Elsta starfandi félag á Íslandi ætlar að sækja fram: Útbreiðsla á nýjum tímum

„Við lifum á áhugaverðum tímum þar sem upplýsingabyltingin og nýir miðlar hafa gerbreytt því hvar og hvernig fólk nálgast texta og bókmenntir.
Hljóðbókavæðing, notkun snjalltækja og internets felur í sér ýmis tækifæri,“ segir í fundarboði frá Hinu íslenska Biblíufélagi, sem efnir til opins hádegisfundarí Háteigskirkju, föstudaginn næstkomandi.

Á fundinn eru allir boðnir velkomnir, sem áhuga hafa á Biblíunni og útbreiðslu hennar á nýjum tímum. Boðið verður upp á hádegismat og farið verður yfir hvert Biblíufélagið stefnir á næstu tveimur árum. Beðið verður um viðbrögð frá fundarmönnum.

Á fundinum mun vera fulltrúi norska Biblíufélagsins, Ann-Catherine Kvistad sem hefur sérþekkingu á fjáröflunum. Mun hún einnig ávarpa fundinn með hvatningu og áeggjan frá norska Biblíufélaginu.

Þau sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og vilja fylgjast með fundinum geta fylgst með honum með aðstoð fjarfundabúnaðar.

Stofnað fyrir 204 árum

Hið íslenska Biblíufélag (HÍB) var stofnað 10. júlí 1815 og er elsta starfandi félag á Íslandi. Markmið þess er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar. HÍB er samtök fólks úr öllum kirkjudeildum og kristnum trúfélögum. Allir geta gerst félagar.

Félagið tekur þátt í starfi Sameinuðu Biblíufélaganna (United Bible Societies, UBS) á alþjóðavettvangi.

Sérstakur Biblíudagur er haldinn árlega annan sunnudag í níuvikna föstu (venjulega í febrúar). Þá er vakin athygli á félaginu og starfi þess m.a. Í guðsþjónustum og á safnaðarsamkomum og tekin samskot til starfsins á alþjóðavettvangi.

Félagið gefur út B+, fréttabréf um starf félagsins og annarra biblíufélaga víða um heim. Einnig gefur félagið út árlega BIBLÍULESTRARSKRÁ sem dreift er til félagsfólks.

Allir geta orðið félagar í Hinu íslenska Biblíufélagi.