Hamingjan er í raun andstæða skuggans sem við vörpum af okkur

Páll Skúlason 1945-2015.

Hamingjunni nær maður aldrei beint, heldur óbeint. Hún er fylgidís líkt og skugginn. Hún er hljóðlát, og fótatak hennar heyrist ekki fremur en skuggans.“ Þórarinn Björnsson, (Rætur og vængir II, bls. 266).

Fjölmargir heimspekingar hafa leitast við að finna svör við spurningum um hamingjuna, ánægjuna og tilgang lífsins. Platon hélt því fram að það væri grundvallaratriði að breyta vel og af réttlæti til þess að farnast vel. Sá sem breytir ekki vel og lætur sífellt undan hvötum sínum og utanaðkomandi þrýstingi vanrækir sjálfan sig.

Jóhann Björnsson heimspekingur segir að lýsandi dæmi um þetta sé sá sem lætur undan taumlausri löngun í áfengi eða fíkniefni. Sá verður á endanum vansæll og fer á mis við hið góða líf. Að breyta ranglega gagnvart öðrum er einnig manni sjálfum fyrir verstu að mati Platons. Réttlæti er dyggð sem er lýsandi fyrir heilbrigða sál. Sá sem er réttlátur og hefur heilbrigða sál er að mati Platons, hamingjusamur.

Að eltast við skuggann af sjálfum sér

Einn mesti hugsuður í seinni tíma sögu hér á landi, var Páll heitinn Skúlason heimspekiprófessor og rektor Háskóla Íslands. Eins og margir heimspekingar velti hann oft hamingjunni fyrir sér.

„Er það að leita hamingjunnar eins og að eltast við skuggann af sjálfum sér? Já, ef við ímyndum okkur að hægt sé að höndla hamingjuna í eitt skipti fyrir öll. Nei, ef við viðurkennum að við höfum ekkert vald yfir hamingjunna, heldur ráðum einungis yfir sjálfum okkur,“ sagði Páll.

„Getum við þá ekkert gert til að vera hamingjusöm? Öðru nær: við getum verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur lífinu gildi. Og við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem glæðir lífið birtu og hlýju.

Hamingjan er í raun andstæða skuggans sem við vörpum af okkur, hún er eins og sól  sem skín á okkur – sól sem við hvorki sköpum né stjórnum en getum stundum baðað okkur í geislum hennar.“

Þessi grein er hluti af safni Viljans af jákvæðu, fræðandi og uppbyggilegu efni. Okkur finnst vanta meira af slíku efni á Netinu. Þótti þér þessi grein fróðleg? Deildu henni þá til þeirra sem þú telur að gætu haft gagn að henni.