vikur og við bættist að messur voru óvenju langar þennan dag.

Lengi fram eftir öldum hét dagurinn jafnframt öðru nafni á íslensku, langafrjádagur. Orðhlutinn frjá í því orði er skyldur goðaheitunum Frigg og Freyju en þó öllu heldur þýsk-ensku ástargyðjunni Fría. Dagurinn heitir svipuðum nöfnum í öðrum Norðurlandamálum og er þau talin vera fengin úr fornensku þó að annað orð sé núna haft um þennan dag í ensku (Good Friday).“

Þannig hljóðar svar Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors emeritus við Háskóla Íslands og fv. ritstjóra Vísindavefsins við spurningunni: Af hverju heitir föstudagurinn langi þessu nafni?

Í svari sínu á Vísindavefnum vitnar Þorsteinn til Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing, og bendir á að föstudagurinn langi sé mesti sorgardagur kirkjuársins og beri allt helgihald vott um það.

„Föstudagurinn langi hefur heitið ýmsum nöfnum á latínu. Heitið dies passionis vísar til pínu Krists en heitið bona sexta feria merkir eiginlega góði sjöttidagur og minnir á að krossdauðinn hafi verið góðverk mönnunum til handa. Enska heitið Good Friday, sem á sér einnig samsvörun í hollensku, er byggt á þessu latneska heiti. Þriðja heitið var parasceve sem er komið úr grísku og merkir undirbúningur. Það var tekið upp í grísku frá Gyðingum en þeir nota einmitt föstudaginn til að undirbúa sabbatsdaginn,“ segir þar ennfremur.

Öll gleðilæti bönnuð

Í nokkurra ára grein á Náttúrunni, segir Árni Björnsson að nafnið  langafrjádagur sé upphaflegra nafn, þótt eldri bókfest dæmi finnist um hitt.

„Orðið frjádagur mun semsé eldra en föstudagur, sem er tilkomið við tittnefnda dagheitabreytingu á 12. öld eða fyrr. Frjádagur mun fela í sér gyðjunafn eða ásynju, sem ólítið á skylst við þær Frigg og Freyju. Dagurinn hét á latínu dies Veneris, Venusardagur, og sú germanska gyðja, sem helst samsvaraði Venusi, hét Fría á þýsku og Fríg á engilsaxnesku. Og í Hauksbók frá 14. öld segir reyndar berum orðum: “En hinn 6. dag gáfu þeir hinni örgu Venu, er heitir Frigg á dönsku. „Í samræmi við þetta hét dagurinn frígedag á engilsaxnesku og friatac á fornháþýsku, og sjá allir, að ekki er langt milli þess og frjádags á íslensku.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Langifrjádagur eða langafrjádagur mun hinsvegar kominn til okkar beint úr engilsaxnesku einsog fleira í kirkjumáli. Þar hét hann langa frígedag. En aldrei virðist hann hafa heitið þvilíku nafni á þýsku, þar sem hann kallast enn Karfreitag. Orðið hefur haldist í íslensku við hlið föstudagsins langa fram á þennan dag, og mun það valda, að menn voru hættir að skilja, hvað frjádagur merkti, þegar dagheitabreytingin sigraði að mörgu öðru leyti. Föstudagurinn langi er til minningar um hina löngu pínu Krists á krossinum. Nafnið höfðar sjáanlega til þess, að dagar mótlætisins þykja ávallt líða seint. Síðarmeir hafa menn viljað draga svo ókristilega ályktun, að kirkjugestum hafi fundist hin langdregna guðsþjónusta þennan dag svo leiðinleg, að nafnið sé af því sprottið. Ekki hafi bætt úr skák, að víða var til siðs að borða ekkert fyrr en eftir miðaftan á þessum degi.

Engan dag ársins var börnum og unglingum bannað eins strengilega að hafa í frammi nokkur gleðilæti. Jafnvel höfðu sumir þann sið, sem mun vera staðreynd, að hýða börnin rækilega á föstudaginn langa fyrir allar þeirra syndir og yfirsjónir á föstunni og láta þau þannig um leið taka þátt í pínu Krists. Er í frásögur fært, að kerling ein vildi hýða dóttur sína, þegar hún var orðin gift kona, og þótti óguðleikinn langt á leið kominn og heimur farinn versnandi, er hún fékk því ekki ráðið fyrir eiginmanni hennar,“ segir ennfremur í grein hans.