Geðrækt, forvarnir og snemmtæk íhlutun

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Geðrækt, forvarnir og snemmtæk íhlutun er viðfangsefni stórrar norrænnar ráðstefnu um geðheilbrigði barna í Reykjavík 28. mars. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Íslands sem leiðir samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu ári. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flytur opnunarávarp ráðstefnunnar.

Á ráðstefnunni verður kastljósinu beint að því hvernig betur megi nýta skólakerfið til að efla geðheilbrigði barna. Norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar, fagfólk og fulltrúar stjórnsýslu og ungmenni munu leiða saman hesta sína á ráðstefnunni til að ræða þessi mál.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra boða til ráðstefnunnar en hana munu sækja norrænir samráðherrar þeirra og taka þátt í pallborðsumræðum um þessi mál og bera saman bækur sínar. 

Mikil áhersla er á þátttöku ungmenna í ráðstefnunni. Pallborð ráðherranna og lykilerindi sérfræðinga um árangursríkar leiðir að þessu markmiði munu vísa veginn. Einnig verður boðið upp á vinnustofu um hagnýtar leiðir fyrir kennara og aðra sem vinna með börnum til að efla félags og tilfinningafærni barna, málstofu um jaðarsett börn og mikilvægi samráðs við börn og málstofu um heilbrigði skólabarna.

Málstofurnar verða með stuttum erindum fagfólks og ungmenna og svo á formi gagnvirks pallborðs þar sem leitast verður að draga fram leiðir til bóta. Í lok dags munu norræn ungmenni ræða sína upplifun og sýn á markmið ráðstefnunnar.  Lögð er áhersla á að lausnamiðaða nálgun og verður ráðstefnan eins gagnvirk og mögulegt er svo að allir geti verið virkir þátttakendur í umræðunni.

Ráðstefnan verður haldin á ensku og ber titilinn Emotional wellbeing of children: School as the venue for mental health promotion, prevention and early intervention.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og öllum opinn, en mikilvægt er að fólk skrái þátttöku sína.

  • Skráning og nánari upplýsingar eru á vefsíðu ráðstefnunnar: www.summit2019.is