Línumaðurinn risavaxni og ólympíuhetjan Sigfús Sigurðsson hefur aldeilis vent kvæði sínu í kross eftir handboltaferilinn. Hann er kominn á fullt í fiskinn, þar sem peningalyktin ræður ríkjum.
Hann segir vinum sínum á fésbókinni í dag:
„Í janúar 2013 þá lagði ég handboltaskóna á hilluna, eftir rúmlega 20 ára feril, og vissi alls ekki hvað ég myndi taka mér fyrir hendur. Aldrei grunaði mig að ég myndi venda kvæði mína svona mikið í kross. Enda vissi ég ekki hvað framtíðin myndi bera í skauti sér.
Ég var lengi vel að reyna að fá vinnu þetta árið og loksins í seinni hluta desember 2013 var ég ráðinn sem afgreiðslumaður í fiskbúð. Aldrei hefði mig grunað hversu vel það átti við mig að standa bak við borðið og selja fisk, gera fiskrétti og setja upp flott fiskborð….. En núna 5 árum seinna þá hefur draumur ræst sem fæddist á þessum tíma mínum sem ég var að selja fisk hjá Kónginum….
Ég er kominn með mína eigin fiskbúð, FISKBÚÐ FÚSA sem er í Skipholti 70. Ég ætla að gera mitt besta til þess að leyfa gamla skólanum að njóta sín með nýja tímanum. Ég ætla að opna á mánudagsmorguninn þó svo að allt verði ekki orðið 100% þá.
Já draumarnir breytast og geta svo orðið að veruleika,“ segir Fúsi í fiskinum.