Fordæmi Seðlabankans er afar vont, jafnvel skaðlegt

Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður.

„Fram að þessu hef ég talið útilokað að listaverk þar sem sést til nakinna mannvera, í friði og spekt, væri fjarlægt af opinberum vettvangi í mínu heimalandi,“ segir Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstri grænna.

Ari Trausti er bróðir myndlistarmannsins Errós og þeir eru synir myndhöggvarans ástsæla, Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Í færslu á fésbók í dag fordæmir þingmaðurinn þá ákvörðun Seðlabankans að fjarlægja myndlist sem sýnir nekt af opinberu veggrými sínu og koma því fyrir í geymslum.

„Fordæmi Seðlabankans er afar vont, jafnvel skaðlegt, og fleiri slíkar aðgerðir ganga gróflega gegn vel staðfestu tjáningarfrelsi í öllum listum,“ segir hann.

„Komi kröfur sem þessar fram frá starfsmönnum eða gestum stofnana eða fólki á ferð um um borg og bý, á að neita þeim. Sá/sú sem ekki sættir sig við sýnileg verk af því tagi, sem ótal myndlistarmenn hér á landi hafa unnið, verður þá að leita réttar síns – hversu fjarstæðukenndur sem hann kann að vera – fyrir þar til bærum yfirvöldum. Gildir einu af hvaða menningarsvæði kærandinn er eða hverjar hugmyndir hans um myndlist kunna að vera.“

Ari Trausti segist verða að lýsa þessari afstöðu sinni, þar sem myndlist standi sér nærri.

Hann birtir jafnframt þessa ljósmynd, „af tveimur verkum Guðmundar E. (míns góða föður) – aftari styttan er hoggin úr grágrýti, í eigu Listasafns Íslands. Keramik-útgáfa af þeirri fremri (unnin í leir) var framleidd í Listvinahúsinu í áratugi og seld – allt frá 5. tugi 20. aldar fram á okkar daga (nú sem antík).“