Ætlar ekki að víkja: Talar um harðlínuöfl innan Sjálfstæðisflokks

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar ekki að verða við kröfu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að víkja sæti í rýnihópi um úttekt Innri endurskoðunar um braggamálið. Þar með er ljóst að Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tekur ekki sæti í rýnihópnum og í honum verður enginn fulltrúi minnihlutans.

Dagur sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að málið einkennist af pólitísku upphlaupi. Harðlínuöfl innan Sjálfstæðisflokksins vilji nota málið til að loka á allt samstarf innan borgarstjórnar, það sé gamaldags pólitík sem skili ekki árangri.

Hann segir að það sé borgarstjóra að tryggja að svona mistök, eins og í braggamálinu, geti ekki endurtekið sig.

Borgarstjóri les ranglega í stöðuna

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, segir borgarstjóra hafa lesið ranglega í stöðuna í braggamálinu og hann haldi því áfram með þessari ákvörðun.

„Dagur B. Eggertsson las ranglega í stöðuna þegar hann hélt að braggamálið gleymdist þegar því var vísað til Innri endurskoðunar. Sennilega vonaði hann að niðurstaðan yrði hvítþvottur og tímasetning birtingar skýrslunnar – rétt fyrir jól – tryggði að hún týndist í jólaflóðinu.

Þá fannst honum tilvalið að fela sjálfum sér að fara yfir niðurstöður skýrslunnar þar sem hann er fundinn hafa brugðist skyldum sínum.
Langflestir litu allt öðrum augum á málið.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. / Skjáskot af Hringbraut.

Þegar ljóst var að vinnuhópur með Degi nyti ekki trausts með honum innanborðs hefði verið eðlilegast fyrir Dag að víkja sæti.

Ekki bara vegna þess að hann væri þá að bregðast við áfellisdómi yfir sjálfum sér, líkt og brotamaður gerðist dómari í eigin sök. Heldur líka vegna þess að hann er algerlega vanhæfur. – Ráðherrar víkja iðulega sæti vegna vanhæfis þó þér séu ekki sjálfir beinlínis til rannsóknar eins og borgarstjóri,“ segir hann.

Eyþór segir braggamálið vera prófmál. Það sé prófmál á stjórnsýsluna. Prófmál hvort þverbrjóta megi lög og reglur átölulaust. Prófmál um hvort eyða megi gögnum og tölvupóstum borgarinnar. Prófmál sem sýnii hvar samstarfsflokkarnir standa.

„Viðreisn hefur ekki tjáð sig um skýrsluna eftir að hún birtist. Ætlar Viðreisn að sætta sig við þetta? Píratar funda eftir rúma viku um braggamálið.  Styðja þeir þessi vinnubrögð?“ spyr Eyþór.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. Fyrirspurnir hennar og gagnrýni leiddu til þess að Innri endurskoðun var falið að rannsaka braggamálið.

Það verður fjör

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, furðar sig á ákvörðun borgarstjóra. Hann ætli sér að sitja í nefnd sem eigi að skoða hann sjálfan og betrumbæta hans eigin vinnubrögð.

„Hann gerir sér engan veginn grein fyrir alvarleika málsins.“ segir Vigdís og bendir á að braggamálið verði á dagskrá borgarráðs á fimmudaginn.

„Það verður fjör,“ segir hún.