Rangar upplýsingar um skaðsemi veips eiga þátt í að viðhalda tóbaksreykingum. Bandaríska krabbameinsfélagið (e. The American Cancer Society, ACS) hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis, í Tímariti krabbameinslækna.
Þar kemur fram að upplýsingar um skaðsemi veipa séu villandi og til þess fallnar að viðhalda tóbaksreykingum, sem enn valdi flestum krabbameinsdauðsföllum í Bandaríkjunum.
Efnahagur og samfélagsleg staða fólks hafi mest áhrif á það hvort fólk reyki eða ekki, en tóbaksreykingar séu algengastar á meðal hinna efnaminni og ýmissa jaðarsettari hópa. Samtökin segja mikilvægt að neytendur fái réttar upplýsingar um tóbaksvörur og að aðalmarkmiðið ætti að vera að draga úr reykingum. Árið 2012 sýndi könnun í Bandaríkjunum að 11,5% fullorðinna taldi ranglega að veip væri jafnskaðlegt reykingum, en það hlutfall hafði hækkað upp í 35,7% árið 2015 vegna hræðsluáróðurs og villandi upplýsingagjafar.
Jafnvel þó að vörur sem innihaldi nikótín flokkist varla sem heilsuvörur, þá séu það reykingar á tóbaki sem séu langsamlega skaðlegastar. Um 7000 efnasambönd myndast í bruna við tóbaksreykingar, þar af eru 70 krabbameinsvaldandi. Ekki hjálpi það til við að draga úr reykingum, að neytendur fái rangar upplýsingar um veip og aðrar skaðminni reyklausar vörur sem innihalda nikótín. Jafnvel þótt nikótín sé ávanabindandi, þá er efnið ekki krabbameinsvaldur líkt og efni sem myndast við reykingar.
Til að ná markmiði sínu um að draga úr tóbaksreykingum almennings, hvetur ACS til þess að fólk fái réttar upplýsingar um skaðminni staðgönguvörur sem innihalda nikótín, eins og veip. Þau leggja áherslu á að jafnvel þó að langtímaáhrif þess að veipa séu óþekkt, þá sé það margfalt skaðminna en reykingar, miðað við þær upplýsingar sem enn liggja fyrir. Sterk fylgni sé á milli tóbaksreykinga og lungnakrabbameins, á meðan hættan á heilsutjóni vegna veips sé einungis smávægileg til samanburðar.