Skarð fyrir skildi

Lokaserían í bandarísku útgáfunni af House of Cards, sem varð aðgengileg á Netflix á föstudag og margir horfðu á í einni beit um helgina, minnir á spænska stórliðið Real Madrid á þessari leiktíð. Þar er vissulega valinn maður í hverju rúmi, en Ronaldo er horfinn á braut — farinn að leika knattspyrnu á Ítalíu með Juventus og fyrir vikið eru Madrídingar með böggum hildar, vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara, það er enginn til að skora mörkin og vera langbestur. Elskaður af sínu fólki og hataður af öllum hinum.

Stórleikarinn Kevin Spacey er persona non grata í Hollywood eftir afhjúpanir um kynferðislega áreitni og hann fékk því hvergi að vera í lokaseríunni af House of Cards. Það er mikil breyting, því Spacey hefur auðvitað borið þessa vinsælu þáttaröð uppi sem klækjarefurinn Francis Underwood og það er skemmst frá því að segja — rétt eins og í tilfelli Real Madrid — að þeir sem eftir eru vita ekkert hvernig á að tækla brotthvarf þess sem var áður aðal. Hann er þarna ennþá einhvern veginn yfir og undir og allt um kring, en samt ekki og fyrir vikið verður söfnuðurinn eins og fé án hirðis.

Fyrir okkur öll sem horfðum á sínum tíma á bresku þættina af House of Cards og dáðumst svo að því hvernig tókst að færa sögusviðið yfir í bandarískan samtíma er auðvitað nauðsynlegt að klára þessa afplánun og ljúka málum, en vonbrigðin eru sár og mikil.

Sjötta serían í House of Cards er sú langsísta og endirinn snubbóttur og kjánalegur, án þess að hér sé nokkru ljóstrað upp. Betra hefði verið heima setið, en af stað farið. Sá eini sem glottir hér við tönn er líklega Kevin Spacey, né ég meina Frank Underwood…