Allt sem þú þarft að vita (en þorðir ekki að spyrja) um mislinga

Mislingar eru nú á allra verum, enda kominn upp vísir að faraldri í þeim efnum hér á landi. Mislingar eru einhver mest smitandi veirusjúkdómur sem til er, en veiran sem veldur sjúkdómnum nefnist morbilli.

Mislingar eru óþægilegasti barnasjúkdómurinn og sá hættulegasti af þeim sem valda útbrotum, þar sem sjúkdómurinn getur haft alvarlega fylgikvilla, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Mislingar hafa lítið látið fyrir sér fara hér á landi undanfarin ár, þar sem ungbörn hafa verið bólusett gegn þeim um langt skeið, en nú virðist orðin breyting þar á.

Meðgöngutími mislinga, það er tíminn frá því einstaklingur smitast og þar til hann veikist, getur verið mislangur en algengt er að hann sé ein til tvær vikur. Eftir tæpar tvær vikur birtast fyrstu einkennin sem eru: 

  • Hiti, hækkar upp í 39°C
  • Nefrennsli
  • Hósti 
  • Roði í augum
  • Viðkvæmni fyrir ljósi
  • Stór og aum þykkildi á hálsi eru algeng, svo og eymsli í koki
  • Einnig geta myndast gráir blettir á stærð við sandkorn í slímhimnu á innanverðum neðri vörum gegnt augntönnum, svonefndar mislingadröfnur, sem eru undanfari útbrotanna sem á eftir fylgja.

Mislingar smitast með úðasmiti í lofti og því getur smit borist á milli herbergja jafnvel þótt sá smitaði sé hafður í einangrun. Allir sem ekki hafa áður fengið mislinga eiga á hættu að smitast, að undanskildum börnum yngri en fjögurra mánaða því þau njóta verndar efna sem þau fá með móðurmjólkinni (að því gefnu að móðirin hafi fengið mislinga).

Landlæknir hefur sett saman spurningar og svör um mislinga sem lesa má hér að neðan.

———————-

Hvað eru mislingar?

Mislingar eru bráðsmitandi veirusjúkdómur sem berst um með úðasmiti frá öndunarvegi.

Hver eru einkenni sjúkdómsins? 

Einkenni mislinga koma fram um 10–12 dögum eftir smit (minnst 7-21 degi) og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3–4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Alvarlegir sjúkdómar eins og eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og einnig heilabólga geta verið afleiðing mislinga. Alvarlegar heilaskemmdir af völdum mislinga geta einnig komið fram mörgum mánuðum eftir sýkinguna.

Hvað á ég að gera ef ég hef komist í tæri við einhvern sem er með mislinga?

Hafðu samband við þinn lækni eða hjúkrunarfræðing (heilsugæslustöð eða í síma 1700) og láttu vita að þú hafir komist í tæri við einstakling sem haldinn er mislingum. Hægt er að kanna hvort upplýsingar séu til um það hvort þú ert varin(n) gegn mislingum sem byggist á skráðri bólusetningu eða aldri. 

Ef þú ert næm(ur) fyrir mislingum má minnka líkurnar á því að þú fáir mislinga með bólusetningu ef hún er gefin innan 72 klst. eftir samgang við sjúklinginn. Í völdum tilfellum kemur til álita að gefa mótefni með sprautu, sérstaklega hjá mjög ungum börnum. Ef þú verður ekki bólusettur ættir þú að halda þig frá stöðum þar sem næmir einstaklingar eru til staðar (t.d. skólar, sjúkrahús og leikskólar) en læknir þinn ákveður þann tíma sem þarf til og hvenær hægt verður að ferðast um með eðlilegum hætti. Með þessu má draga úr líkum á útbreiðslu smits.

Er ég varin(n) fyrir mislingum?

Sóttvarnalæknir lítur svo á að þú sért varin(n) gegn mislingum ef til er skráning um tvo skammta af bólusetningu eða einn skammt af bóluefni sem veitir minni vörn en tveir skammtar. Staðfest mótefni gegn mislingum segja fyrir um góðar varnir gegn sjúkdómnum. Ef þú fæddist fyrir árið 1970 er mjög líklegt að þú hafir fengið mislinga og sért varin(n) allt lífið.

Hvað á ég að gera ef ég er ekki viss um að ég hafi verið bólusett(ur)?

Rétt er að ganga úr skugga um það hvort einhver skráning um bólusetningu sé til. Þær bólusetningar sem gefnar hafa verið eftir árið 2003 er hægt að nálgast á heilsuvera.is  en eldri en þær ættu að vera skráðar í bólusetningaskírteini viðkomandi eða í sjúkraskýrslu á heilsugæslustöð. Ef svo er ekki er rétt að fá bólusetningu. Það er alls ekki hættulegt að fá viðbótarskammt af bóluefninu.

Ég held að ég sé komin(n) með mislinga. Hvað á ég að gera? 

Hafðu strax samband í síma við lækni eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð eða í síma 1700. Þá er hægt að kanna hvort til sé skráning um fyrri bólusetningu eða hvort þú hafir fengið mislinga. Einnig er hægt að skipuleggja skoðun á þér með sérstökum ráðstöfunum. Ekki er heppilegt að þú komir á venjulegar læknamóttökur þar sem aðrir sjúklingar hafa safnast saman.

Ég fékk að vita frá mínum lækni eða öðrum í heilbrigðisþjónustunni að ég væri með mislinga. Hvað á ég að gera?

Ef þú ert með mislinga átt þú að halda þig heima í fjóra daga eftir að útbrot koma fram. Með því dregur verulega úr líkum á að smita aðra. Ráðfærðu þig við lækninn hvenær þér er óhætt að hitta annað fólk. Þegar þú hóstar eða hnerrar skaltu hylja vitin með pappírsþurrku og fleygja henni að því loknu í ruslafötu. Ef þú ert ekki með þurrku skalt þú hósta eða hnerra í ermina en ekki í hendurnar. 

Þvoðu hendurnar oft með sápu og vatni. Ekki skiptast á matar- eða drykkjarílátum við annað fólk. Hreinsaðu yfirborð sem oft eru snert reglulega. Hafðu samband við lækni eða í síma 1700 ef þú hefur áhyggjur af einkennum þínum.

Hversu virkt er bóluefnið?

Bóluefnið er mjög virkt. Einn skammtur af bólusetning veitir 93% vörn en tveir skammtar veita 97% vörn gegn mislingum.

Get ég fengið mislinga ef ég er fullbólusett(ur)?

Mjög fáir (þrír af hverjum hundrað) sem fengið hafa tvo skammta af bóluefninu geta fengið mislinga eftir að hafa komist í tæri við veiruna. Ekki er fulljóst hvers vegna en ónæmiskerfið kann að hafa brugðist við bólusetningunni með ófullnægjandi hætti. Góðu fréttirnar eru þó að fullbólusettir sem fá mislinga fá oftast mildan sjúkdóm og eru ekki líklegir til að smita aðra, einnig þá sem eru mjög ungir eða hafa bæklað ónæmiskerfi.

Þarf ég nokkurn tíma á örvunarskammti af bóluefninu að halda?

Nei. Sóttvarnalæknir telur að þeir sem fengið hafa tvo skammta af bóluefninu samkvæmt bólusetningaráætlun séu varðir fyrir lífstíð. Fullorðnir þurfa einn skammt af bóluefninu hið minnsta. Ef þeir verða fyrir miklu smitáreiti er æskilegt að bólusetja tvisvar með 28 daga millibili. Þetta getur átt við nemendur í framhaldsskólum, heilbrigðis¬starfsmenn og alþjóðlega ferðalanga.

Hversu algengir voru mislingar á Íslandi áður en bólusetning gegn þeim hófst?

Mislingar voru skæðir á Íslandi einkum á 19. öld og fram eftir 20. öld. Mjög dró úr nýgengi mislinga eftir að skipulegar bólusetningar hófust gegn sjúkdómnum við 2 ára aldur árið 1976. Síðar var bólusetningin gefin með bóluefnum gegn rauðum hundum og hettusótt við 18 mánaða aldur árið 1989. Árið 1994 var ákveðið að endurbólusetja 9 ára gömul börn en um mitt ár 2001 var endurbólusetningin færð til 12 ára aldurs. Mislingar á Íslandi fjöruðu út og hurfu árið 1996 ef frá eru talin stöku tilfelli á undanförnum árum. Síðustu stóru mislingafaraldrarnir gengu hér á landi árin 1973 en þá voru 3877 tilfelli skráð og árið 1977 voru 2994 tilfelli skráð. Sóttvarnalæknir lítur svo á að ef þú ert fædd(ur) fyrir 1970 er mjög líklegt að þú hafir fengið mislinga og sért varin(n) allt lífið.

Hvað eru margir bólusettir á Íslandi?

Talið er að allt að 95% barna séu bólusett á Íslandi. Það er keppikefli að þátttakan fari yfir 95%.

Hvaðan koma öll þessi mislingatilfelli?

Ferðamenn geta borið mislinga til landsins frá hverju því landi þar sem mislingar geisa. Margar hópsýkingar hafa brotist út í Evrópu, Afríku, Asíu, Ameríku og mörgum Kyrrahafsríkjum. Á heimsvísu greinast 19 tilfelli á milljón íbúa á ári hverju og sjúkdómurinn veldur allt að 90 þúsund dauðsföllum.

Hvernig stendur á þessari aukningu mislingatilfella á Íslandi á undanförnum árum?

Mislingar hafa borist til landsins nokkrum sinnum á undanförnum árum. Þeir hafa þó ekki náð að breiðast út þökk sé góðu hjarðónæmi í samfélaginu vegna bólusetninga og öðrum ráðstöfunum sem gripið hefur verið til. Óvenjumargir hafa fengið mislinga að þessu sinni í tengslum við smitandi ferðalanga. Á meðan mislingar geisa í löndum sem við sækjum heim megum við búast við stöku tilfellum hér á landi sem þó verða ekki að stórum faraldri.

Hvert er hlutverk sóttvarnalæknis hvað varðar viðbrögð við mislingum?

Sóttvarnalæknir hefur lögum samkvæmt það hlutverk að stýra sóttvarnaráðstöfunum þ.m.t bólusetninga. Með honum starfa á landsvísu umdæmislæknar sóttvarna sem og smitsjúkdómalæknar og starfsfólk heilbrigðisstofnana í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Hefur mislingum verið bægt frá Íslandi?

Já. Mislingar ganga ekki lengur í faröldrum hér á landi. Þökk sé umfangsmiklum bólusetningum. Þó má búast við að óbólusettir einstaklingar geti smitast en hjarðónæmi vegna bólusetninga kemur í veg fyrir útbreitt smit. Þar sem mislingar ganga í mörgum löndum sem við sækjum heim og erlendir gestir koma frá slíkum löndum, er sú hætta fyrir hendi að þeir beri með sér smit til Íslands og geti sýkt stöku næma einstaklinga.

Hvað er átt við með að mislingum sé bægt frá?

Það merkir að mislingar gangi ekki lengur í faröldrum.

Eru mislingar áhyggjuefni fyrir Íslendinga?

Já. Mislingar eru ennþá algengir í mörgum löndum og munu því líklega berast til landsins af og til. Mislingar eru bráðsmitandi og hver sá sem ekki er varinn, er í hættu á að smitast. Það eru þeir sem af einhverjum ástæðum eru óbólusettir, þ.m.t. þeir sem neita bólusetningum. Þeir eru í hættu á að smitast og bera sjúkdóminn til annarra, þ.m.t. þeirra sem ekki er hægt að bólusetja sökum aldurs eða annarra ástæðna.

Gætu mislingar aftur náð fótfestu hér á landi?

Já. Það gæti gerst ef þátttaka í bólusetningum dvínar. Stundum gleymast bólusetningar og sumir neita bólusetningu af trúarlegum, heimspekilegum eða persónulegum ástæðum. Ef stórir hópar af óbólusettum einstaklingum myndast skapast jarðvegur fyrir faraldur.