Ekki hægt að elska konur sem eru yfir fimmtugt

Uppnám er í franskri þjóðmálaumræðu eftir að vinsæll rithöfundur og sjónvarpsmaður lét þau ummæli falla, að hann geti ekki elskað konur sem eru yfir fimmtugt.

Yann Moix, sem sjálfur er fimmtugur að aldri, sagði í viðtali við glanstímaritið Marie Claire, að ástæðulaust væri að draga fjöður yfir þetta; konur yfir fimmtugt væru orðnar of gamlar til að elska.

„Svona nú, við skulum ekki ýkja! Það er ekki hægt … of gamlar, of gamlar,“ sagði hann.

Gekk rithöfundurinn enn lengra og sagði konur á sextugsaldri ósýnilegar fyrir sér.

„Ég vil fremur líkama yngri kvenna, það er allt og sumt. Líkami 25 ára konu er stórkostlegur. Líkami fimmtugrar konu er bara alls ekkert stórkostlegur,“ sagði Moix og bætti við að hann kjósi einkum að fara á stefnumót með asískum konum, einkum kóreskum, kínverskum og japönskum.

Frakkar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að karlrembu, en ummæli rithöfundarins koma engu að síður eins og sprengja inn í umræðuna. Moix eru ekki vandaðar kveðjurnar á samskiptamiðlum og einkum láta þjóðþekktar konur hann heyra það. 

Moix er þekktur í heimalandi sínu, hefur sent frá sér fjölmargar bækur sem unnið hafa til verðlauna. Þá hefur hann stýrt vinsælum sjónvarpsþáttum og leikstýrt kvikmyndum.