Street-food æðið tekur landið með trompi

Street food eða götumatur, í beinni þýðingu, tröllríður íslenskum matar- og veitingamarkaði þessa daganna.  Skilgreining á götumati er sá matur sem er seldur á almenningsstað, götu, markaði eða samkomum tilbúinn til neyslu.

Oft eru þetta bragðmiklir réttir í áður óþekktum búningum. Það eru notuð frumleg krydd og óhefðbundin hráefni í götumat sem skilur mann eftir með aukna þörf fyrir að svala bragðlaukunum með meira af því sama.

Götumarkaður hefur oft verið í forrystu matargerðar með spennandi nýjungar og eldunaraðferðir. Ristuðu hneturnar í köldum borgum Evrópu, pylsustandarnir í New York og núðluvagnarnir í Tælandi eru öll dæmi um götumat.

Ekki ný uppfinning

Götumaturinn hefur verið þekktur í matarmenningu manneskjunnar allt frá förnum dögum Egyptalands og hefur notið mismikilla vinsælda í tímans rás en óhætt er að segja að vinsældirnar séu í hæstu hæðum í dag, bæði á íslandi og víðar. Sennilega er götumatur stærsta matartrendið í heiminum í dag.

Með fleiri matarvögnum og tilkomu matarhallanna í Reykjavik hefur almenningur fagnað tilkomu ferskra vinda í matargerð hér á landi. Enda fær fólk gæðamat fyrir minni pening því yfirbyggingin er oftast lítil.

En hvert stefnir þetta trend? Suður amerísk matargerð sem og asísk hafa verið vinsæl undanfarið. Taco trendið hefur náð hæstu hæðum og taco er bara ekki lengur það sem það var fyrir nokkrum árum síðan. Allt sem er mexikóskt þykir vinsælt en svo sést líka að kóresk grillmenning hefur verið að skríða fram í dagsljósið, enda með eindæmum góður matur.

Michelin götumatur

Hlemmur Mathöll

Eitt er víst, það er að þegar götumatur er farinn að hljóta Michelin stjörnur er stórsókn. Það gerðist í fyrsta skipti árið 2016 í Singapúr, en stjörnuna fékk miðaldra maður sem gerði svo svakalega góðan soya hrísgrjónakjúkling. Sumir götubásar eru svo vinsælir að fólk flýgur víðsvegar að til að standa í hálfan dag í biðröð til að fá bestu eggjaköku í heimi.

En nú segja sérfræðingar að þar sem michelin stjörnurnar eru komnar í götumatinn mun hann brátt verða mun vandaðri og hefðbundnari. Einnig er talið að fólk vilji vita meir um matinn og sögu hans. Ekki dugar lengur að kalla indverskan einungis það, heldur vill neytandinn heyra á hvaða landssvæði kryddið er notað eða söguna í kringum tiltekinn rétt. Talið er að suðaustur asísk áhrif muni einkenna götumat og tævanskur matur verða sívinsælli.

Nú eru tvær nýjar mathallir í bígerð í Reykjavík.  Ein á Stjörnutorgi í Kringlunni og hin verður á Höfða. Hver veit nema almenningur geti gætt sér á tævönskum Michelin mat þar í framtíðinni. Spennandi götumatartímar hér í Reykjavík.