„Úrsúla er nýlega flutt til Íslands eftir áralöng störf á hættusvæðum heimsins. Rólegt hversdagslífið í Reykjavík hentar henni engan veginn, svo að hún grípur fegins hendi óvænt boð um að taka sæti í ríkisstjórn landsins: þar getur hún aftur látið til sín taka!
En stjórnmálin eru refskák og fjölmiðlar vaka yfir hverju fótmáli nýja ráðherrans. Við bætist að gamall útigangsmaður eltir hana á röndum og virðist vilja vara hana við yfirvofandi hættu. Getur verið að hann búi yfir vitneskju sem ógnar einhverjum í innsta hring?“
Þannig hljómar kynningartextinn fyrir bókina Svik eftir Lilju Sigurðardóttur, sem er fyrsta Bók vikunnar hér á Viljanum. Þetta er hröð og hörkuspennandi saga um völd og valdaleysi, ofbeldi og þöggun, þar sem gefst innsýn inn í ljótan og miskunnarlausan veruleika íslenskra stjórnmála.
Lilja hefur fyrir löngu slegið í gegn með spennusögum sínum og þríleikurinn Gildran, Netið og Búrið voru aldeilis frábærar bækur sem tryggðu höfundi sínum dyggan aðdáendahóp. Gildran var nýlega tilnefnd til breska Gullrýtingsins sem eru ein virtustu glæpasagnaverðlaun heims.
Rithöfundurinn og leikskáldið Lilja Sigurðardóttir er fædd árið 1972. Fyrsta bók hennar, glæpasagan Spor, kom út árið 2009 og hlaut góðar viðtökur. Ári síðar gaf hún út aðra spennusögu, Fyrirgefninguna. Leikrit Lilju, Stóru börnin, var sýnt veturinn 2013-2014 og hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikrit ársins 2014.
Í stuttu máli: Frábær spennusaga sem heldur lesandanum föngnum frá fyrstu blaðsíðu. Lilja Sigurðardóttir er komin í fremstu röð íslenskra glæpasagnahöfunda.