„Ég á enga sérstaka jólauppskrift og jólamatur minnar fjölskyldu er líklega ansi kunnuglegur; rjúpur á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þegar Viljinn spyr hann um matarhefðir í hans fjölskyldu á jólum.
„Þó ég eldi talsvert teldist ég líklega seint exótískur kokkur en sérhæfing mín liggur kannski helst í íslenskum mömmumat. Konan mín er betri í því holla, flókna og framandi,“ segir Logi.
„En uppáhalds jólauppskrift mín er kannski síðbúinn morgunmatur daginn eftir helgidagana. Ostar, kæfur, síld og afgangar með ristuðu brauði eru uppistaðan í þeim rétti, jólaöl og svart kaffi með. Undirbúningur tekur stuttan tíma en mikilvægast að fjölskyldumeðlimir gefi sér þeim mun lengri tíma til að sitja saman og spjalla,“ bætir hann við.
„Þannig eru mínar bestu matarstundir og raunar finnast mér máltíðir ekki fullkomnaðar án skemmtilegra, líflegra samræðna,“ segir Logi Einarsson.