Tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival fer fram í Reykjavík dagana 12.-15.september næstkomandi en þetta er 10. árið sem hátíðin er haldin. Hátíðar passinn kostar 9.900 kr fyrir alla fjóra dagana. Hátíðarpassinn gildir líka á stórtónleika Tangerine Dream.
Feðgarnir Pan og Óskar Thorarensen voru eitt sinn staddir í upptökum á Hellissandi á plötunni þeirra Hypnogogia með Stereo Hypnosis árið 2009. Kviknaði þá sú hugmynd þegar fölskyldan rakst á fallegt félagsheimili í einni af göngu þeirra um Hellissand. Eftir það var engin vafi á að halda útgáfutónleika þeirra í félagsheimilnu Röst um haustið 2009.
„Andrúmsloftið og umhverfið var svo stórfenglegt og hvað þá með ambient tónlistinni að við ákváðum að gera meira úr þessu og ári seinna var fyrsta hátíðin haldin, Undir Jökli“, segir Pan Thorarensen.
Aðspurður hvort hátíðin leggi enn aðal áherslu á raftónlist hafði Pan þetta að segja :
„Extreme Chill Festival er raftónlistarhátíð í grunninn enn síðustu ár höfum við verið að fara meira útí Experimental tónlist, classical, ambient og alveg út í tilraunakenndan jazz, sem opnar nátturulega fleiri dyr fyrir okkur og hlustandann“.
Segir hann markmið hátíðarinnar vera einnig að kynna íslenska og erlenda raftónlistarmenn og tengja saman ólík listform, hljóðheim raftónlistarinnar og lifandi myndheim. Að tengja saman erlenda og innlenda tónlistar- og videó/myndlistarmenn og sköpun þeirra ásamt því að vekja athygli á rafrænni Reykjavík, raftónlistarhöfuðborg Íslands.
Hátíðin og starfið í kringum hana hefur leitt af sér fjölda útgáfa, tónleika, ferðalaga erlendis, samstarfa við erlenda sem innlenda tónlistarmenn að ótöldum ógleymanlegum uppsetningum á hátíðum erlendis og innanlands. Einnig er Extreme Chill hátíðin komin í nýtt verkefni sem kallast “Up Node Network” sem er norrænt samstarf með öllum flottustu raftónlistarhátíðum norðurlandanna.
Nánari upplýsingar um samstarfið má nálgast hér.
En hvers vegna var hátíðin flutt út sveit í borg ?
„Með stækkandi hátíð, fleiri gestum og aukinni aðsókn erlendra listamanna að spila á hátíðinni var orðið tímabært að flytja hátíðina í bæinn. Það var fullkomin byrjun þegar hátíðin var minni að halda hana í íslenskri náttúru og þjappa fólki saman, en svo má ekki gleyma því að litla miðborgin okkar er ótrúlega sjarmerandi og hefur allt til að bera ásamt því að vera tengd náttúrunni. Fáar höfuðborgir eru með fjallasýn í allar áttir og svo sjóinn alltumlykjandi. Svo fannst okkur mjög mikilvægt að hafa sem auðveldast aðgegni að hátíðinni fyrir alla…hvort sem þeir eru alla fjóra dagana að sækja hátíðina eða vilja bara koma á einn eða tvo viðburði“.
Þau sem standa á bakvið hátíðina hafa ávallt reynt að vera meðvituð um að allir fái tækifæri. Hafa þau til dæmis gert ungum listamönnum hátt undir höfði, verið í samstarfi við hin norðurlöndin um að gefa ungum norrænum listamönnum tækifæri, en oftast hefur verið góð blanda af ungum og eldri listamönnum sem hafa komið fram á hátíðinni. Í fyrra voru þau með heilt kvöld tileinkað konum í raftónlist, en að sögn Pan virðast þær svolítið týnast í offramboði karlmanna sem eru að gera raftónlist.
Hátíðin mun eiga sér stað á sjö mismunandi stöðum í miðborginni: Gamla Bíó, Iðnó, Gaukurinn, Mengi, Exeter Hotel, Vínyl Bistro og Klaustur Bar.
Meðal þeirra listamanna sem fram koma verða : Tangerine Dream, Marcus Fischer, Eraldo Bernocchi, Kristín Anna, Stereo Hypnosis, Mixmaster Morris, Hotel Neon, Jana Irmert, Christopher James Chaplin, Farao, Special-K, Hoshiko Yamane og Mikael Lind.
Hægt er að nálgast miða hér.
„4 daga tónlistarveisla þar sem íslenskir og erlendir listamenn með ólíkan bakgrunn á öllum aldri mætast í sköpun sinni undir áhrifum íslenskrar náttúru. Þetta verður leyndardómsfullt ferðalag um rafræna Reykjavík“.
Fyrir nánari upplýsingar um hátíðina fást á heimasíðunni extremechill.org eða á facebook síðu hennar.