Ómetanleg og árleg Íslandskynning Beckhams nær til tuga milljóna

Björgólfur Thor, Guy Ritchie og David Beckham hafa dvalið á Íslandi undanfarna daga. / Instagram.

„Þetta er mikils virði sem kynning á Íslandi enda er áhrifasvæði stjörnu á borð við Beckham á samfélagsmiðlun stærra en margra af helstu fjölmiðlum heims,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, forstjóri Íslandsstofu í samtali við Viljann í tilefni af færslum knattspyrnuhetjunnar Davids Beckham á samfélagsmiðlum í dag þar sem hann birtir ljósmyndir og myndbönd frá dvöl sinni hér á landi undanfarna daga.

Björgólfur Thor fær hrós frá stjörnunni fyrir gestrisnina.

Beckham, sem er einn þekktasti maður heims og er með yfir 50 milljón fylgjendur á Instagram, hefur komið árlega hingað til lands undanfarin ár í boði góðvinar síns Björgólfs Thors Björgólfssonar. Sumarið í ár er engin undantekning og var leikstjórinn Guy Ritchie einnig með í för ásamt fleira fólki. Fóru þeir vinirnir í laxveiði, veiddu skelfisk sér til matar á hafi úti og nutu íslenskrar náttúru, svo eitthvað sé nefnt.

Markaðsfræðingar sem Viljinn ræddi við, segja Íslandskynninguna sem heimsóknir Beckhams skapa vera ómetanlega. Hann dásami land og þjóð í færslum sem fari strax til yfir 50 milljón manns um allan heim og slík kynning verði einfaldlega ekki metin til fjár.

Ómetanleg landkynning.

Pétur tekur undir þetta og er afar lukkulegur með hinn fræga Íslandsvin:

„Hann hefur jákvæða ímynd sem einstaklingur sem skiptir máli. Og svo spilaði hann náttúrulega með besta liði Englands sem skemmir ekki fyrir,“ bætir hann við í léttum dúr.

Beckham er þekktur áhugamaður um laxveiði.