nomad. studio opnar á Menningarnótt

Hekluvikur / Mynd : Páll Stefánsson

Verslunin nomad kynnir nomad. studio sem staðsett verður á neðri hæð verslunarinnar nomad. store á horni Laugavegar og Frakkastígs kl 17:00 – 22:00 á morgun, Menningarnótt.

Viljinn ræddi við Ingimar Þórhallsson ljósmyndara, eiganda verslunarinnar varðandi opnun ljósmyndasýningar Páls Stefánssonar í nýja galleríinu.

Ingimar Þórhallsson

„Að lokinni dvöl minni og námi í London þar sem ég stundaði ljósmynda- og listnám í University of the Arts London, kom ég heim í fyrravor. Ég sá möguleikann á að nýta neðri hæðina í verslunarhúsnæði sem mér stóð til boða, sem gallerí og var það í rauninni lykilatriði og forsenda fyrir því að ég réðst í það að opna verslunina nomad. Búðin opnaði rétt fyrir jólin í fyrra, en ég hef verið að vinna í að gera galleríið klárt í sumar og opnar það núna á Menningarnótt“.

Verslunin nomad.

Bætir Ingimar við að nýta má galleríið fyrir allskonar myndlist og taka þau við öllu metnaðarfullu listafólki opnum örmum, hvort sem það er enn að læra eða er lengra komið í list sinni.

Við erum mjög spennt fyrir opnun nomad. studio þar sem fá pláss af þessum toga eru í boði í hjarta borgarinnar. Hugmyndafræði okkar er að efla list og menningarlíf miðbæjarins ásamt því að veita listafólki pláss til að afla sér reynslu í að halda sýningar og kynna list sína. Framundan eru spennandi tímar og hlakkar nomad. studio til samstarfs við listafólk úr öllum áttum sem nýta vill möguleikana sem plássið býður uppá“. Sagði Ingimar að lokum.


Eins og fram hefur komið mun Páll Stefánsson ljósmyndari halda fyrstu sýninguna sem ber heitið 1958 m, þar sem landslagsmyndir hans leika aðalhlutverk.

Páll Stefánsson er mörgum kunnugur en hann hefur verið leiðandi í íslenskri landslagsljósmyndun um árabil.

Þegar blaðakona Viljans náði tali af Páli þá var hann í góðum gír á stuttbuxunum að hlaða myndavélina sína, eins og hann svo skemmtilega benti á.

Þau hjá nomad. eru að opna gallerí á neðri hæðinni, það er mjög gaman vegna þess að það hefur verið lítið af möguleikum fyrir ljósmyndara til þess að sýna í miðbænum. Þetta er skemmtileg viðbót við menningarflóruna“. Sagði Páll.

Páll í fjallgöngu, á leið upp í 1958 metra.

Frá og með 25. ágúst er sýningin opin á opnunartíma verslunarinnar. Ljósmyndasýningin stendur til 24. september 2019.

Opnunartímar eru : mán-laugardaga frá kl. 11:00 – 19:00 og sunnudaga frá kl. 12:00-18:00.


Listafólk sem hefur áhuga á að sýna í nomad. studio þarf að hafa samband í gegnum info@nomadstore.is. Viðkomandi sendir inn umsókn sem felur í sér nánari útskýringu á verkefninu sem hún/hann vill sýna ásamt 5-10 mynda portfolio. Þau hjá nomad. reyna í kjölfarið að útfæra sýninguna og finna tímasetningu, sem hentar öllum. Sýningartíminn getur verið allt frá einni viku og upp í fjórar.

Hér má sjá nánari upplýsingar um viðburðinn og verslunina.