Uppselt á fyrirlestur Öldu Karenar í Laugardalshöll: „Erum öll í sama liði“

Alda Karen Hjaltalín ráðgjafi og athafnakona.

Uppselt er á fyrirlestur á vegum Öldu Karenar Hjaltalín í Laugardalshöllinni í kvöld, föstudaginn 18. janúar. Þetta tilkynnir hún á fésbókinni, en óhætt er að segja að talsverð umræða hafi skapast í samfélaginu undanfarna daga um kenningar þessarar ungu athafnakonu og aðferðafræði.

„Ég hlakka til að spjalla við ykkur, um ný og gömul hjálpartæki sem við getum gripið í til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum og hafa góð áhrif á heiminn í kringum okkur. Þau gagnast líka vel til að vera meira meðvituð um okkur sjálf og aðra. Ég vona innilega að þetta hjálpi ykkur jafn mikið og mér,“ segir Alda Karen.

„Ég hef lært og vaxið gríðarlega sem manneskja við undirbúning allra fyrirlestranna, ekki hvað síst í aðdraganda þessa. Mér finnst mikilvægt að skerpa vel á við alla þá sem eru að kljást við andleg veikindi, að leita til Önnu og co hjá Geðhjálp. Þau vinna gífurlega öflugt starf, eru þaulreynd og ég hef aðeins heyrt gott frá þeim sem ég unnið með og vísað til þeirra. Mér finnst líka skipta máli að benda á Pieta, Baldursgötu 7, þar sem dyrnar eru alltaf opnar. Kristín og Ólöf eru búnar að taka á móti yfir 100 manns síðan í apríl á síðasta ári og þær slá hvergi slöku við. Meðferðin er að öllu gjaldfrjáls fyrir skjólstæðinga og ég hvet fólk til að kynna sér þá mögnuðu starfsemi sem þar fer fram.

Að lokum vil ég bara þakka öllu teyminu sem hefur komið að þessum viðburði. Margir hverjir hafa unnið með mér í öll þrjú skiptin. Ég gæti aldrei gert þetta án þessa frábæra fólks sem ég hef með mér og auk þeirra þúsunda gesta sem hafa komið á fyrirlestrana mína. Umfram annað, þá er allra mikilvægast að muna að sama hvað, þá erum við öll í sama liði,“ segir hún.

Lífslykill 28: Deildu því sem þú lærir, jafnóðum og þú lærir það

Lífslykill 28: Deildu því sem þú lærir, jafnóðum og þú lærir það.

Posted by Alda Karen on Wednesday, January 16, 2019

Spurningar um lífið og heilann

Óhætt er að fullyrða, að ekki leika allir það eftir að fylla samkomusali til að ræða andans mál og sjálfsrækt. Því vakna auðvitað spurningar um hvað það er, sem stendur til að ræða á morgun.

Í kynningarefni fyrir fyrirlesturinn, sem standa mun í þrjár klukkustundir, segir:

Alda svarar öllum þeim spurningum um lífið og heilann sem hún hefur fengið svör við í gegnum tíðina ásamt því að kafa djúpt í huga þinn með upplifun sem hún setur upp á staðnum. Öllum gefst tækifæri á að senda inn sína eigin spurningu hvað varðar huga okkar, heilastarfssemi, lífið, sambönd, að koma sér á framfæri eða hvað sem á þér brennur. Alda mun einnig gefa svör við eftirfarandi spurningum:

Hvernig getum við notað okkar “annað sjálf” til að ná meiri árangri en við getum ímyndað okkur?
Hvernig búum við til tækifærin bæði á Íslandi og úti í heimi?
Hvernig vitum við hvenær við eigum að grípa tækifærin?
Hvernig kem ég sjálfri/um mér á framfæri án þess að líða illa með það?
Hvernig sigrast ég á Imposter Syndrome?
Hvernig getum við endurforritað samband okkar við hugann til að vinna með okkur en ekki gegn okkur?
Hvernig vitum við hvað hefur haft mest áhrif á okkur frá æskunni okkar og fyrri reynslu?
Hvernig greinum við og útilokum það sem hefur neikvæð áhrif á okkur?
Hvernig getum við fylgt hjartanu og vaknað með tilhlökkun gagnvart deginum?
Hvernig getum við fyrirgefið sjálfum okkur og öðrum?
Hvaðan koma viðhorfin okkar?
Hvernig skilgreinum við og meltum gagnrýni á okkur sjálf?
Hvernig náum við tökum á Egó heilastöðinni?
Hvaðan talar innsæið við okkur og hvernig greinum við það?
Hvernig getum við auðveldað ákvarðanaferli okkar?
Hvernig myndum við djúpar tengingar við annað fólk í einu samtali?
Hvernig greinum við frá hvaða heilastöðum hugsanir okkar eru að koma?
Hvernig getum við lifað þannig að ekkert komi okkur úr jafnvægi?