Við mömmurnar getum heldur betur sungið og dillað okkur

Heiðrún Anna Björnsdóttir tekur þátt í Söngvakeppninni í kvöld með lagið Helgi / Sunday boy. 

Hæfileikar Heiðrúnar komu snemma í ljós en hún er ein af fjölmörgum söngkonum sem var í stúlknakór undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Hún lék í Hárinu í uppsetningu Baltasar Kormáks, lék í kvikmyndinni Nei er ekkert svar ásamt Ingibjörgu Stefánsdóttur (fyrrum Evróvisionfara), lék í ýmsum stuttmyndum og var stöðugt að vinna að tónlist.  

Heiðrún Anna stundaði nám við Liverpool Institute for Performing Arts en hún flutti þangað árið 1996. Hún var samnemandi Björns Jörundar Friðbjörnssonar (Ný Dönsk) og Gunnars Bjarna Ragnarssonar (Jet black Joe) Heiðrún stofnaði hljómsveitina Gloss á Liverpoolárunum. Sveitin fékk útgáfusamning hjá Nude Records og EMI publishing. Eftir að hafa tekið upp fyrstu plötuna, og gefið út 2 smáskífur, Lonely in Paris og New York boy  sem fengu frábærar móttökur. Því miður fór plötufyrirtækið á hausinn áður en platan kom út.

Heiðrún færði sig meira yfir í rafræna tónlist með Norðmanninum Fred Ball og hljómsveitinni Pleasure. Lagið þeirra Out of Love komst t.a.m. í 3 sæti í Noregi.

Heiðrún var á samning hjá Universal Publishing sem lagahöfundur til margra ára og vann með mörgum vel þekktum listamönnum. Til dæmis má nefna að lagið hennar Angels var valið af Spice Girls og átti að vera endurkomulagið þeirra. Spice Girls tóku upp lagið og búist var við að platan myndi selja um 5 milljónir eintaka. Því miður hættu Spice Girls við á síðustu stundu  og lagið kom ekki út.

„Þetta voru gríðarlega vonbrigði þegar á síðust stundu lagið var tekið af plötunni. Ég grét heila helgi,“ segir Heiðrún Anna í samtali við Viljann.

„Þegar ég hugsa til baka og hlusta á Spice girls upptöku á laginu þá man ég að mér fannst hún ekki næstum því eins flott eins og mín upprunalega. Það var búið að taka út eitt aðal bítið sem ég var reyndar beðin um að redda á síðustu stundu,“ bætir hún við.

Heiðrún hefur alltaf haft gaman af því að gera sitt eigið efni og koma fram og stofnaði hljómsveitina Cicada eftir að hafa unnið lengi sem lagasmiður. Með Cicada gaf hún 2 plötur, Cicada  og Roulette. Vinsælasta lagið af þeirri plötu var lagið Beating of my Heart sem Swedish House Mafia gerðu síðan enn vinælli með re-mixi sínu en Heiðrún hafði unnið með þeim áður.

Hvatning frá Simon Fuller

Það var svo Simon Fuller, umboðsmaður Spice Girls, sem sagði Heiðrúnu að lögin hennar væru fullkomin fyrir Evrópu. Það varð kveikjan að Eurovision hugmynd hennar og við fáum að sjá afraksturinn í kvöld.

Heiðrún samdi Sunday boy/ Helgi fyrir þó nokkrum árum eftir að hafa gengið í gegnum erfitt samband.

„Ég ákvað að senda þetta lag inn í Söngvakeppnina því ég er viss um að flestir geti tengt við lagið — hafa einhvern tíman verið í svipuðum sporum. Þetta er hresst og skemmtilegt lag um gaur sem vill halda öllu opnu, bara svona ef það væru betri kostir sem hann gæti farið á stefnumót með,” segir hún.

Heiðrún er mjög glöð að hafa sent lagið í Söngvakeppnina og að fá tækifærið að syngja á Íslandi. Hún er alvön að standa á sviði og koma fram fyrir fjölda manns um allan heim, en það er alltaf sérstakt að vera heima á Íslandi.

„Þessi löngun að búa til tónlist og syngja bara fer ekkert. Ég er oft búin að hugsa hvort ég ætti bara hætta þessu enda fær maður stundum að heyra maður sé orðin gömul 3 barna móðir og hafi ekkert að gera að vera syngja svona. Og það er ekkert nýtt; þegar ég var 26 ára þá var mér gefið augnkrem af útgáfufyrirtækinu mínu sem ég var hjá af því ég þótti þá frekar gömul. En Íslendingurinn í manni er svo sterkur og mig langar að sýna að maður þarf ekki endilega að vera 25 ára og hrukkulaus. Við mömmurnar getum heldur betur sungið og dillað okkur.“

Heiðrún er alltaf með mörg járn í eldinum og nú vinnur hún hörðum höndum að útgáfu nýrrar plötu undir listamannsnafninu Lúlla