Katrín fundaði með fyrsta ráðherra Skotlands

Mynd: The Scottish Government Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Humza Yousaf, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fund með Humza Yousaf, fyrsta ráðherra skosku heimastjórnarinnar, í Edinborg.

Á fundinum ræddu þau tvíhliða samstarf landanna, m.a. á sviði grænna orkulausna, menntamála og málefna hafsins, og tækifæri til aukinnar samvinnu, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Þá ræddu ráðherrarnir sérstaklega málefni velsældarhagkerfisins en Ísland og Skotland eru meðal þátttökulanda í WEGo samstarfinu (e. WellBeing Economy Governments) ásamt Nýja-Sjálandi, Finnlandi og Wales. Þar hefur Skotland verið í forystuhlutverki.

„Ísland og Skotland eiga sér langa sameiginlega sögu. Það eru ýmis tækifæri til að auka enn frekar samstarf landanna, ekki síst á sviði orku- og umhverfismála. Þar geta löndin deilt þekkingu og reynslu. Samstarfið um velsældarhagkerfið er líka mjög mikilvægt en þar hefur samstarf Íslands og Skotlands verið mjög þétt og skilað miklum árangri,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Yousaf er merkur stjórnmálamaður, eins og frami hans í skoskum stjórnmálum gefur til kynna. Hann er sonur innflytjenda frá Pakistan og þegar hann varð fyrsti ráðherra Skotlands, hinn 29. mars sl., varð hann ekki aðeins yngsti maðurinn í sögunni til að gegna embættinu, heldur einnig sá fyrsti skosk-asíski og fyrsti músliminn. Hann er fæddur árið 1985.