Í von um að fleiri taki sjálfa sig í sátt og læri að elska sig á heilbrigðan hátt

Frá fyrirlestrinum í gærkvöldi.

„Ég fór á sjálfshjálparvakningarsamkomuna hennar Öldu Karenar í Laugardalshöllinni,“ segir Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands í færslu á fésbókinni, þar sem hann greinir frá upplifun sinni af hinum umtalaða fyrirlestri  Öldu Karenar Hjaltalín, sem fór fram í Laugardalshöll í gærkvöldi fyrir fullum sal.

„Sjálfum þykja mér svona samkomur forvitnilegar út frá trúarbragðafélagsfræðilegum forsendum en hæglega má greina það sem þarna fór fram sem audience cult en það má þýða á íslensku sem hóp einstaklingshyggjusinnaðra áheyrenda enda um að ræða fólk úr ýmsum áttum sem hvert og eitt nýtir sér ákveðinn boðskap alfarið á eigin persónulegum forsendum,“ segir Bjarni.

„Skipulag slíkra hópa getur verið lítið sem ekkert, enginn beitir neinn félagslegu taumhaldi að ráði og kennvaldið verður aldrei meira en hver og einn sættir sig við ef það er nokkuð á annað borð. Cult hugtakið hefur því allt aðra merkingu hér en tíðkast meðal trúarbragðaandstæðinga af ýmsum toga og í neikvæðum fjölmiðlaumfjöllunum um umdeilda trúarhópa af sértrúarlegum toga. Hvort slíkur hópur einstaklingshyggjusinnaðra áheyrenda geti flokkast sem trúarlegur er svo komið undir því hvernig trúarhugtakið er skilgreint.

Alda Karen lífleg og afar einlæg

Dagskráin hófst með líflegum og afar einlægum fyrirlestri Öldu Karenar þar sem hún talaði almennt um mikilvægi jákvæðrar sjálfsmyndar undir formerkjum slagorðsins „Ég er nóg‟. Í kjölfarið sýndi hún svo stutta kynningu af myndbandi frá bandarískum fyrirlesara sem hún er í tengslum við og fékk tvo Íslendinga í eins konar stofuviðtal, fyrst rope yoga gúrúinn Guðna Gunnarsson sem í kjölfarið flutti eigin fyrirlestur um sama efni út frá eigin sjónarhóli og síðan hjúkrunarfræðinginn Sigríði A. Pálmarsdóttir sem beitir sjálfsdáleiðslu sem meðferðarúrræði.

Guðni Gunnarsson.

Fyrir mér virkaði þetta eins og trúarsamkoma enda var nokkuð um trúarlegar skírskotanir hjá öllum fyrirlesurunum en þó alveg sérstaklega Guðna og Sigríði. Það sem einkenndi framsetningu allra var áherslan á orkuna (eða lífsorkuna) sem flæðir um allt en að auki vísaði Guðni í almættið og nefndi Sigríður (ef ég tók rétt eftir) gagnsemi dáleiðslu í að greina önnur (eða fyrri) líf. Þó svo að jógahugtakið hafi bara komið við sögu í formi Rope Yoga á einni glæru að baki Guðna var alveg ljóst að efnisatriðin í fyrirlestri hans voru mörg hver í ágætu samræmi við þau fræði. Engin trúarbrögð voru þó nefnd til sögunnar og engu þarna var beint gegn nokkrum trúarbrögðum. Og þó svo að þetta hafi virkað sem trúarsamkoma á mig efast ég um að það hafi gilt um aðra viðstadda nema í undantekningartilfellum.

Engum töfralausnum var heitið, engir læknar eða sálfræðingar voru gagnrýndir og engu var afneitað í vestrænum heilbrigðisvísindum.

Fyrirlestrarnir reyndust ósköp saklausir og viðtölin ágætlega áhugaverð og kom raunar ekkert þar fram sem talist getur á nokkurn hátt varhugavert. Alda Karen hefur verið gagnrýnd fyrir óvarlega eða illa ígrundaða framsetningu í kynningu sinni á þessu námskeiði en reyndi greinilega að vanda sig þegar að því kom. Engum töfralausnum var heitið, engir læknar eða sálfræðingar voru gagnrýndir og engu var afneitað í vestrænum heilbrigðisvísindum.

Allt það fólk sem kom þarna fram virkaði á mig sem góðviljaðir einstaklingar sem vildu gera sér grein fyrir eigin takmörkunum og miðla áfram þeirri reynslu og þeim þroska sem þeir hefðu þegar náð að afla sér í von um að fleiri taki sjálfa sig í sátt og læri að elska sjálfa sig á heilbrigðan hátt.

Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur.

Í raun var framsetningin að verulegu leyti sjálfhverf þótt sömuleiðis væri aðeins komið inn á jákvæð samfélags áhrif jákvæðrar sjálfsmyndar og gagnsemi hennar fyrir náungann. Segja má að áhersla fyrirlesaranna hafi verið í ágætu samræmi við þau orð Jesú Krists að manni beri að elska náungann eins og sjálfan sig en það sagði hann líkt æðsta og fremsta boðorðinu um að elska Drottinn Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga og væri það grunnur (og þar með túlkunarlykill) alls lögmálsins (Mt 22:37-40).

Þetta þýðir með öðrum orðum að jákvæð sjálfsmynd er forsenda þess að menn elski náungann með heilbrigðum hætti en hjá fyrirlesurunum var megináherslan á sjálfan upphafsreitinn, nauðsyn þess að byggja upp jákvæða sjálfsmynd, og gerðu þeir það með einföldum og skilmerkilegum hætti á alþýðlega vísu.“

Bjarni var lítt hrifinn af lokaatriðinu, þar sem þúsund gestir voru kallaðir úr stúkunum fram á gólf til að taka þátt í „í einni allsherjar sjálfstyrkingarhópæfingu“ en hann segir Öldu Kareni vera hæfileikaríka og hann vonist til þess að hún eigi eftir að feta menntaveginn frekar.

Snarlega snúin niður með hávísindalegum rökum og hroka

Óttar Guðmundsson geðlæknir fjallar um boðskap Öldu Karenar í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag og segir hana hafa skýran og góðan boðskap.

Óttar Guðmundsson geðlæknir.

„Sjálfsvíg eru eitt erfiðasta viðfangsefni geðlæknisfræðinnar. Árlega falla um 40 manns fyrir eigin hendi. Heilbrigðisyfirvöldum hefur ekki tekist að lækka þessar tölur þrátt fyrir öll sín geðlyf, fræðslu, fyrirbyggjandi aðgerðir og samtalsmeðferðir.

Nú á dögunum kom fram ung kona með boðskap. Hún kynnti nýgamla aðferð til að auka sjálfstraust og sjálfsþekkingu. Menn skyldu fara með einfalda möntru og jafnframt kynnast eigin styrkleikum. Mikill fjöldi fólks vildi hlusta á þessar kenningar. Hún leyfði sér að segja að þessar einföldu aðferðir gætu mögulega lækkað tíðni sjálfsvíga. Samfélagið fór á hliðina og konan var snarlega snúin niður með hávísindalegum rökum og hroka.

En konan nýtir sér nýja tækni sem heilbrigðiskerfið þekkir illa. Hún kann á hið talaða orð. Ungt fólk sem ekki les hlustar á hana. Boðskapurinn er kannski barnalegur en hann er aldrei hættulegur. Það getur ekki skaðað nokkurn mann að tuldra fyrir munni sér „ég er nóg“, nokkrum sinnum á dag. Það lýsir mikilli forræðishyggju að halda að fólk geti farið sér að voða með þessum kenningum. Kannski nær konan til einhvers í sjálfsvígshættu
og hjálpar honum/henni að sjá ljós í myrkrinu. Þá er mikið unnið,“ segir Óttar.