Umhverfis og skipulagsráð samþykkti rétt í þessu nýtt deiliskipulag á bensínstöðvarreit á horni Egilsgötu og Snorrabrautar. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir þriggja til fimm hæða húsum og opnun inn á dvalarsvæði frá Egilsgötu.
Frá þessu greinir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem á sæti í nefndinni.
Í bókun um tillöguna segir:
„Við fögnum því að nú skuli uppbygging íbúðarhúsnæðis á bensínstöðvarreitum hefjast. Í Reykjavík eru mjög margar bensínstöðvar miðað við íbúafjölda. Þær eru sumar hverjar á lykilstöðum innan borgarinnar. Eðli málsins samkvæmt eru þær að verða úrelt mannvirki. Á horni Egilsgötu og Snorrabrautar er verið að heimila íbúðarhús með 48 íbúðum af ýmsum stærðum. Samkvæmt samningsskilmálum sem fulltrúar allra flokka samþykktu í borgarráði verða 20% íbúðanna leigu- eða búseturéttaríbúðir og Félagsbústaðir hafa forkaupsrétt að 5% íbúðanna. Einnig verður þarna atvinnurými sem mun nýtast undir nærþjónustu fyrir hverfið.“