Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók í dag við skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Hlutverk hópsins var að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Honum var falið að endurskoða fyrirkomulag úrræða og þjónustu í þessum málaflokki, með réttindi barna og aðgengi þeirra að fullnægjandi þjónustu að leiðarljósi.
Stýrihópurinn leggur fram 14 tillögur:
- Stigskiptur búsetukjarni
- Styrkja meðferðarfóstur
- Sérhæfð skammtímadvöl/hvíldarinnlögn
- Styrkja og skala upp SkaHM (heimili sem býður upp á skammtímadvöl í Reykjavík)
- Vistheimili/meðferðarheimili
- Meðferðarheimili fyrir endurteknar meðferðarvistanir
- Sérhæfð afeitrunardeild
- Meðferðareining fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda
- Meðferðareining fyrir börn með alvarlegan geðrænan vanda
- Móttaka í bráðatilvikum fyrir börn með alvarlegan geð- og/eða hegðunarvanda
- Teymi sérfræðinga
- Inntaka og mat á þjónustuþörf
- Stuðningur við foreldra til að hafa börn lengur heima
- Fyrirbyggjandi aðgerðir
Gert var ítarlegt kostnaðarmat á tillögunum. Niðurstöður kostnaðarmatsins sýna að hægt er að ná umtalsverðri hagræðingu í rekstri þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Árlegur sparnaður gæti orðið allt að einn milljarður kr. Sparnaðurinn birtist fyrst og fremst í því að einn aðili annist skipulag og framkvæmd þjónustu. Með slíku fyrirkomulagi gefst tækifæri til að nýta mannauð og þekkingu til þjónustunnar með markvissari hætti en áður og fleiri komast að í þjónustu, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
„Við viljum að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda hverju sinni og að þau fái hana hratt. Útgangspunkturinn í þessari vinnu var að finna besta fyrirkomulagið óháð kostnaði. Að því loknu að skoða kostnað og koma með tillögur um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Stýrihópurinn hefur nú skilað inn sínum tillögum að skilvirkari þjónustu sem felur einnig í sér betri nýtingu fjármuna án aukins kostnaðar. Við munum nú vinna áfram með tillögurnar til að bæta þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp barna og vil ég þakka öllum þeim sem komu að vinnunni fyrir sitt framlag,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Þór Hauksson Reykdal starfsmaður stýrihópsins, Helga Sif Friðjónsdóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, Arnar Haraldsson starfsmaður stýrihópsins, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, varaformaður og fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Haraldur L. Haraldsson formaður stýrihóps, Hanna Dóra Hólm Másdóttir fulltrúi innviðaráðuneytisins, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og fulltrúi Reykjavíkurborgar, Rannveig Einarsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Funi Sigurðsson, fulltrúi Barna- og fjölskyldustofu.
Nánar: Þann 16. júní 2022 skipaði mennta- og barnamálaráðherra stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Í stýrihópnum voru fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, heilbrigðisráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu. Stýrihópurinn er framhald af samstarfi félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra um aðgerðir til að bæta aðgengi að þjónustu fyrir börn. Bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum getur haft veruleg áhrif á farsæld barna og velsæld fjölskyldna. Fullnægjandi og greiður aðgangur að árangursríkri þjónustu stuðlar að aukinni farsæld, m.a. bættu geðheilbrigði, og dregur úr líkum á þyngri vanda síðar meir.