Kapítalisminn fæddi af sér réttindi hinsegin fólks

Palestínsk yfirvöld banna starfsemi samtaka hinsegin fólks.

David Boaz hjá Cato stofnuninni skrifaði nýverið um kapítalisma og frelsun samkynhneigðra. Viljinn birtir hér útdrátt úr greininni.

Sumir sagnfræðingar vilja þakka sósíalisma fyrir réttindi samkynhneigðra í nútímanum. En þeir eru að blanda hugmyndum fræðimanna saman við raunveruleikann.

Jim Downs er sagnfræðingur við Connecticut framhaldsskólann og Harvard. Hann er sérfræðingur í sögu kynþátta og þrælahalds, og gaf nýverið út bókina Stand by me: The Forgotten History of Gay Liberation, þar sem hann reynir að beina sjónum að öðrum þáttum í nýliðinni sögu samkynhneigðra, en kynlífi og AIDS.

Downs skrifaði líka nýja grein í netritið Aeon, þar sem hann segir:

„Á áttunda áratugnum, spekúleraði hinsegin fólk um kosti sósíalisma í bókum og ritgerðum, og gagnrýndi kapítalisma í gegnum vaxandi áhrif dagblaða og prents.“ Hann heldur áfram að ræða „hinsegin hópa“ og dagblöð sem „gerðu sósíalisma að leiðandi afli hreyfingarinnar“. Aðallega reynir hann að rökstyðja að „ef menn vilji gefa út viðurkenningu fyrir að jafnrétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband hafi náðst, þá verði hún einnig að ganga til sósíalisma“.

Það er margt rangt við þessa fullyrðingu. Til að byrja með er hún ýkt. Ég man eftir áttunda áratugnum og mundi segja að sósíalismi hafi verið á jaðri hingsegin samfélagsins og í réttindabaráttu samkynhneigðra. Samkynhneigðir aktívistar hölluðust vissulega til vinstri, en það var vegna þess að þau voru að reyna að koma sínum málum áfram í gegnum Demókrataflokkinn.

Í annan stað voru samkynhneigðir frjálshyggnir rithöfundar á sama tíma í fræðasamfélaginu, í fjölmiðlum og viðloðnir Frjálshyggjuflokkinn (Libertarian Party), að benda á kosti frjáls markaðar og vandamálin við sósíalisma.

Í þriðja lagi tilheyrir notkunin á orðinu „hinsegin (LGBT)“ nútímanum. Það var aldrei notað á áttunda áratugnum (Hann notar það sjaldan í bókinni).

Meira en orðum aukin

En greinin hans er meira en orðum aukin. Hún er röng, og í greininni sjálfri eru sannanir fyrir því. Í greininni miðri, um hvernig sósíalismi á að hafa hrundið af stað réttindabaráttu og frelsun samkynhneigðra, tínir hann til verk sagnfræðingsins John D’Emilio um hvernig „kapítalismi gerði hinsegin fólki kleift að flytja til borganna og verða efnahagslega óháð fjölskyldunni. Um leið og kapítalisminn skapaði tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi, gátu samkynhneigðir valið að lifa á þann hátt sem var þeim eiginlegur.“

Þrátt fyrir að D’Emilio hafi einnig hallast til vinstri, sá hann heimin í skarpara ljósi en Downs gerir. Allar framfarir í mannréttindamálum bandarískrar sögu – afnám þrælahalds, kvenréttindi, borgararéttindi og réttindi hinsegin fólks – hafa vaxið upp úr grundvallarhugmyndinni frjálst líf og leitina að hamingjunni. Áherslan á einstaklinginn, fengin úr Upplýsingunni, einstaklingshyggja frjáls markaðar og krafan um frelsi og réttindi einstaklingunum til handa, sem sem fékk að auki innblástur úr bandaríska þrælastríðinu. Það hafði fengið almenning til að huga betur að einstaklingnum, og viðurkenna smám saman að virðing fyrir rétti einstaklinga, skyldi ná til alls fólks.

Þessar bylgjur hugmynda leiddu fljótt til kvenfrelsisbaráttu og afnáms þrælahalds. Það tók fólk lengri tíma að taka samkynhneigð í sátt, sem viðurkenndan eiginleika frjálsra einstaklinga með réttindi. En frjálshyggjumenn og klassískt frjálslyndir fyrirrennarar þeirra voru fyrstir. Frá Adam Smith og Jeremy Bentham til Frjálshyggjuflokksins og Cato-stofnunarinnar (þar sem ég starfa), urðu frjálshyggjumenn á undan öðrum hugsuðum, þegar kom að því að færa hugmyndir um frelsi og ábyrgð einstaklinga upp á hinsegin fólk.

Kapítalismi er auðvitað meira en hugmynd. Hann er samansafn stofnana sem Downs bendir réttilega á að hafi orðið fyrir beittri gagnrýni hinsegin sósíalista. En eins og D’Emilio kom auga á, þá var það í reynd kapítalismi sem gerði einstaklingunum kleift að blómstra og lifa sjálfstæðu lífi. Kapítalisminn frelsaði fólk undan sjálfsþurftabúskap og stífum fjölskyldugildum. Hann leyfði þeim að skapa sitt eigið líf í markaðshagkerfi, sem hafði nóg rými fyrir hina fjölbreytilegustu einstaklinga og störf þeim til handa upp á að bjóða. Gaf þeim frelsi og auð til að komast af upp á eigin spýtur.

Kapítalismi leiddi til iðnbyltingarinnar, sem fæddi af sér meiriháttar þéttbýlismyndun. Sú þróun bauð upp á að verða óþekktur í stórborg fyrir hvern þann sem annars hefði koðnað niður undir þröngsýni fjölskyldna og smáþorpa, auk möguleikans á því að kynnast öðrum í svipaðri stöðu. Rithöfundurinn Eric Marcus gerði bók með viðtölum við hinsegin aktívista, Making History. Það sem viðmælendur höfðu að segja – jafnvel án þess að átta sig á því sjálfir – var að það var frelsið til að komast að heiman og möguleikinn á að afla sér sjálfir tekna sem gerði þeim mögulegt að flytjast burt og skapa sér lífið sem þau óskuðu sér.

Árið 1982 skrifaði ástralski fræðimaðurinn Dennis Altman: 

„Ein af breytingum síðastliðins áratugar er að fæðst hefur pólitísk og menningarleg fjöldahreyfing, þar sem samkynhneigðar konur og karlar hafa skilgreint sig sem nýjan minnihlutahóp. Þessi þróun hefði einungis getað átt sér stað í nútíma neyslusamfélagi kapítalismans, sem þrátt fyrir ýmislegt óréttlæti hefur skapað aðstæður fyrir meira frelsi og fjölbreytni en nokkuð annað samfélag hefur fætt af sér fram til þessa. Fyrir þau okkar sem erum sósíalistar, skapar það þá pólitísku áskorun að varðveita kosti kapítalismans sem opna á fjölbreytni einstaklinganna, en draga úr ójöfnuði, rányrkju, eyðslu og ljótleika hans.“

Hvar liggja ræturnar?

Hver sá sem finnur „ójöfnuð, rányrkju, eyðslu og ljótleika“ í kapítalískum löndum hefur líklega aldrei búið í sósíalískum ríkjum. En eins og D’Emilio, skildi Altman hvar rætur lífs og sjálfsmyndar samkynhneigðra í nútímanum liggja. Áhrif kapítalismans urðu ekki aðeins í Evrópu og Bandaríkjunum.

Greinarhöfundurinn David Boaz.

Í bókinni China’s Long March to Freedom, skrifaði Kate Zhou um að þegar húsnæði var í eigu og umsjá hins opinbera, þá var því alla jafna eingöngu úthlutað til hjóna. Það var ekki fyrr en húsnæði komst í einkaeigu sem að einhleypir og samkynhneigð pör gátu keypt eða leigt húsnæði. Frjálsari fasteignamarkaðir urðu til þess að hommabarir hófu starfsemi, eitthvað sem húsnæðisyfirvöld hins opinbera hefðu ekki verið líkleg til að leyfa.

Horft yfir veröldina alla, má sjá að lönd með mest frelsi og réttindi hinsegin fólks eru löndin sem virða eignarétt og viðskiptafrelsi. Sósíalistaríkin verma jafnan botnsæti allra lista yfir skoðanafrelsi, borgararéttindi, persónufrelsi og frelsi og réttindi hinsegin fólks. Sum lönd sem gjarnan eru kölluð „sósíalistaríki“ eins og Danmörk, Svíþjóð og Kanada, eru það ekki í raun. Þau eru með stjórnmála- og efnahagskerfi sem byggir á einkaeignarrétti, frjálsum mörkuðum, frjálsum gildum og háum sköttum og millifærslum – ekki frjálshyggjuþjóðfélög, en svo sannarlega kapítalísk markaðshagkerfi.

Þessir hinsegin hugsuðir töluðu mikið um sósíalisma, en þeir bjuggu við kapítalisma, og það var kapítalískur raunveruleiki, en ekki draumur um sósíalisma, sem frelsaði hinsegin fólk.