Er illskan þá í okkur öllum?

Illska er ekki bundin við einstaklinga með skort á samkennd eingöngu, heldur er hana einnig að finna hjá venjulegu fólki við félagslegar aðstæður.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í fyrirlestri sem haldinn var hjá Íslenskri erfðagreiningu, „Rót illskunnar“, sl. fimmtudag. Baron-Cohen segir ekki hentugt að skilgreina illsku vísindalega, en þó megi nálgast það á vísindalegan hátt með því að mæla samkennd í fólki.

Einstaklingar geta haft óvenju litla eða mikla samkennd

„Fólk getur annað hvort átt erfitt með að átta sig á líðan annarra, eins og t.d. einhverfir, eða, verið ósnortnir af líðan annarra, t.d. fólk með andfélagslega persónuleikaröskun. En fleira getur komið til, eins og tilteknar félagslegar aðstæður hjá öllu venjulegu fólki,“ sagði Simon Baron-Cohen, prófessor í þróunarsálfræði, sem var fenginn af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, til að fjalla um illskuna.

Baron-Cohen gaf nýlega út bókina Zero Degrees of Empathy – A New Understanding of Cruelty and Kindness. Hann er sérfræðingur í einhverfu, en hefur rannsakað samkennd sérstaklega. Samkennd sé hægt að mæla og niðurstöðurnar hjá fjölda prófaðra einstaklinga komi út undir normalkúrvu þar sem langflestir mælist um það bil fyrir miðju kúrvunnar, en fáir séu með óvenju mikla eða óvenju litla samkennd.

„Munurinn á einhverfum og þeim sem eru með andfélagslega persónuleikaröskun er þó sú, að einhverfir finna til samkenndar með öðrum, þegar og ef þau átta sig á líðan annarra. Fólk með andfélagslega röskun áttar sig á líðan annarra, en þau finna ekki fyrir samkennd.“ Fólk með óvenju litla samkennd hefur tilhneigingu til að notfæra sér aðra, þó það valdi öðrum vanlíðan og tjóni, í eiginhagsmunaskyni, á meðan fólk með óvenju mikla samkennd hefur tilhneigingu til að leggja sig í hættu við að hjálpa öðrum, án þess að vænta einhvers í staðinn.

Einhverfa er arfgengt frávik, en andfélagsleg röskun getur verið ýmist arfgeng, eða vegna misþroska í taugakerfinu, t.d. vegna sjúkdóma, slysa, vanrækslu, áfalla eða ofbeldis í bernsku, nema hvorttveggja sé. Einhverfir geta átt í erfiðleikum með að lesa í svipbrigði og viðbrögð fólks, og af þeim sökum eiga þau erfiðara með að bregðast rétt við öðru fólki og í félagslegum aðstæðum. Fólk með andfélagslega persónuleikaröskun á ekki í erfiðleikum með það, en finnur bara ekki fyrir samkennd. Velt var upp spurningunni um það hvort hægt sé að áfellast einstaklinga sem að þessu leytinu er ekki sjálfrátt, vegna skorts á hæfileika sem aðrir hafa. Þeirri spurningu er enn ósvarað.

Venjulegt fólk fremur illvirki í félagslegum aðstæðum

En fleira kemur til, og Baron-Cohen tók sem dæmi að illsku, eða skort á samkennd, sé þó jafnframt að finna hjá venjulegu fólki, í félagslegum kringumstæðum. Þegar fólk hlýðir yfirvaldi í blindni, eins og sýnt var fram á í hinu fræga Milgram-prófi, þar sem fólk var látið gefa öðrum raflost. Allir sem prófaðir voru gerðu það bara af því að maður í hvítum slopp sagði þeim að gera það, jafnvel þó þau vissu að sá sem varð fyrir raflostinu upplifði miklar kvalir. Þegar fólk byrjar að flokka sig og aðra í hópa, og tekst að afmennska aðra hópa, getur það einnig orðið grunnurinn að ofbeldi og ólýsanlegum illvirkjum, eins og gerðist t.d. í Rúwanda eða í Balkanstríðinu. Einnig geta málstaðir gert venjulegt fólk að illvirkjum, en dæmi um slíkt finnast hjá t.d. hryðjuverkamönnum, eins og t.d. þeim sem flugu á tvíburaturnana í New York.

Önnur dæmi um illsku á meðal venjulegs fólks geta orðið til í félagseiningum eins og þjóðríkjum, hópum, fyrirtækjum og stofnunum þar sem fólk framkvæmir ill verk, eða lætur þau líðast óátalið, með því að „vera bara að vinna vinnuna sína“ eða „fylgja reglunum“, eins og frægt varð í Nürnberg-réttarhöldunum yfir Nasistum og sjá má af voðaverkum valdstjórnarríkja, bæði í sögunni og nútímanum.

Mál af þessum toga veldur titringi í Þýskalandi þessa dagana. Talið er að einn afkastamesti raðmorðingi síðustu áratuga, hjúkrunarfræðingur að nafni Niels Högel, hafi myrt hundruð sjúklinga á þýskum spítölum á nokkurra ára tímabili. Hrollvekjandi spurningar hafa vaknað vegna skeytingarleysis samstarfsfólks hans, sem annað hvort vissi eða grunaði Högel um græsku, en taldi það „ekki sitt hlutverk“ að koma athugasemdum eða áhyggjum sínum varðandi störf hans á framfæri við yfirmenn, lögreglu eða fjölmiðla. Klárlega er hægt að halda því fram að Högel hafi framið ótrúleg illvirki, en hver er ábyrgð allra þeirra sem aðhöfðust lítið eða ekkert til að stöðva hann, fyrr en seint um síðir?

Ennþá nærtækara dæmi gætu verið t.d. illvirki sem framin voru gagnvart börnum og fötluðum á stofnunum og upptökuheimilum á borð við Kópavogshæli og Breiðuvík hérna á Íslandi, um langa hríð, án þess að nokkur hafi aðhafst nægilega til að stöðva þau.