Við töldum garðfugla um helgina, en síðasta helgin í janúar er alltaf garðfuglahelgin. Maður velur dag eða tíma eftir veðri, og fylgist með garðinum sínum eða þar sem maður telur fuglana,“ segir Dögg Matthíasdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Fuglaverndar, í samtali við Viljann.
„Við hvetjum fólk til þess að fylgist með tölu ýmissa fuglategunda þessa dagana. Þegar eru komnar nægar upplýsingar inn, þá fáum við smám saman tölfræði,“ segir Dögg, en hægt er að skrá niðurstöður fuglatalninga á vefsíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.
„Aðferðin er það sem er kallað „Citizen Science“, sem er sjálfboðaliðaþátttaka almennings í vísindavinnu eins og t.d. talningum, og er mjög skemmtileg. Í tísku hefur einnig verið svokallað „Bioblitz“, en þá er fylgst vandlega með öllu lífi á ákveðnu afmörkuðu svæði í 24 tíma og sjónum beint að einhverju ákveðnu, t.d. fuglum, plöntum, smádýrum o.þ.h., en þetta er skemmtileg aðferð til að vekja fólk til umhugsunar um líffræðilegan fjölbreytileika í umhverfinu,“ segir Dögg, sem segir fuglalíf vera einhverja bestu vísbendinguna um líffræðilegan fjölbreytileika á hverjum stað.
„Þar sem er fuglalíf, þar er nóg æti, það er að segja, nóg af öðru lífi eins og fræjum og smádýrum í umhverfinu,“ segir Dögg og að fuglalíf sé vísbending um að líffræðilegur fjölbreytileiki svæðisins sé í lagi.
Fuglavernd er að sögn Daggar, frjáls félagasamtök, stofnuð árið 1963, til að vernda Hafarnarstofninn. Samtökin eru aðili að Birdlife International, elstu náttúruverndarsamtökum heims. Með tíð og tíma hafi starfsemi Fuglaverndar vaxið og samtökin telji nú 1.300 meðlimi.
„Tilgangur félagsins er að standa vörð um búsvæði fugla sem oft eru í hættu af mannavöldum og knýja á um vernd fuglategunda í útrymingarhættu, ásamt fræðslu og félagsstarfi. Við gefum út bækur og tímarit og gáfum t.d. bókina Væri ég fuglinn frjáls eftir Jóhann Óla Hilmarsson í alla grunnskóla.
Svo seljum við auðvitað fuglafóður, fuglahús og ýmsan annan fuglavarning.“
Nú á laugardaginn 2. febrúar er alþjóðlegur dagur votlendis til að minnast Ramsar-samningsins sem er alþjóðlegur samingur um verndun votlendisins.
„Þetta er það málefni sem er hvað stærst og brýnast hérlendis í búsvæðaverndinni, sem er ein af þremur stoðum fuglaverndar, en hinar tvær eru tegundavernd og sjálfbærni/fræðsla,“ segir Dögg.
Fuglar gegn matarsóun
Spurð hvernig smáfuglunum reiði af núna í mestu frosthörkunum segir Dögg:
„Við erum að leggja áherslu á að gefa fuglunum, ekki bara korn og fræ heldur einnig matarleifar til að sporna við matarsóun. Fólk getur gefið fuglum það sem fellur til á heimilinu, t.d. grautarafganga, eplakjarna, brauðskorpur, kartöfluhýði, kjöt- og fiskafganga o.fl. og við leggjum mikla áherslu á að gefa þeim fitu og orkuríkan mat.“
Ekki megi gleyma hreinu vatni fyrir fugla sem sé mjög mikilvægt fyrir þá, bæði til að drekka og baða sig.
„Heitt vatn frýs ekki eins fljótt, en fuglar geta átt erfitt með að komast í vatn í frosti. Okkur langar að lokum að mæla með að köttum sé haldið inni yfir viðkvæmasta tímann, eins og t.d. varptímann, amk. á nóttunni.“
Fyrir fuglavini og til að skrá sig í fuglatalningu mælir Dögg með að skoða heimasíðu Fuglaverndar, en einnig mælir hún með facebook-hópi Fuglaverndar, hópnum Fuglafóðrun og #fuglatwitter.