Dagurinn í dag er talinn versti dagur ársins. Góðu tíðindin eru þau að hann er næstum því að baki.
Blái mánudagurinn, eða þriðji mánudagurinn í janúar, hefur fengið þessa mögnuðu nafnbót af ýmsum ástæðum, til dæmis þunglyndi sem kemur yfir okkur þegar jólin og notalegheitin sem þeim fylgja eru að baki, kuldinn og myrkrið er alltumlykjandi, jafnvel með skrykkjóttu veðurfari og tilhugsunarinnar um jólakreditkortareikninginn sem bíður greiðslu um mánaðarmótin.
Blái mánudagurinn varð til sem hugtak í vel heppnaðri markaðsherferð bresku ferðaskrifstofunnar Sky Travel, sem kynnti hann til sögunnar árið 2005 og kvaðst hafa fundið hann út með stærðfræðiformúlu háskólakennara eins sem hefði tekið inn í jöfnuna veður og myrkur á norðurhveli jarðar.