Þegar Guð varð maður var hann smiður og erfiðismaður

„Gleðilega hátíð hinna vinnandi stétta,“ segir Karl Sigurbjörnsson fv. biskup, á fésbókinni í dag í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.

„Guð varð maður í Jesú frá Nasaret. Þegar Guð varð maður þá varð hann smiður, handverksmaður, erfiðismaður. Ekki hermaður eða stríðsherra, ekki kaupmaður, ekki prestur. Hann varð ekki konungur, eða annars konar þjóðarleiðtogi, eins og menn höfðu vænst af Messíasi. Meginhluta ævi sinnar hann fábrotnu lífi í litlu samfélagi í fjallabyggðum Galíleu sem smiður.

Hamarinn og hefillinn, sögin og öxin léku í höndum hans langa vinnudaga og stranga. Jesús frá Nasaret hlýtur að hafa þekkt gleðina yfir að ganga til verka og hina ljúfu þreytu að loknu góðu dagsverki. Hann hefur líka þekkt hvað það er að vakna upp stirður og aumur á þungbúnum og grámyglulegum morgni, hann hlýtur einhverntíma að hafa fundið kvíða, þreytu og streitu, fengið höfuðverk og bakverki og strengi, sigg í lófa, sár og mar.

Hr. Karl Sigurbjörnsson fv. biskup.

Allt þetta felst í því að vera maður af holdi og blóði. Jesús gekk að verkum sínum og er okkur fyrirmynd að því að líta á verkefni hversdagsins sem Guðs gjöf, hluttaka í sköpun Guðs og endurlausn, guðsþjónusta hins daglega lífs. 

Mér sem presti er ögrandi og áleitin tilhugsunin um Guðs son sem handverksmann við hversdagsiðju. Öll mannleg iðja hefur gildi í sjálfri sér að því leyti sem hún er hlutdeild í sköpun Guðs og endurlausn.

Hversdagurinn og störf hans og skyldur hefur gildi í sjálfri sér og gildi fyrir aðra. Í öllu, önnum og hvíld, erum við hvött til að vegsama Guð og vera lífinu til blessunar, náunganum til heilla,“ segir Karl Sigurbjörnsson.