Óskar ekki hefnda heldur réttlætis

Hr. Karl Sigurbjörnsson fv. biskup.

Á alþjóðlegum minningardegi um helförina, rifjar hr. Karl Sigurbjörnsson, fv. biskup, upp þessa bæn:

„Drottinn, minnstu ekki þeirra einna sem hafa góðan vilja heldur líka hinna illu. En minnstu ekki þjáninganna sem þeir lögðu á okkur. Minnstu frekar þeirra ávaxta sem við uppskárum í þjáningu okkar, allrar vináttu, tryggðar, auðmýktar, hugrekkis, örlætis, hjartagæsku sem af henni leiddu. Og þegar þeir koma fram fyrir dómstól þinn láttu þá ávextina sem við hlutum verða fyrirgefning þeirra.“

Karl segir í færslu á fésbókinni:

„Þessi bæn fannst á litlum miða á barnslíki í kvenfangabúðum nasista í Ravensbrück í lok heimstyrjaldarinnar. Ekki er vitað hver konan var sem páraði bænina á umbúðapappír og setti inn undir skyrtu barnsins.  

Bæði Gyðingdómur og kristni kenna að við ættum ekki að leita hefnda heldur biðja fyrir óvinum okkar og þeim sem hafa brotið gegn okkur. Þó að þetta sé þung krafa þá hefur samt alltaf verið fólk í sögu og samtíð sem auðsýnir undraverðan kærleika og góðvild augliti til auglitis við illskuna.

Erfitt er að skilja hvernig hægt er að biðja fyrir illgjörðarmönnum sínum með þessum hætti, hvernig hægt er að verða vitni að illsku vondra manna, að verða fyrir grimmd, ofbeldi og kvalalosta þeirra en formæla þeim ekki heldur biðja fyrir þeim. 

Bænin úr fangabúðunum hefur oft og lengi leitað á mig. En það er ekki langt síðan ég gaf því gaum sem hún segir ekki. Ókunna konan er ekki að biðja Guð að hún geti fyrirgefið illvirkjunum. Hún biður Guð að fyrirgefa þeim á degi dómsins. Hún hefur sjálf ekki getað það en hún horfir framhjá því. Hún fylgir fyrirmælum frelsarans að biðja fyrir óvinum og ofsækjendum sínum. Hún biður þeim líknar fyrir efsta dómi. Reiði hennar, sorg og hryggð hefur leitt hana til vonar á Guð. Hún einblínir ekki lengur á þjáningu sína og sorg né heldur á illsku þeirra sem þjáðu hana. Hún óskar ekki hefnda heldur réttlætis sem ummyndar og reisir upp, um hugrekki í stað ótta, tryggð í stað svika, auðmýkt og góðvild í stað ofbeldis.

Ég bið þess að bæn hennar sé heyrð og eins bænir allra sem líða vegna illsku mannanna. Drottinn, miskunna þú oss.“