Hvernig voru bernskujólin þín? Hvaða minningar átt þú af jólum?

Sr. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur í Hjallakirkju.

Jólapredikun sr. Sunnu Dóru Möller sóknarprests við Hjallakirkju í Kópavogi við aftansöng á aðfangadegi jóla í gærkvöldi.

Hvað fer í gegnum huga þinn á þessari stundu þegar jólin ganga í garð?

Ertu með hugann við jólasteikina sem mallar í ofninum? Áttu eftir að brúna kartöflurnar eða kvíðirðu því að ná ekki réttu bragði á sósunni, eins og mamma þín gerði og allar kvenkynslóðirnar sem á undan hafa gengið.

Eða ertu spennt eða spenntur fyrir að opna pakkana sem hvíla undir trénu, færðu einn fyrir mat til að róa spennustigið aðeins svo að hægt sé að borða í svona þokkalegum rólegheitum miðað við aðstæður.

Er eitthvað annað sem hvílir á þér en matargerð og pakkar.

Framkalla jólin hjá þér tilhlökkun, barnslega gleði, spennu fyrir komandi samverustundum með fjölskyldu og vinum.

Eða finnurðu fyrir sorg, kvíða, streitu eða þreytu eftir það annasama aðventu, að þú óttast mest að sofna ofan í matardiskinn þinn við hátíðarborðið.

Hvað er til ráða við jólastreitunni?

Ég hef orðið sérstaklega vör við það síðastliðna daga og vikur að fjölmiðlar eru fullir af fréttum og umfjöllunum um jólastreitu og hvað sé til ráða við henni, fréttablöðin og sjónvarpsstöðvarnar kalla til sérfræðinga og álitsgjafa til að ræða þetta sérstaka vandamál og um það hvernig við getum brugðist við með árangursríkum hætti.

Hvað er það við þennan tíma sem gerir það að verkum að hann snertir okkur svona gjörsamlega inn að kviku, þannig að við upplifum mörg hver ákveðið stjórnleysi í okkar lífi allan desember, fljótum með öfganna á milli frá því að jólin detta inn í Ikea og áreitið stigmagnast jafnt og þétt fram til þessa dags, aðfangadags jóla.

Ég þekki það sjálf að hafa blendnar tilfinningar til þessa tíma ársins. Ég man þegar ég var lítil hvað ég hlakkaði alltaf mikið til jóla, enda tel ég mig lánsama að hafa fengið falleg jól í bernskugjöf, þar sem foreldar mínir lögðu mikið á sig til að við upplifðum saman gleðileg jól.

Það er ekki langt síðan að þessi tilfinning breyttist að ákveðnu leyti og ég held að það hafi komið með árunum og tengist breytingum í kringum mig og á mér sjálfri. Reynslan, lífið og vonandi aukinn þroski koma þar sterkt við sögu ásamt fólkinu mínu sem hefur horfið af braut og var náinn hluti af bernskujólunum mínum. Ég hlakka enn til en þó á annan hátt en þegar ég var barn.

Miklar og sterkar tilfinningar

Við tengjum þennan tíma svo sterkt fólki, tilfinningum, aðstæðum, hefðum og vana. Þetta getur orðið svo sterkt að þegar aðstæður breytast, þá hefur það áhrif á okkur, persónu okkar og það hvernig við meðtökum þennan tíma sem aðventan og jólin eru.

Hvernig voru bernskujólin þín? Hvaða minningar átt þú af jólum? Upplifðir þú tilhlökkun og gleði, nánd og kærleika? Eða upplifðir þú ótta, vanmátt, vonbriðgði, einmanaleika og sorg?

Taktu eftir því, að allt þetta stigmagnast á þessum tíma og er hluti af því hvernig þú bregst við aðventu og jólum í dag. Margir finna fyrir depurð á þessum tíma, einmitt þegar skilaboðin eru þau að allir eiga að vera svo ofboðslega glaðir. Þetta er tími gleðinnar, ljóssins og tilhlökkunarinnar! En kannski situr þú bara uppi með tómleikatilfinningu, vanmátt, kvíða og sorg eða ert bara einfaldlega full eða fullur sektarkenndar yfir því að vera ekki svona ofboðslega glöð eða glaður.

Ég held að stóra myndin sé sú að við verðum að kannast við okkur sjálf, hvaðan við komum og hvað við erum með í bakpokanum okkar og hvort við séum búin að taka til í honum. Koma reiðu á óreiðuna.

Hvað er það sem veldur?

Þegar eitthvað snertir okkar innsta kjarna líkt og þessi tími gerir, þá er það grundvallaratriði, að þekkja hvað það er sem veldur okkur hugarangrinu, kvíðanum, streitunni eða sorginni.

Og þegar eitthvað snertir, á þennan hátt okkar innsta kjarna, þá finnum til þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera, við verðum óróleg, því grunnurinn og kjarninn er ekki heill. Þegar heilbrigðið vantar þá verður allt umhverfið erfitt, vanvirkt og meðvirkt.

Sjálfsþekking hjálpar okkur að setja okkur sjálfum og öðrum mörk. Þegar við vitum hvað það er sem hleypir tilfinningum okkar af stað, þekkjum kveikjurnar okkar, þá eigum við auðveldara með að bregðast við streitunni og kvíðanum.

Kannski er gömul sorg, áfall eða vonbrigði úr æsku kveikjan þín?

Kannski er það óuppgerður samskiptavandi innan fjölskyldunnar sem kveikja kvíða hjá þér fyrir að mæta í fjölskyldujólaboðin og mæta fólki þínu?

Kannski ertu nýbúin að missa náinn ástvin og ert að feta þig áfram á þessum tíma í fullkomnu myrkri í breyttum aðstæðum sem þú sást ekki fyrir eða gast ekki búið þig undir?

Kannski eru það einfaldlega óraunhæfar kröfur sem þú gerir til þín þess efnis að allt verði að vera fullkomið á þessum tíma, kveikjan þín að jólastreitunni?

Það að kannast við sig og allt það sem mótar okkur, mun gera það að verkum að við getum ósjálfrátt lágmarkað það sem veldur okkur erfiðleikum á þessum tíma og þegar það er þannig, þá þurfum við ekki álitsgjafa í fjölmiðlum sem skilgreina okkur og líf okkar, heldur getum við brugðist sjálf við af því að við kunnum að setja okkur og öðrum mörk.

Og þá jafnvel förum við smátt og smátt að finna hvað það er sem gerir þennan tíma merkilegan, fallegan og friðsælan. Þá ríkir ekki lengur togstreitan milli stríðs og friðar, heldur hugsanlega bara friðurinn einn.

Við finnum Guð í kyrrðinni

Ég las það í bók eftir Eckhart Tolle sem skrifar um það að lifa í núinu, að það sé á milli tveggja hugsana, í kyrrðinni sem við finnum Guð. Þessi hugsun hefur haft áhrif á mig, því það er alveg rétt að þegar við erum stödd mitt í óreiðunni, stjórleysinu, streitunni og kvíðanum, þá er ekki rými fyrir Guð.

Við höfum eflaust flest gengið inn að vöggu ungbarns sem sefur. Það eru merkilegir hlutir sem eiga sér stað við vögguna. Við verðum öll örlítið mýkri, hljóðari og umgöngumst þessar aðstæður líkt og heilagar væru.

Það er ekkert eins heiðarlegt, einlægt og saklaust og sofandi ungbarn sem hvílir öruggt í trausti þess að um það sé hugsað, það sé fætt og klætt og því sé gefinn sá kærleikur sem það á skilið í þessum heimi. Þar á að ríkja friður en ekki stríð.

Það er á þessum stað sem við getum líka fundið Guð.

Hvert einasta mannsbarn sem er fætt inn í þennan heim ber með sér möguleikann á því að frelsa heiminn, fái það tilheyrandi umönnun og kærleika.

Hvert einasta mannsbarn sem kemur inn í þennan heim hefur guðlegan neista, sem okkur ber að varðveita og vernda líkt og María og Jósef gerðu forðum í Betlehem þegar þau lögðu á sig töluverðar fórnir til að vernda nýfæddan Jesú fyrir ógnum og valdi heimsins.

Þar könnuðust þau við sig sjálf en um leið þekktu þau ábyrðina sem þeim var falin í þessu barni.

Fjölskylda, heilög þrenning

Og um leið voru þau ekki lengur þau sjálf heldur fjölskylda, heilög þrenning sem hlaut það hlutverk að lifa af í ótryggum heimi svo við sem á eftir kæmum fengjum tækifæri til að heyra hinar góðu fréttir: Verið óhrædd!

Hvað er það sem fer í gegnum huga þinn á þessari stundu þegar jólin ganga í garð?

Það er einlæg ósk mín til þín hér í kvöld að þú finnir þennan frið, þessa kyrrð og trúir þessum skilaboðum sem berast frá Betlehem til þín: Þú þarft ekki að óttast. Þú hefur allt innra með þér til að lifa af, þú hlaust það í vöggugjöf frá góðum Guði sem lofar þér að víkja aldrei frá þér, heldur fylgja þér alla daga, allt til enda veraldar.

Hann segir við þig í kvöld: Það er allt í lagi að vera sú manneskja sem þú ert á jólum og alla aðra daga, með allar þínar tilfinningar, sorgir og gleði.

Þú mátt leyfa minningunum að streyma, leyfa þér að vera til, þú mátt verða örlítið meyr og sakna og þú munt finna þína leið til að halda áfram og þú munt finna trúna á það að lífið hafi tilhneigingu til að fara vel ef við gefum okkur sjálfum tækifæri og leyfi til að vera breysk en um leið mennsk.

Í kvöld er þér gefið tækifæri til að kannast við þig og finna hver þú raunverulega ert og hvernig þú vilt vera sem manneskja. Og undir öllu ómar englakórinn sem syngur

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Góður Guð gefi ykkur öllum góð og gleðileg jól.

Amen.