Þótt enn séu nokkrir velmegunardagar eftir með svignandi veisluborðum jólaboðanna, laufabrauði, hangikjöti, hamborgarhrygg, konfekti og hverskyns drykkjum — áfengum sem óáfengum, eru eflaust margir lesendur Viljans farnir að velta fyrir sér timburmönnunum sem bíða okkar á nýju ári. Hvernig ætlum við að ná af okkur aukakílóunum, sem hafa safnast upp að undanförnu? Gæti svarið verið að finna í Biblíunni? Margar Hollywood-stjörnur eru þeirrar skoðunar.
Regluleg lotufasta er nýjasta lífstílsæðið í draumaborginni Hollywood og stjörnurnar fasta nú grimmt til þess að ná af sér aukakílóum. Um er að ræða ævafornan sið sem rækilega er fjallað um í sjálfri Biblíunni, en hann hefur í för með sér margvíslega aðra kosti sem ná langt út fyrir kröfur Hvíta tjaldsins.
Biblían og raunar mörg heilög rit annarra trúarbragða segja okkur að gott sé að fasta fyrir andlega líðan okkar. Karl Sigurbjörnsson, fv. biskup, segir að Jesús hafi lagt áherslu á bænina og föstu.
„Fastan er tími sjálfsprófunar, og til að dýpka og þroska trúarlíf sitt, samfélag sitt við Krist. Það gerist með kyrrð og bæn, og með því að leitast við að lifa látlausara lífi. Fasta er eitt elsta form andlegrar iðkunar. Föstu er að finna í öllum trúarbrögðum. Í okkar samtíð, þar sem flest allt snýst um að hafa það gott og njóta og neyta, þá er fastan mikilvæg til að neita sér um eitthvað til að geta gefið öðrum, að leggja eitthvað sérstakt af mörkum í þágu þeirra sem minna mega sín.“
En nýjar rannsóknir benda til þess að fastan sé líka beinlínis heilsusamleg fyrir okkur.
Regluleg lotufasta felst í því að neyta ekki matar stóran hluta hvers dags. Sumir fasta allt að 18 klukkustundir á degi hverjum og það þýðir að glugginn til að matast er ekki nema fjórir til sex tímar.
Heilsufréttamaðurinn Lorie Johnson ræðir við Pat Robertson um kosti reglulegrar föstu.
„Kostir reglulegrar föstu eru ekki síst þeir, að þú getur stundað hana af og til eða oftast nær og samt notið ávinningsins,“ segir næringjarráðgjafinn Robin Foroutan.
Stórstjörnur á borð við Jennifer Lopez, Kourtney Kardashian, Selena Gomez, Beyonce og Hugh Jackman hafa beitt reglulegri lotuföstu til að léttast, en vísindamenn við Kaliforníuháskóla segja að kostirnir af föstu sjáist ekki aðeins á ytra byrði fólks, heldur geti hún leitt til betri almennrar heilsu, enda geti fastan styrkt ónæmiskerfið.
Fastan verður til þess að hraða efnaskiptum í líkamanum og gamlar frumur víkja fyrir nýjum og ferskum.
„Auðvitað ráðleggjum við öllum að borða heilnæma og fjölbreytta fæðu, en aðalatriðið er kannski hvenær þú borðar en ekki hvað þú lætur ofan í þig,“ segir Foroutan.
Niðurstaða: Ramadan Múslima gengur út á kosti föstunnar. Yom Kippur gyðingdómsins sömuleiðis. Fastan er lykilatriði í mörgum kristnum trúarsetningum. Forn handrit ólíkra trúarbragða kenna okkur að fyrirgefningin, að láta af áhyggjum og að fasta sé allt gott fyrir sálarlífið. Og nú hafa vísindin staðfest að þessir góðu siðir eru einnig góðir fyrir heilsu okkar almennt. Ætlar þú að prófa að fasta á nýju ári?