„Kerfin okkar eru komin að þolmörkum,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, á Alþingi í dag, þar sem hún upplýsti að á síðustu tveimur árum hafi um 9.000 manns komið hingað til lands og sótt um vernd á Íslandi.
„Á sama tíma hefur verið knýjandi húsnæðisvandi í landinu þannig að það hefur reynt á sérstaklega húsnæðismarkaðinn okkar að finna húsnæði fyrir fólk. Kostnaðurinn er mikill og ég verð að segja að ég sem ráðherra málaflokksins hef haft þungar áhyggjur af því að inngilding þeirra sem hingað koma sé ekki með þeim hætti sem við kjósum þegar fjöldinn er með þessum hætti. Staða mála í málaflokknum eða stefnan í málaflokknum er sú að það er á þingmálaskrá ráðherra að leggja fram breytingar á útlendingalögum sem ég mun gera fljótlega og biðja þingið um að taka hér til meðferðar til þess að þrengja reglur sem hér eru og samræma þær við löndin sem við helst berum okkur saman við, þ.e. Norðurlöndin, þannig að við séum með sambærilegar reglur í málaflokknum og Norðurlöndin hafa,“ bætti hún við.
Sigmundur Davíð vill algjöra endurskoðun útlendingalaga
Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, sem beindi fyrirspurn til ráðherrans og benti á að hans flokkur hefði varað ítrekað við þróun mála undanfarin ár, við heldur litlar undirtektir. Nú lýsti samantekt dómsmálaráðuneytisins „hreint ótrúlegri stöðu Íslands, sérstaklega í samanburði við önnur Norðurlönd“ eins og hann orðaði það.
Sagði hann ljóst að til þurfi „algjöra endurskoðun útlendingalaganna sem illu heilli voru keyrð í gegnum þingið fyrir nokkrum árum“ og síðan hefði þessi málaflokkur verið stjórnlaus.
„Stendur til að endurskoða þennan málaflokk í heild sinni? Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ásókn í fjölskyldusameiningar eða aðrar hælisumsóknir frá Gaza-svæðinu? Mun hún skera sig úr gagnvart öðrum Evrópulöndum og Norðurlöndunum ekki hvað síst og vera opnasta landið í Evrópu hvað það varðar eða er von á einhverri leiðsögn, einhverri stefnu í þeim efnum?“ spurði Sigmundur Davíð.
Ummæli Bjarna ekki stefnubreyting stjórnvalda
Þá spurði Sigmundur Davíð dómsmálaráðherra hvort ummæli Bjarna Benediktssonar um tjaldborgina á Austurvelli og hælisleitendamálin væru til marks um herta og gjörbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar, eins og ætla mætti. Því neitaði ráðherrann og sagði: „Ráðherra getur ekki tekið undir það að hér sé um einhverja stefnubreytingu að ræða. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar sem nú starfar að auka skilvirkni og hagkvæmni í málaflokknum. Það verður og er verkefni mitt sem ráðherra að ná því fram. Það er full ástæða til þess að minna á það að við þurfum að vera með góða og virka stefnu í málaflokknum og ráðherra hefur fullan hug á að gera það.“