María mey mesti áhrifavaldur allra tíma

Frans páfi segir að María mey sé mesti áhrifavaldur allra tíma. Hann sagði á fjöldafundi kaþólikka í Panamaborg í gær, að hin unga kona frá Nasareth hefði hvorki sóst eftir áhrifum né viljað þau, en engu að síður hefði engin manneskja haft jafn mikil áhrif og hún.

Um sex hundruð þúsund manns komu saman í Panama til að hlýða á boðskap páfans. Margir höfðu komið sér fyrir daginn áður og sofið í tjöldum eða á dýnum til að tryggja sér sæti.

Páfinn kvaðst skynja ótta og áhyggjur ungs fólks yfir framtíðinni, þar sem störfum færi fækkandi og menntun stæði ekki öllum til boða.

María mey er móðir Jesú samkvæmt Nýja testamentinu og öðrum kristnum heimildum. Mest er talað um hana í fæðingarfrásögnum guðspjallanna (Matt. og Lúk.). María var heitkona Jósefs og varð þunguð af heilögum anda, fæddi síðar son sinn Jesú.

María hefur orðið að tákni fyrir trúfesti og tryggð, sér í lagi í kenningum og helgihaldi rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Bæði innan hennar og rétttrúnaðarkirkjunnar gegnir María einnig hlutverki meðalgangara milli syndugs mannkyns og Guðs.

Frans Páfi kemur frá Argentínu.

Rómversk-kaþólska kirkjan staðfesti flekklausan getnað Maríu með trúarsetningu árið 1854, þ.e. áréttað var að María hafi verið getin án erfðasyndarinnar. Samkvæmt hefðinni steig María upp til himna og er Himnaför Maríu haldin hátíðleg þann 15. ágúst ár hvert.