Hollywood-stjörnur í púli í Breiðdal?

Bandarískt afþreyingarfyrirtækið The Ashram hefur hafið sölu á Íslandsferðum þar sem bækistöðin verður í Breiðdal. Margar af skærustu sjónvarps- og kvikmyndastjörnum sögunnar hafa nýtt sér ferðir fyrirtækisins í gegnum tíðina.

Fyrirtækið hóf starfsemi árið 1975 og meðal þeirra sem nýtt hafa sér þjónustu þess í gegnum tíðina eru meðal annarra Oprah, Barbara Streisand og Gwyneht Palthrow.

Í ferðum fyrirtækisins er lögð áherslu á hreyfingu og útivist til að efla líkamlegt hreysti þátttakenda. „Fyrir 45 árum voru Bandaríkjamenn í slæmu ásigkomulagi, líkamlega sem andlega. 

Í þá daga var ástandið svo slæmt að ef fólk gat gengið upp heimreiðina þá var það í góðu formi. Nú getum við farið í 20 km göngur,“ er haft eftir Catharinu Hedberg í stórtímaritinu Vogue.

Hedberg er þar í viðtali til að kynna nýjustu vöru fyrirtækisins sem er ferðin til Breiðdals þar sem bækistöðin verður á sveitahótelinu Silfurbergi að Þorgrímsstöðum innst í dalnum.

„Við erum lengst, lengst uppi í fjöllum. Staðurinn er með hreint vatn, hreint loft og hreina orku. Ég hef aldrei kynnst öðru eins,“ er haft eftir Hedberg, sem meðal annars hefur farið með ferðalanga til Mallorcu.

Áhugasömum er heitið því að þeir muni njóta náttúrulauga, smakka fisk úr dalnum – sem er eina undantekningin frá matseðli sem inniheldur aðeins grænmeti. Það verður sótt í Vallanes á Héraði og matreitt af íslenskum matreiðslumeistara.

Dagskrá dvalarinnar er að sögn Hedberg einföld en áhrifarík þar sem hver dagur hefst á gönguferð klukkan átta að morgni. Reiknað er með sex tíma göngu og annarri hreyfistund, sem sem boxi, þegar komið er heim áður en deginum lýkur með jóga æfingum.

„Eru göngustígar þarna? Nei – en við höfum fararstjóra sem þekkja vel til með okkur,“ er haft eftir Hedberg sem lofar því að efnahagslíf Breiðdælinga muni njóta góðs af innrásinni frá Kaliforníu.

„Á næsta bæ er amma sem býr til hinar dýrlegustu en jafnframt ódýru ullarpeysu, húfur, vettlinga og trefla. Við munum ráðast inn til hennar. Við eigum eftir að vilja versla.“