Kjöthleifur er orðinn vegan en ætlar ekki að skipta um nafn

Kjöthleifur syngur um leðurblöku úr helvíti. Skjáskot/Youtube.

Rokkstjarnan Meat Loaf, þekktur á Íslandi sem Kjöthleifur, hefur gengið til liðs við annað frægt fólk sem er hætt að borða kjöt. Hann ætlar þó ekki að breyta nafninu sínu.

Frá þessu segir the Daily Star.

Kjöthleifur, sem orðinn er 72ja ára gamall, heimsótti Ísland og hélt eftirminnilega tónleika í október árið 1987. Hann hefur verið ófáanlegur til að koma hingað aftur, þrátt fyrir að hafa fengið góðar viðtökur. Nafnið ber hann fyrir að vera meiri skrokkur, en kroppur. Hann er þekktur fyrir óvenju kraftmikla rödd, og á einhverja mest seldu plötu sögunnar, Bat Out Of Hell. Kjöthleifur er einnig frægur fyrir að hafa leikið í kvikmyndunum The Rocky Horror Picture Show, Fight Club og Spice World.

Meat Loaf í hlutverki Eddie í The Rocky Horror Picture Show.

Kjöthleifur vill nú styðja við Veganúar átakið, þar sem fólk sem orðið er bjúgað, bumbult og með samviskubit af velgjörðum og veisluborði jólanna, ákveður að borða bara grænmetisfæði í janúar. Nánar tiltekið þýðir það að neyta engra vara sem innihalda dýraafurðir, en það kallast að vera vegan.

Kjöthleifur ber aldurinn vel.

Til að uppfylla allra ströngustu kröfur í Veganúar, er í mörg horn að líta. Ekki er nóg að borða bara grænmeti, korn og ávexti, það þarf að vara sig á að nota mjólkurvörur, eða t.d. hunang í teið þar sem það er framleitt af flugum, eða sápur eða snyrtivörur sem innihalda dýrafitu. Helst ekki að kaupa fatnað úr ull, silki eða leðri á útsölunum, og fleira í þeim dúr.

Veitingahúsakeðjan Frankie & Benny’s í Bandaríkjunum kom að máli við Kjöthleif í tilefni af Veganúar, um hvort hann væri tilbúinn til að breyta nafninu sínu í Veg Loaf, eða Grænmetisbuff, í janúar vegna átaksins. Hann sagði að það væri: „ekki séns í helvíti – ég mun ekki gera það.“