Að vita lítið í læknisfræði og sennilega minna í vísindum en mikið í frelsi

Guðni Ágústsson fv. ráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Þeir komu fram í sjón­varps­frétt­um laug­ar­dags­kvöldið 5. janú­ar sl. pró­fess­or­inn og yf­ir­lækn­ir Land­spít­al­ans, Karl G. Krist­ins­son, og biss­nessmaður­inn Ólaf­ur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda. Karl ræddi lækna­vís­indi og mestu heilsuógn sam­tím­ans, ógeðslega sýkla­lyfja­notk­un í land­búnaði bæði í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um.“

Þannig hefst kjarnyrt grein Guðna Ágústssonar fv. ráðherra í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið eru fréttir Ríkissjónvarpsins sl. laugardag, en Guðna þótti Ríkisútvarpið þar koma illa fram við vísindamanninn Karl.

„Karl var að koma af ráðstefnu þar sem fær­ustu lækn­ar og vís­inda­menn ræddu vand­ann, sem er sá að 70-80% allra sýkla­lyfja fara í bú­fénað. Til að anna sí­auk­inni eft­ir­spurn eft­ir kjöti eru lyf­in sett í fóður til að auka vöxt til að koma í veg fyr­ir sjúk­dóma. Sýkla­lyf­in eru svona nýtt bragðefni á tungu­brodd­in­um í þess­um heims­álf­um, en mann­eskj­an fyll­ist sýkla­lyfjaóþoli. 99% kjúk­linga­kjöts og 95% svína­kjöts þar eru fram­leidd í verk­smiðju­bú­um. Karl sagði að kjötið inni­héldi mikið af bakt­erí­um sem eru ónæm­ar fyr­ir sýkla­lyfj­um og úr­gang­ur­inn skilaði sér svo út í jörð og vatn og þannig í græn­metið. Karl var­ar al­veg sér­stak­lega við inn­fluttu græn­meti en einnig kjöti, seg­ir eft­ir­litið slakt hér og vill af þess­um ástæðum að Ísland setji sér þau mark­mið að verða sjálf­bært í fram­leiðslu land­búnaðar­af­urða. Að ís­lensk­um bænd­um verði falið að anna eft­ir­spurn eft­ir öllu kjöti, mjólk­ur­vör­um og græn­meti, ekki síst til að verja heilsu unga fólks­ins og ófæddra,“ segir Guðni.

Heitir á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra

Hann segir engan skilja hvers vegna Ríkissjónvarpið hafi kallað Ólaf­ Stephen­sen í sama frétta­tíma og Karl.

„Ólaf­ur veit lítið í lækn­is­fræði og senni­lega minna í vís­ind­um en auðvitað mikið í „frelsi“. En stund­um er eins og RÚV skammist sín ef komið er við rétt­trúnaðargræðgina. Ég hefði viljað sjá þann lækni eða pró­fess­or sem hefði gengið fram og and­mælt orðum og rök­um Karls þetta kvöld. Eðli­legt fram­hald frétt­ar­inn­ar hefði verið viðtal við heil­brigðis- eða for­sæt­is­ráðherra því þessi mikla ógn mann­kyns­ins, sýkla­lyfjaóþol og dýra­sjúk­dóm­ar, er til umræðu meðal vís­inda- og stjórn­mála­manna um all­an heim,“ segir Guðni ennfremur.

„Ólafi Stephen­sen brást hins veg­ar ekki póli­tísk versl­un­argræðgi enda étur hann graut­inn sinn hjá heild­sala­stétt­inni og hef­ur hags­muni af að berj­ast fyr­ir inn­flutn­ingi. Ég vil hins veg­ar ef­ast um að all­ir hans fé­lag­ar leyfi sér að fylgja hon­um í glóru­lausri lít­ilsvirðingu hans á um­mæl­um pró­fess­ors­ins. Því Ólaf­ur vændi Karl um að vera í póli­tískri her­för en ekki vís­inda­legri umræðu. Lækn­ar hafa eitt fram yfir marg­ar aðrar stétt­ir; þeir eru bundn­ir lækna­eiðnum (Hipp­ó­kra­tesareiðnum). Íslenska út­gáf­an af eiðnum var út­færð 1932 og und­ir þau heitorð hafa nán­ast all­ir lækn­ar hér ritað eiðstaf sinn síðan, seg­ir google. Ólaf­ur full­yrti að skoðun Karls væri skoðun „eins vís­inda­manns en aðrir vís­inda­menn hefðu aðra skoðun“. Jahá, heyr á endemi, Karl stend­ur einn? Enn­frem­ur sagði hann að „það væru veik tengsl á milli sýkla­lyfja­notk­un­ar í land­búnaði og sýkla­lyfja­ónæm­is í mönn­um“. Ekki vildi ég gera þig að lækni mín­um, Ólaf­ur Stephen­sen.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Heiti á þig, Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra. Ætli ráðamenn okk­ar geri sér grein fyr­ir hvað hraðinn er mik­ill og inn­flutn­ing­ur­inn eykst stöðugt? Á fimm árum hef­ur inn­flutn­ing­ur á kjúk­linga­kjöti auk­ist úr 500 tonn­um í 1.400 tonn og 25% af öllu svína­kjöti eru flutt inn, var 4% fyr­ir fimm árum, og nauta­kjötið farið á sama tíma úr 190 tonn­um í 850. Næstu fimm árin gætu lagt ís­lenska fram­leiðslu og land­búnað að velli verði ekki brugðist við,“ segir Guðni.

Óvíst hvaðan grænmetið var

Guðni tekur í greininni dæmi af sjálfum sér:

„Lif­andi dæmi­saga: Sá er þetta rit­ar fór á glæsi­legt veit­inga­hús í Reykja­vík að borða með góðu fólki. Þjónn­inn kom með mat­seðil­inn og mælti sér­stak­lega með nauti frá Banda­ríkj­un­um, þó var ís­lenskt naut á mat­seðlin­um. Spurt var: En frá hverj­um er græn­metið? Ég veit það ekki, svaraði þjónn­inn. 

Gæti það nú ekki verið góð land­kynn­ing hér að bera fram mat­seðil með ís­lensku græn­meti nauti, lambi, kjúk­lingi eða svíni og kynna í leiðinni ein­stakt mat­væla­land fyr­ir er­lend­um sem inn­lend­um gest­um?

Þegar Ólafi tók að „vefjast tunga um tönn“ dró hann landa­mæra­vörslu á EES-svæðinu og fisk inn í umræðuna. Allt er að breyt­ast og alltaf er nauðsyn að end­ur­skoða eða segja upp samn­ing­um við breytt­ar aðstæður. 

Um þessa nýju ógn í sýkla­lyfja­ónæmi og hvernig land­búnaður­inn okk­ar er að tapa markaðnum hér ætti Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra að taka upp umræðu við ráðherra sína, lækna, vís­inda­menn og Bænda­sam­tök­in og setja í gang umræðu um mark­mið um að treysta mat­væla­landið Ísland. 

Karl G. Kristinsson prófessor og yfirlæknir.

Þótt gott sé nú að græða, Ólaf­ur minn Stephen­sen, þá er betra að berj­ast með móður jörð og land­búnaði sem skil­ar því besta og ógn­ar ekki lífi og heilsu mann­kyns­ins. Því þar er hinn dýr­mæti gróði, lýðheils­an, hún er dýr­mæt­ari en all­ir „silf­ur­pen­ing­arn­ir“. 

Karl G. Krist­ins­son, þú varst sann­fær­ingu þinni trúr ,,því eigi veld­ur sá er var­ar“.“ segir Guðni Ágústsson.