Safnaðu skeggi ef þú vilt komast í langtímasamband

Skeggjaðir menn eru meira aðlaðandi en þeir sem ekki sprettur grön. Þetta er ekki bara tilfinning fastakúnnanna á Ölstofunni og Kaffi Vest, heldur hefur þetta nú verið vísindalega sannað — hvorki meira né minna.

Einkum virðist hafa verið sannað í eitt skipti fyrir öll, að konur vilji fremur skeggjaða menn þegar þær eru að velta fyrir sér langtímasamböndum. Eru með öðrum orðum að finna sér framtíðarmaka.

Rannsókn sem birtist í tímaritinu Journal of Evolutionary Biology leiðir þetta í ljós. 8.500 konur voru beðnar um að leggja mat á karlmenn með skegg og ekkert skegg. Þær áttu að máta þá sem mögulega kærasta eða eiginmenn.

Karlmennirnir voru myndaðir algerlega skegglausir og nýrakaðir, með fimm daga skegg, tíu daga brodda og loks með alvöru skegg eftir fjögurra vikna söfnun án raksturs.

Þeir sem sjá þessa mynd horfa augljóslega fyrst og fremst á skegg þessa unga manns.

Niðurstöðurnar voru hreinlega sláandi. Nánast allar konur vildu fremur skeggjaða menn en skegglausa.

Rannsakendur telja ekki loku fyrir því skotið, að konur telji skeggjaða menn vænlegri til langtímasambanda fremur en skyndikynna þar sem þeir séu karlmannlegri og skeggvöxturinn gefi til kynna að þeir geti att kappi við aðra karlmenn í lífsbaráttunni með góðum árangri.