Stunginn tíu sinnum við náttúruverndarstörf

Uri Løvevild Golman

Helgarviðmælandi Viljans að þessu sinni er Uri Løvevild Golman.

Uri er ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og náttúruverndarsinni með það að markmiði að auka ást og skilning fólks á náttúrunni. Hann hefur helgað lífi sínu þessu markmiði og er í dag í fremstu línu við að skrásetja villt líf á þessari jörðu.

Uri fæddist í Kaupmannahöfn þann 5. janúar árið 1974. Hann var aðeins 12 ára gamall þegar hann keypti sína fyrstu myndavél.

Ég horfði mikið á myndir eftir Jacque Cousteau og var fljótt ákveðinn í því að verða ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður,“ segir Uri.

Hvenær byrjaðir þú að starfa sem slíkur?

„ Ég byrjaði að starfa sem ljósmyndari árið 1990 og hóf þá strax að taka myndir af náttúru og dýrum. Ég fór svo til Grænlands og gerði bók sem heitir The Arctic Light. Síðan fór boltinn að rúlla og ég náði að safna pening fyrir betri búnaði með vinnu minni.“

Uri hefur í dag gefið út nokkrar bækur sem innihalda myndir hans frá Norðurheimskautinu, Indlandi og Afríku. Bók hans, Tiger Spirit, hlaut WWF Panda verðlaunin ( World Wide Fund for Nature ) árið 2011 og sá Karl 16. Gústaf konungur Svíþjóðar um að afhenda verðlaunin.

Ásamt þessu gekk Uri í School of design í Danmörku og vann stutt sem grafískur hönnuður. Á þessum árum vann hann hjá föður sínum í jakkafatabúð og síðar hjá ferðaskrifstofu, sem hentaði vel því hann fékk ódýra flugmiða í gegn um það starf og gat farið og myndað á framandi stöðum. 


Það var svo síðar sem hann leiddist út í tískuljósmyndun. 

„ Fyrrverandi kona mín vildi breytingu og sagði við mig : „ Förum til Ítalíu !“. Við gerðum það og fluttum nálægt stöðuvatninu Lake Como, en það kom fljótt í ljós að þar var mjög dýrt að búa. Stuttu eftir að við fluttum hafði förðunarfræðingur samband við mig og vildi fá mig yfir í tískuljósmyndun, þetta var góður peningur svo ég sagði að sjálfsögðu já“.

Það leið ekki á löngu þar til bæði hann og konan gáfust upp á tískulífinu á Ítalíu og fluttu til baka, Uri feginn því að snúa að náttúrunni aftur. 

Hvenær byrjaðir þú að hugsa svo mikið um náttúruna og gersemar hennar ?

Ég hef alltaf hugsað um það hversu illa við förum með jörðina okkar. Við hús foreldra minni stóð stórt Eikartré. Þar sat ég oft og skoðaði laufblöðin, ég var viss um það að Guð væri í blöðunum. Ég hugsaði einnig oft hversu fúlt það er að risaeðlurnar séu útdauðar, þvílík skömm sem það væri.

Ég vildi bara vera úti í náttúrunni og það var stundum gert grín að mér vegna þess. Sum börnin kölluðu mig Simpansa vegna þess að ég var oft uppi í trjám. Ég fór að skrópa mikið og einfaldlega hataði skólann. “  

Uri hefur nokkrum sinnum komið til Íslands til þess að taka myndir og kynntumst við í einni af þeim ferðum. Segist hann óska þess að koma oftar þar sem Ísland sé einn af uppáhalds stöðum hans í heiminum. 

Mynd sem Uri tók af eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010, myndin rataði síðan á forsíðu National Geographic.

Uri á tvær dætur frá fyrra hjónabandi en í dag er hann giftur henni Helle Løvevild Golman sem er einnig ljósmyndari.

Uri og Helle hittust fyrst í Illulisat á vestur Grænlandi árið 1999. Það var strax ljóst að þeim líkaði vel við hvort annað að sögn Uri og kveiknaði áhugi þeirra á milli, en þar sem Uri var giftur urðu hugsanir ekki að gjörðum. Árin liðu og árið 2013 voru komnar sprungur í hjónaband Uri. Kona hans var orðin þreytt á stöðugum ferðalögum hans og segir Uri sjálfur að þolinmæði hennar gangvart honum hafi verið ótrúleg. Á sama ári var Uri ráðinn sem ljósmyndari á skipi á leiðangri um Norð-austur Grænland eða þar sem stærsti þjóðgarður Grænlands er staðsettur. 

Uri og Helle

Við komum á land á Ellaeyjum þar sem Sirius-sveitin dvelur á sumrin. Sirius-sveitin er hersveit danska hersins sem hefur aðalaðsetur í Daneborg í Þjóðgarði Grænlands. Þegar á land var komið var Ísbjörn á ströndinni sem þurfti að fæla frá áður en við gætum stigið á land. Sveitin kom með þá hugmynd að ég kæmi og tæki myndir af birninum svo ég fór samferða þeim á túndruna og við fældum björnin sem fór ofan í sjóinn á hinum enda eyjanna og synti í burtu. Ég snéri við og gekk nokkra metra þegar ég skyndilega rakst á Snjóuglufjöður, ég gekk aftur að herstöðinni þar sem ég sá hana Helle standandi með riffillinn sinn til sjálfsvarnar alveg grafkjurr.

Ég gekk að henni og gaf henni fjöðurina, hún kyssti mig þá í fyrsta skipti og þegar ég kom aftur heim sótti ég um skilnað sem endaði með sáttum þar sem konan mín sagði að það væri líklegast fyrir bestu. Í dag erum við mjög góðir vinir og hittumst reglulega og borðum saman og verjum hátíðardögum saman, með börnum okkar og nýja manninum hennar“.

Mynd : Uri Løvevild Golman
Mynd : Uri Løvevild Golman

Ynnilega ástfangin af hvort öðru ákváðu Uri og Helle að eyða ævi sinni saman og fylgja draumi þeirra beggja, að vernda og ferðast um jörðina og vekja athygli á öllu lífi í útrýmingarhættu sem varð svo að verkefni þeirra, Project Wild

Getur þú sagt mér meira um Project Wild ?

„5 ár, 7 heimsálfur og 26 leiðangrar til þess að skrásetja og mynda síðustu villtu svæði heimsins og lífríki þess, bæði villt dýr, land og ættbálka. Við höfum í dag lokið 25 leiðöngrum og það er aðeins einn eftir sem er í Ástralíu. Í leiðangri númer 24 fórum við til Gabon í Afríku þar sem við vorum að taka myndir og skrásetja Mandríla, láglendisgórillur og skógarfíla.

Sú ferð reyndist breyta lífi þeirra.

„Við vorum rétt að ljúka við upptökur fyrir heimildarþættina okkar í Gabon þegar við ákváðum að kíkja á bændamarkað. Gabon er yndislegur staður, en þar starfar einnig stór hópur veiðiþjófa, þeir eru þar í ólöglegri sölu á fílabeinum og kjöti af villtum dýrum í útrýmingarhættu. Einn meðlimur svokallaðrar “mafiu“ sem fólk í kring bar kennsl á réðst skyndilega á mig með hníf.

Hann byrjaði að stinga mig, hann stakk mig 10 sinnum. Hann stakk mig í hjartað, lifrina og skar í aðal æðina í hálsinum á mér.

Ég á 7 ár af bardagaíþróttum að baki og sú þjálfum kom að einhverjum notum, ég náði honum í jörðina og byrjaði að lemja hann í andlitið en ég náði ekki hnífnum úr hendinni hans…

Skyndilega heyri ég öskur, ég get aðeins lýst þessu öskri sem ljónynjuöskri en þar kom Helle hlaupandi. Hún stökk aftan á árásarmanninn og stakk fingrum sínum í augu hans, hann sleppti þá hnífnum. Hún bjargaði lífi okkar, eftir þetta köllum við okkur stundum Lionwild í stað Løvevild.“

Górilluungi í Gabon / Mynd : Uri og Helle Løvevild Golman

Heldur þú að ætlunin hafi verið að særa þig, þar sem þú vinnur gegn starfsemi veiðiþjófanna?

„Ég veit það innst inni en ég get ekki sannað það. “


Herinn í Gabon hjálpaði Uri og Helle upp á spítala og lögreglan handtók um leið árásarmanninn, að sögn Uri var hann einnig mikið slasaður.

Þegar komið var með Uri á spítalann í Gabon var hann án lífsmarka og samkvæmt læknum var hann án lífsmarka í tvær mínútur áður en náðist að endulífga hann.

Hvað tók þá við ?

„ Ég var í tvær vikur á herspítalanum í Libreville í Gabon og var síðan færður með færður með þotu til Danmerkur þar sem ég dvaldi á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Þar var fólkinu mínu safnað saman og taugafræðingur á spítalanum sagði við Helle og foreldra mína að ég myndi þurfa hjálp við allar grunnþarfir í daglegu lífi í framtíðinni.

Helle varð svo reið að hún fór fram á gang og hóf að sparka í veggina.

Eftir það fór ég og dvaldi á Hvidovre spítalanum sem er staðsettur rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Þar var ég í 8 mánuði og þaðan fór ég svo á endurhæfingarstöð sem heitir Philadelphia. Þar kynntist ég sjúkraþjálfurunum mínum þeim Maju og Julie og þær hófu báðar að þjálfa mig.

Það var þar sem ég tók fyrstu krefin mín. 

Eftir að hafa unnið lengi með Maju fékk ég annan sjúkraþjálfara sem heitir Katja og núna bý ég á endurhæfingarstöð sem kallast Skovbrynet, þar hef ég verið síðan 7. janúar. Á næstu vikum mun ég flytja með Helle í íbúð fyrir fatlaða í Vedbæk nálægt höfninni, sem mér finnst svo æðislegt. Það sýnir mér svo vel hversu langt ég hef náð. 

Í dag get ég farið úr skónum, burstað tennurnar, þvegið andlit mitt og greitt skeggið, en ég þarf enn hjálp við að komast í og úr hjólastólnum.

Það engin leið að sjá inn í framtíðina. Ég held áfram að berjast og mun ekki gefast upp. Ég ætla mér að ganga í skóginum aftur.“ Segir Uri

Ástfangin hjón sem endurnýjuðu heitin sín um daginn

Nú á dögunum gerðist sá merki atburður að Uri gekk 55 metra með hjálp stafs.

Þú hefur afsannað margt með viljastyrk þínum nú þegar, hver eru þín framtíðarplön núna ?

„Við höfum nú þegar farið til Grænlands þar sem ég gat verið með á báti. Næsta og síðasta verkefni Project Wild er að fara til Ástralíu til þess að skráseta og mynda Kóralrifið mikla og Kóalabirni. Vonandi verður það í mars á næsta ári en við eigum ekki peninga núna eftir slysið þar sem við vorum ekki tryggð.

Næsta verkefni eftir það verður á Grænlandi. Með hjálp Úlfasérfræðings ætlum við að endurvekja Úlfastofninn á Grænlandi, en það eru fáir úlfar eftir. Markmiðið er að fara að með 15 Úlfa þangað sem munu vonandi hjálpa til við að stækka stofninn.“

Hver er uppáhalds staður þinn á jörðinni ?

„Þar sem dætur mínar eru. Síðan koma Ísland, Grænland og Kenía.“

Eitthvað sem þú vilt segja um ástandið á Jörðinni ?

„Við höfum 20 ár til þess að snúa þessu við. Ég held að fólk vilji núna pólitíkusa sem vilja fara í rétta átt í þessum málum.

Frumskógurinn er í mestri hættu. Pálmolíuiðnaðurinn og námugröftur eru að drepa frumskóginn. Hiti fer hækkandi og skógurinn brennur. Um 100 Órangútanar deyja í hverri viku í frumskóginum í Borneo.

Órangútan og ungi hennar / Mynd : Uri og Helle Golman

En það er ekki of seint, við þurfum að hjálpast að og snúa þessu við. “


Fyrir það fólk sem vill styðja við parið og vinnu þeirra þá er styrktarhnappur í bígerð. Besta leiðin núna til þess að styðja Uri og Helle er að versla varning á síðu þeirra hér.

Segjast þau vera ákaflega þakklát fyrir allan þann stuðing og þá væntumþykju sem fólk hefur sýnt í þeirra garð.

Hér geta lesendur skoðað verkefni þeirra, Project Wild betur