Í dag þriðjudaginn 12. maí fagnar Hjálpræðisherinn á Íslandi 125 ára afmæli sínu. En það var þann 12. maí 1895 að starfsemi Hjálpræðishersins á Íslandi hófst með útisamkomu á Lækjartorgi og síðar þann sama dag annarri samkomu í Góðtemplarahúsinu
Hjálpræðisherinn er alþjóðleg evangelísk hreyfing, hluti af hinni almennu kristnu kirkju. Boðskapurinn grundvallast á Biblíunni. Þjónustan er knúin af kærleika Guðs. Verkefnið er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists og í hans nafni mæta þörfum fólks án mismununar.
Hjálpræðisherinn hefur þessi 125 ár komið að íslensku samfélagi með ýmsum hætti, bæði hvað varðar velferðarstarf sem og trúarstarf en árið 2012 var Hjálpræðisherinn skráður sem sjálfstætt trúfélag.
Hjálpræðisherinn hefur m.a. rekið verkkennslu fyrir börn (1898), stofnaði fyrsta fatamarkað sinn, Dorkasbandalagið, rekið Vinnumálaskrifstofu (1908), sjómannaheimili víða um land, aðstoð við fólk sem býr við fátækt með skipulögðum hætti allt frá árinu 1928, rekið sjúkrahús og vöggustofu svo eitthvað sé nefnt.
Hjálpræðisherinn rak starfsemi sína víða um land á árum áður, í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Siglufirði og Seyðisfirði. Í dag hefur Hjálpræðisherinn þrjár starfsstöðvar, í Reykjavík, á Akureyri og í Reykjanesbæ.
Um árabil rak Hjálpræðisherinn vistheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi, heimili fyrir geðfatlaða karla og um 8 ára skeið rak herinn einnig dagsetur fyrir Heimilislausa á Granda.
Upphafið að starfsemi Hjálpræðishersins má rekja til ársins 1865 þegar hjónin Catherine og William Booth hófu að bera út fagnaðarerindið í fátækrahverfinu Whitechapel í London. Á fáum árum breiddist starfsemi Hjálpræðishersins út um allan heim og festi hreyfingin fætur hér á landi árið 1895.
Starf Hjálpræðishersins á Íslandi hófst þann 12. maí 1895, með útisamkomu á Lækjartorgi og samkomu í Góðtemplarahúsinu. Frumherjar starfsins hér á landi voru tveir foringjar, Christian Erichsen yfirforingi frá Danmörku ásamt kapteininum Þorsteini Davíðssyni frá Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Strax á upphafsárinu festu þeir kaup á steinhúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hefur gjarnan verið kallað Herkastalinn. Í húsinu var lengi rekið gistiheimili en þar var einnig starfsemi Reykjavíkurflokks. Á tímabili voru gistihús Hjálpræðishersins opin á sjö stöðum á landinu. Flest þessi heimili voru rekin sem griðarstaðir fyrir fólk sem hvergi átti höfði sínu að halla.
Árið 2016 var Herkastalinn seldur og nú standa yfir framkvæmdir við nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut. Áætluð verklok eru haustið 2020. Nýja húsnæðið mun hýsa starfsemi Hjálpræðishersins í Reykjavík, aðalskrifstofu Hjálpræðishersins á Íslandi, Hertex verslun, kaffihús og velferðarstarf.
Árið 2016 seldi Hjálpræðisherinn höfuðstöðvar sínar til 120 ára í Kirkjustræti og festi kaup á lóðinni við Suðurlandsbraut 72 í Reykjavík. Þar rísa nú nýjar höfuðstöðvar hersins og mun allur aðbúnaður í nýja húsinu hæfa starfsemi Hersins í Reykjavík eins og hún er í dag. Verkinu miðar vel og er áætlað að vígsla hins nýja húsnæðis fari fram um miðjan september og mun þá öll starfsemi aðalskrifstofu auk starfsemi Hjálpræðishersins í Reykjavík, sem nú er í Mjódd flytjast á nýjan stað.
Heimasíða Hjálpræðishersins er www.herinn.is