Það var einhver að flytja í stóra gamla prestshúsið, sem hafði staðið autt árum saman.

Þetta var gamalt timburhús á þremur hæðum, stundum kallað draugahúsið, þá aðallega af börnunum, en einnig af nokkrum fullorðnum.

Bak við gluggatjöldin í húsunum í kring var fólk að fylgjast spennt með. Þau horfðu á þegar húsgögn voru borin inn í gamla húsið úr stórum vöruflutningabíl. Þeim þótti þetta heldur hrörleg húsgögn, íbúunum sem á horfðu. Síðar sáu þau gráhærða konu fara inní húsið. Þau sáu ekki framan í hana, því hún gekk beint inn.

Nú fór mikið umtal af stað, fólk hringdi sín á milli og hittist. Mikið var skrafað: „Hvaða kona er þetta eiginleg?” „ Hún er ábyggilega eitthvað skrítin?” „ Af hverju vissi enginn að hún væri að flytja í þorpið?” „ Af hverju þessi leynd?”

Boltinn var farin að rúlla, án þess að þessi nýi íbúi vissi nokkuð af því.

Þegar dimma tók kviknuðu ljósin í húsinu, fólkið í þorpinu reyndi að sjá inn án þess að á því bæri, en þar sem gardínurnar voru dregnar fyrir var ekkert hægt að sjá.

Börnin í þorpinu fóru ekki varhluta af sögunum sem í gangi voru og ímynduðu sér líka eitt og annað um þennan íbúa. „Var hún kannski norn?” „Eða var þetta hún Grýla gamla sjálf?”

Þau voru orðin ansi hrædd en samt var forvitnin hræðslunni yfirsterkari.

x

Ekkert gerðist meira þennan daginn eða þetta kvöldið, en margir biðu spenntir eftir næsta degi. Sá dagur rann upp með hávaða roki og snjókomu, ekta draugaveður eða svo fannst börnunum. Það var reyndar svo mikill blindbylur að skólanum var aflýst. Börnin áttu að halda sig inni við, þeim fannst það skrambi hart, þar sem þau ætluðu að fara í njósnaferð eftir skólann og reyna að komast að hinu sanna í þessu máli. Þau ætluðu að finna út hvað þessi íbúi hefði að fela eða hver hún væri.

Það eina sem þau gátu gert var að reyna að fylgjast með út um gluggann, en skyggnið var slæmt svo ekki var mikið á því að græða.

Börnin sáu konuna, nornina eða grýluna eða hvað sem hún nú var, ekkert þennan daginn. Hún fór ekkert út úr húsinu, ekki einu sinni útí búð. Kannski þurfa nornir ekkert að borða. Þau voru eiginlega flest komin á þá skoðun að þetta væri norn og það átti eftir að festast við þennan nýja þorpsbúa.

NORNIN.

Börnin reyndu að vera þolinmóð þar til næsti dagur rynni upp og fannst tíminn standa í stað.

„Kannski gat nornin stöðvað tímann?“

Nei, klukkan sannaði að svo var nú ekki, sekúnduvísirinn hreyfðist og hinir vísarnir líka, þó hægt væri að þeirra mati. Eftir langa bið, kom loksins nýr dagur. Það var ótrúlegt, veðrið var miklu verra heldur en það hafði verið í gær. Þetta var eitt versta veður sem elstu menn mundu eftir.

„Hvað var eiginlega að gerast?” „Eitthvað yfirnáttúrulegt?”

Þetta styrkti börnin og suma fullorðna í þeirri trú að nýbúinn væri að öllum líkindum einhvers konar norn. Það fór um marga. Jæja, loksins komu nú einhverjar fréttir af norninni. Það hafði sést til hennar úti, hún var skringilega klædd, mjög dúðuð og með þykkt teppi yfir sér og með gadda á fótunum, var sagt.

x

Jóna búðarkonan í litla kaupfélaginu var ein við störf er nornin birtist. Hún hafði ekki farið varhluta af þeim sögum sem gengu um kerlinguna. Enginn annar en þær voru í búðinni. Það kvein í öllu út af veðrinu og Jónu varð alls ekki um sel, en reyndi að halda ró sinni og horfa sem minnst á nornina.

Þegar nornin var búin með ætlunarverk sitt og var farin út, byrjaði Jóna að hringja, til að segja fólki frá þessari lífsreynslu sinni. Hún var mjög svo óðamála er hún reyndi að lýsa þessu fyrir fólkinu, sem hún talaði við.

„Já, það var hræðilegt að upplifa þetta.” „Sérstaklega að vera alveg ein í kaupfélaginu.” „Já, það er alveg rétt, ég slapp, en ég titra ennþá.”

Síðan fóru aðrir að hringja í fólkið í þorpinu til að segja hvað afgreiðslukonan í kaupfélaginu hafði sagt. Þetta var komið í marga hringi og erfitt að henda reiður á því hvað var rétt og hvað ekki.

Einhvern veginn var sagan þannig að sú gamla hefði opnað dyrnar á búðinni með miklum hamagangi og látum. Hún hefði sagt halló á mjög svo skringilegan hátt og grett sig svo það sást aðeins í örfáar tennur. Tönnunum fór fækkandi eftir því sem sagan fór víðar.

Nornin hafði náð sér í nauðsynjavörur, en einnig í mjög svo skringilegar vörur eða það fannst fólkinu í þorpinu. Hún keypti allavegana kryddjurtir, mikinn hvítlauk og fullt af grasi. „Sjálfsagt til að búa til eitthvert seyði, eða hvað?”, hugsaði fólkið, hún keypti einnig eldivið og vinkaði Jónu þegar hún fór út.

x

Engin sá til hennar á leiðinni í prestshúsið, en fólkið sem bjó næst því sá þegar hún fór inn. Þeim fannst hún vera með mikið hafurtask og undruðust hvað hún hafði mikið afl. Nornin leit við og sá fullt af fólki vera að fylgjast með sér, þorpsbúar flýttu sér sem mest þeir máttu að líta undan eða þykjast vera gera eitthvað annað, börn jafnt sem fullorðnir.

Þegar hún var komin inn héldu þeir sem gátu áfram að fylgjast með. Ljósin kviknuðu í prestshúsinu og eftir nokkurn tíma fór að rjúka úr strompnum og ekki var annað að sjá en eins og eldtungur loguðu í stofunni.

„Hvað í ósköpunum var að gerast?” Sögusagnir fóru aftur af stað.

Nágrannar nornarinnar hringdu til að leyfa öðrum að fylgjast með: „Ha, er hún að kveikja bál í húsinu? “ „Er hún að brenna eitthvað sem hún vill ekki að neinn sjái?” „Er hún að búa til eitthvað hræðilegt galdraseyði til að gera þetta eða hitt?”

En ekkert kom svarið, engin þorði að banka uppá hjá norninni til að athuga málið.

Tíminn leið. Tveimur dögum seinna batnaði veðrið. Ekkert stórkostlegt hafði gerst með nornina og börnin í þorpinu voru orðin of hrædd til að njósna hvað um væri að vera. Nú lögðu þau lykkju á leið sína framhjá prestshúsinu. Nú var hræðslan orðin forvitninni yfirsterkari.

x

Svona gekk lífið í litla sjávarþorpinu. Vikur liðu og urðu að mánuðum. Jólin farin að nálgast og fólk búið að skreyta hjá sér og urmull var af jólaljósum sem lýstu upp þorpið.

Á pósthúsinu dró til tíðinda, fréttirnar bárust á milli þorpsbúa. Nornin hafði fengið pakkasendingu, stóran jólapakka sem var skreyttur jólalímmiðum í bak og fyrir og lítilli jólabjöllu. Á honum stóð Mrs. Jones og þau héldu að hann væri frá Englandi, eða var það Nígeríu, þetta var ekki alveg á hreinu þegar sagan var búin að fara margar boðleiðir manna í millum.

Bréfberinn þorði ekki fyrir sitt litla líf að afhenda norninni pakkann svo að ákveðið var að hún fengi fylgd.

Þau voru þrjú sem lögðu af stað í þennan leiðangur. Þetta var frekar þungur pakki, en þau þorðu ekki að snerta við honum á neinn annan hátt en að halda á honum. Ekki einu sinni kíkja pínulítið í hann, nei takk, það gat haft skelfilegar afleiðingar.

Þau nálguðust áfangastaðinn fljótt. Þegar þau komu að dyrunum glumdi þessi nístandi tónlist út úr húsinu. Þetta var ekki jólatónlist. Þau hringdu bjöllunni en hún var auðvitað biluð, þá bönkuðu þau en tónlistin, ef tónlist skyldi kalla, var svo hávær að nornin hefði ekki getað heyrt það. En hún sæi þau örugglega í gegnum hurðina.

Það var eins og þau hugsuðu öll það sama og voru næstum samstíga er þau lögðu pakkann niður, snéru sér við og hlupu á brott frá húsinu eins hratt og þau lifandi gátu.

Eitt kvöldið voru margir þorpsbúa að horfa á sjónvarpsfréttirnar, sem var svo sem ekkert merkilegt, nema að í fréttunum var þorpið þeirra nefnt og frú Jones. Hún átti víst að vera einn frægasti rithöfundur Bretlands og hefði komið til landsins til að skrifa.

Valið fallegt afskekkt þorp þar sem væri ró og friður, en þar kom henni margt á óvart, svaraði hún fréttamanninum, en sagðist ekkert vilja útskýra það nánar.

„Bókin mín heitir Nornin og skrítna fólkið. Þá hugmynd fékk ég í þorpinu og þar fékk ég minn innblástur á annan hátt en ég hefði kannski kosið, ” sagði þessi fínlega gráhærða kona með fallegar tennur og fallega framkomu.

x

Nú var blásið í lúðra í þorpinu og neyðarfundur var haldinn í samkomuhúsinu. Fólki var mjög brugðið eftir þessa frétt og skammaðist sín mikið. Nú yrði að bæta frú Jones þetta upp, eitthvað yrði að gera til að haldi uppi heiðri þorpsbúa.

Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að kveðja hana með pomp og prakt. Þorpsbúar fóru í skrúðgöngu að prestsetrinu með fána og veitingar með sér, bönkuðu uppá hjá frú Jones og báðu hana afsökunar á þessari vitleysu hjá þeim.

Hún brosti sínu blíðasta, í rauninni hafði hún haft lúmskt gaman af þessu.

Þetta endaði allt í heljarinnar veislu við skreytt jólatréið sem stóð í miðju þorpsins. Allir voru kátir og glaðir. Dansað var í kringum jólatréið og sungið hástöfum.

En það var einni spurningu ósvarað, „Hvað með eldinn inní stofu?” spurði einhver. Frú Jones brosti og sagði á ensku að það væri gamll arinn í prestsetrinu, hann hafði verið falinn undir gömlu veggfóðri sem hún fjarlægði. Henni fannst notalegt að kveikja uppí honum, var vön því heiman frá sér.

Til að kóróna þetta allt varð bókin Nornin og skrítna fólkið metsölubók og könnuðust margir þorpsbúar við sig í sögunni. Rithöfundurinn frægi hafði haft svo gaman af þessu að hún heimsótti þorpið á hverju einasta ári um jólin og tók þátt í jölafögnuðinum með þorpsbúum sem gerðu allt sem best úr garði og var koma hennar orðinn fastur liður í jólahátíðinni.


Auður A. Hafsteinsdóttir er höfundur jólasögunnar Aðkomukonan.

Auður A. Hafsteinsdóttir  er gift, tveggja barna móðir í Hafnarfirði. Hún sótti ritlistarnámskeð hjá Endurmenntun Háskóla Ísland árið 2002. Hefur skrifað smásögur síðan þá og fengið birt víða. Sjö sinnum í smásagnabókum og í ýmsum tímaritum.