Blátönn í heyrnartólum getur verið heilsuspillandi

„Staðsetning AirPods-heyrnartappanna í eyrnagöngunum veldur því að höfuðið verður fyrir miklu magni af útvarpsbylgjum,“ að sögn Jerry Phillips, prófessors í lífefnafræði við University of Colorado. Hann nefnir æxli og aðrar frumubreytingar sem hugsanlegan áhættuþátt, en öll tæki sem gefa frá sér sterkar útvarpsbylgjur gætu haft slík áhrif. 

Tæknirisinn Apple varð brautryðjandi þegar hann kom með iPhone-síma án innstungu fyrir heyrnartól. Helstu samkeppnisaðilarnir, Google og Samsung, fylgdu í kjölfarið. Enn er hægt að tengja heyrnartól við símana með millistykki, en þráðlaus heyrnartól með blátönn (bluetooth) eru bara langtum þægilegri fyrir notendur og hafa náð gríðarlegum vinsældum.

Auðvelt er að álykta sem svo, að blátannartæknin hafi fyrir löngu sannað sig hvað varðar öryggi og heilnæmi í notkun, en því fer víðs fjarri og sérfræðingar í þráðlausri tækni hafa nú áhyggjur áhrifum blátannarinnar á heilsu fólks.

Haraldur blátönn (lést haustið 986) var konungur í Danmörku en síðar einnig konungur yfir hluta af Noregi. Hann var sonur Gorms gamla og Þyri danabótar og reisti eftir þau Jalangurssteininn stærri. Bluetooth-tæknistaðallinn í þráðlausum fjarskiptum er nefndur eftir Haraldi.

Talsmenn Apple hafa fram að þessu svarað því að AirPods-heyrnartapparnir uppfylli öryggisstaðla. En Phillips er ekki einn. Um það bil 250 rannsakendur frá yfir 40 löndum hafa skrifað ákall til Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem þeir lýsa „alvarlegum áhyggjum“ af EMF-geislun frá þráðlausri tækni á borð við blátönnina.

Krabbamein, taugatruflanir og skemmdir á erfðaefni möguleg

„Fjöldi nýlegra vísindarannsókna sýna að EMF-geislun hefur áhrif á lífverur langt umfram það sem gæti talist öruggt,“ segir í ákallinu.

Krabbamein, taugatruflanir og skemmdir á erfðaefninu DNA eru nokkrir af mögulegum áhættuþáttum tengdum EMF-geislum. Alþjóðastofnunin í krabbameinsrannsóknum hefur sýnt fram á að slík geislun sé krabbameinsvaldandi fyrir manneskjur.

Joel Moskowitz, deildarstjóri lýðheilsudeildar hjá Berkeley-háskóla telur að geislun frá blátannarheyrnartöppum og -tólum geti valdið heilsutjóni og segir að fólk ætti að gæta varúðar við notkun tækjanna þar til að frekari rannsóknir hafi verið gerðar.

Aðrir sérfræðingar, eins og Martin Pall, prófessor í lífefnafræði við Washington State-háskóla, eru ósammála og segja að meðaltal allra rannsókna sem gerðar hafi verið vegna slíkra tækja bendi einmitt til hins gagnstæða, að engin hætta sé á ferðum. Styrkur og nálægð við EMF-geislun skipti minna máli en bylgjulengdin, en styttri bylgjulendir hafi meiri lífeðlisfræðileg áhrif en þær lengri.

Vísindamennirnir eru þó sammála um að frekari rannsókna þurfi við, að réttir öryggisstaðlar séu hugsanlega enn ekki tilbúnir, og að segja megi að heyrnartól minnki amk. nálægð við geislun frá símtækjunum sjálfum.

Heimild: Medium.com