Jólin sem ég mun aldrei gleyma

Ég veit að ég átti ekki að vera alveg svona spennt. Ég var of gömul til þess. Ég var ellefu ára, elst systkina minna og stóra stelpan hennar mömmu minnar og varð þess vegna að sýna stillingu. En hvenær sem færi gafst og ég var ein, stalst ég til þess að skoða pakkana undir trénu og lesa á merkimiðana. Skoða hvern pakka vel og vandlega, þreifa á hverjum og einum og giska á innihaldið. Ég var búin að grandskoða hvern einasta pakka svo vel að ég gat sagt hver átti hvern án þess að skoða merkimiðann.

Þetta var búið að vera erfitt ár fyrir fjölskylduna mína. Mamma var oft búin að vara okkur börnin við og segja að gjafirnar yrðu ekki dýrar eða margar þetta árið. Hún bað okkur að verða ekki vonsvikin.

Allajafna höfðu foreldrar mínir dekrað okkur börnin á jólum og stundum þakti pakkaflóðið nánast allt stofugólfið. Ég hafði heyrt málsháttinn um að sælla sé að gefa en þiggja, en taldi að sá sem fann hann upphafi ekki vitað mikið um lífið og tilveruna. Að fá fallegar gjafir var auðvitað best í heimi! Það var ástæða þess að maður svaf varla af spenningi í aðdraganda jólanna.

Í Bandaríkjunum fáum við gjafirnar að morgni jóladags og við systkinin biðum spennt frammi á gangi þar til pabbi sagði okkur að allt væri klárt. Við hlupum undireins inn í stofu og ekki leið á löngu þar til gjafapappírinn lá í tætlum út um allt. Við reyndum auðvitað að vera þolinmóð og bíða þar til hver og einn var búinn að opna sína pakka, en smám saman voru allir farnir að taka þá upp jafnóðum í samfelldri gleðivímu.

Mamma er svona manneskja, sem tekur eftir því að það eru fjórar sneiðar eftir af kökunni og það sitja fimm við borðið og hún man þá skyndilega eftir því að hún er ekki sérlega hrifin af kökum.

 Tenneva Jordan.

– Hér er annar pakki handa þér, sagði mamma um leið og hún rétti mér fagurlega skreyttan pakka. Ég leit ringluð á hana. Þar sem ég þekkti alla pakkana undir trénu út og inn, vissi ég vel hvaða pakki þetta var og hverjum hann tilheyrði. Mamma átti að fá hann, en ekki ég. Ég sá að búið var að skipta um merkimiða. Mitt nafn var komið á nýja merkimiðann. Þetta var skriftin hennar mömmu.

—Mamma, en ég get ekki, sagði ég.

Ég var stoppuð af áður en ég gat lokið við setninguna.

Brosandi bætti hún við:

—Sjáum hvað þetta er, flýttu þér að opna pakkann!

Þetta var hárblásari. Stórglæsilegur og svartur hárblásari. Þótt það hljómi kannski eins og hver önnur gjöf, var þetta svo miklu annað og meira í mínum huga. Ég var ellefu ára og skynjaði allt í einu lífið og tilveruna með allt öðrum hætti en áður. Mér hafði alltaf þótt best í heimi að fá fallegar gjafir, en nú skynjaði ég gjafmildi móður minnar og óeigingirni. Þetta var stórmál fyrir mér. Augu mín fylltust af tárum og ég velti því fyrir mér hversu mikið mamma mín elskaði mig úr því hún var tilbúin að fórna sinni eigin gjöf til þess að bæta einum pakka við hjá mér.

Æ síðan hef ég minnst þessara jóla með hlýju í hjarta. Þetta hafði svo mikil áhrif á mig. Ég er löngu orðin fullorðin kona og á mín eigin börn sem ég auðvitað elska út af lífinu. Ég skil núna vel hvað vakti fyrir henni mömmu minni. Hennar gleði fólst í því að gleðja barnið sitt. Hún setti sjálfa sig í annað sæti á eftir mér. Á jólunum er sannarlega sælla að gefa en þiggja.

Þessi dásamlega gjöf frá mömmu minni, er enn þann dag í dag besta jólagjöf sem ég hef nokkru sinni fengið.

Gömul bandarísk jólasaga sem birtist upphaflega í Readers digest.