Fylla bíl af skemmtilegu fólki og hundi og keyra af stað í leit að ævintýrum

KOLBRÚN ÝR Áhrifavaldur og ljósmyndari

Kolbrún Ýr er 25 ára, fædd og uppalin í Reykjavík. Hávaxin, ofurhress og full af ævintýraþrá.

Þegar litið er á Instagram aðgang Kolbrúnar sem ber heitið @kollayr bíður manns ógrynni af fallegum myndum og myndböndum frá öllum heimshornum, en þar er hún með tæplega 25 þúsund fylgjendur. Helstu áhugamál hennar eru ljósmyndun og að ferðast erlendis og innanlands. Finnst Kolbrúnu skemmtilegast að taka myndir af landslagi, fólki og dýrum.

,,Fullkominn dagur fyrir mig væri að fylla bíl af hressu, skemmtilegu fólki og einum hundi, keyra af stað í leit að ævintýrum, taka myndir og njóta Íslenskrar náttúru’’. 

Í dag er Kolbrún að reyna að koma sér á framfæri sem ljósmyndari. Eitthvað sem henni hefur alltaf langað en aldrei þorað að demba sér almennilega í. Er hún að vinna í ljósmyndavefsíðu þegar þessi orð eru skrifuð. ,,Annars er ég með nokkur járn í eldinum og mörg skemmtileg verkefni á döfinni. Í frítímanum mínum reyni ég að ferðast eins mikið og ég get, mynda og kynnast fólki’’. 

,,Þetta byrjaði allt á að ég fór í svokallað asíureisu eins og margir gera eftir menntaskóla. Ofast þegar fólk kemur heim úr svona ferðalagi heldur það bara áfram með sín plön, fer í háskóla eða beint að vinna. En þegar ég fór kviknaði á einhverjum rofa og ég hef hreinlega ekki hætt að ferðast síðan. Þegar ég er búin í einni ferð fer ég strax að hugsa um þá næstu og þannig hefur það verið síðan’’. 

Instagram er góður staður til þess að koma sér á framfæri og láta fólk vita af sér. Instagram hefur hjálpað Kolbrúnu verulega við að fá verkefni og kynnast fólki um allan heim. Kolbrún starfaði sem fyrirsæta þegar hún var yngri. Hún tekur einstaka sinnum verkefni að sér en  þegar hún gerir segir hún þau oftast vera greiðar fyrir vini. Því þessa dagana vill hún helst vera hinum megin við myndavélina og nýtir reynslu sína sem fyrirsæta þar. 

En hvað er á döfinni hjá Kolbrúnu Ýr í sumar ? 

,,Sumar á Íslandi er best í heimi. Ég vil helst nota mest allan tímann heima og ferðast um fallega Ísland. Ekkert er skemmtilegra en að keyra hringinn í kringum landið með góðum félagskap, hoppa í heita laug á bjartri sumarnóttu og kanna nýja staði. Þannig að plönin hjá mér eru að vinna, prufa nýja hluti og bara njóta Íslands’’.


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé í sumar.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.