Áfengi án leiðinlegra aukaverkana — er það í boði?

Geðlæknirinn og vísindamaðurinn David Nutt. / Twitter.

Heimsþekktur vísindamaður, geðlæknir og geðlyfjafræðingur, David J. Nutt, leitast nú við að þróa skaðlausa staðgönguvöru fyrir áfengi, með það fyrir augum að neytendur geti notið drykkja með svipuð áhrif og áfengi án neikvæðra aukaverkana alkóhóls, en frá því er sagt í breska dagblaðinu  The Guardian. 

Nutt hefur m.a. hlotið verðlaun fyrir hafa fundið upp aðferð til að skynja bólgur í heila sjúklinga með Alzheimer- og Parkinsons og fyrir að hafa rannsakað áhrif vímuefna og ofskynjunarlyfja á taugakerfið og heilsu fólks.

Hann er nú staðráðinn í að reyna að finna leið til að skipta út hinu geysivinsæla en skaðlega vímuefni alkóhóli út fyrir skaðlausari drykki með sömu áhrif, og hefur hann lengi verið að reyna að þróa „Alcarelle“ sem inniheldur efni sem líkir eftir alkóhóli, svokallað „alcosynth“.

Það á að gefa samskonar afslappandi og félagslega skemmtileg áhrif og áfengi, en án þess að fólk missi stjórn á hreyfingum, upplifi þynnku og hljóti heilsutjón af.

Sérfræðingar úr áfengisiðnaðnum gefa lítið fyrir þessar tilraunir og segja hana vera á pari við plön mannanna um að setjast að á Mars.

Eins og Stevia og veip?

Fleiri aðilum hefur tekist að koma með staðgönguvörur fyrir aðrar óhollari vörur, eins og t.d. hefur matvælaiðnaðurinn komið með Stevia í stað sykurs og í tóbaksiðnaðnum hefur veip komið sem skaðlausara val handa fyrir þá sem nota tóbak. Útlit er fyrir að efnið muni eiga möguleika á að koma á markað og tekist hefur að afla fjármagns til þess.

„Áfengisiðnaðurinn veit að alkóhól er eitrað efni,“ að sögn Nutt. „Hefði það verið fundið upp í dag, væri það ólögleg neysluvara. Örugg neysla á alkóhóli er ekki nema eitt glas á ári miðað við þá fæðuöryggisstaðla sem notast er við í dag.“

Nutt er ekki bannsinni og viðurkennir að fá sér glas af maltviskí á kvöldin og er eigandi að vínbar ásamt dóttur sinni. Sem geðlæknir segir hann að mest alla starfsævi sína hafi hann verið að meðhöndla fólk sem á í erfiðleikum með áfengisneyslu sína og mikið af rannsóknum hans hafa beinst að þeim vandamálum.

Hann var rekinn úr stöðu sinni sem ráðgjafi stjórnvalda í vímuefnamálum eftir að hann gagnrýndi skekkjuna í mati stjórnvalda á vímuefnum, en hann er frægur fyrir að hafa haldið því fram að útreiðatúr sé hættulegri en að taka ecstacy-töflu.

Skömmu síðar birti hann gögn í hinu virta læknablaði Lancet sem sýna að áfengi er skaðlegra samfélaginu en heróín og krakk.