Ætluðu að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing

Þau voru saman skamma stund í Þingflokki, Karl Gauti Hjaltason og Inga Sæland, en nú er vík milli vina. / Ljósmynd: Útvarp Saga.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sendir þremur fyrrverandi flokksmönnum sínum, þingmönnunum Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni og stjórnarmanninum og meðstofnandanum Halldóri Gunnarssyni, breiðsíðu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Er greinin svar formannsins við gagnrýni á hana og fjármál flokksins, sem þremenningarnir hafa viðhaft á opinberum vettvangi undanfarna daga.

Inga segir að samkoman á Klausturbar í nóvember hafi haft skýrt markmið. 

„Ólaf­ur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son áttu aðeins eitt er­indi á Klaust­ur Bar þetta kvöld og vissu mæta­vel hvað til stóð. Þeir voru að svíkja flokk­inn sem kom þeim á þing. Er upp­víst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólks­ins eng­an ann­an kost en að fara fram á af­sögn þess­ara tveggja þing­manna. Þegar þeir urðu ekki við því þá var þeim vikið úr flokkn­um og svipt­ir öll­um trúnaðar­stöðum á hans veg­um. Þeir höfðu með gjörðum sín­um báðir fyr­ir­gert öllu trausti. 

Ólafur Ísleifsson alþingismaður.

Eng­inn stjórn­mála­flokk­ur hefði látið for­ystu­menn þing­flokks síns kom­ast upp með önn­ur eins svik án þess að slík­ir stjórn­málmenn hefðu verið látn­ir axla ábyrgð. Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram inn­an­borðs hefði þing­flokk­ur Flokks fólks­ins ekki aðeins verið óstarf­hæf­ur held­ur einnig meðsek­ur í þeirri and­styggð sem fram fór á Klaust­ur Bar. Orðstír flokks­ins ónýt­ur og hann rú­inn öllu trausti,“ segir Inga.

Skuldlaus flokkur og ekkert að fela

„Víkj­um þá að gagn­rýni um að ég hafi verið prókúru­hafi og gjald­keri Flokks fólks­ins. Það var ég hvort tveggja og fyr­ir því var ein­föld ástæða. Flokk­ur fólks­ins er rétt tveggja og hálfs árs gam­alt stjórn­mála­afl. Lengst fram­an af barðist þessi hreyf­ing í bökk­um fjár­hags­lega enda að upp­lagi mest­an part stofnuð fyr­ir mitt frum­kvæði af fá­tæku fólki, ör­yrkj­um og öldruðum til að berj­ast gegn ör­birgð og mis­rétti í okk­ar ríka landi. Sem formaður hef ég í fullu sam­ráði við stjórn þurft að gæta ýtr­ustu ráðdeild­ar þar sem öllu skipt­ir að hafa full­komna yf­ir­sýn frá degi til dags. 

Þetta hef­ur tek­ist far­sæl­lega. Flokk­ur­inn býr nú við heil­brigðan fjár­hag. Hann er skuld­laus og slíkt er afar fátítt meðal ís­lenskra stjórn­mála­flokka í dag. Reikn­ing­ar flokks­ins hafa aldrei hlotið at­huga­semd­ir end­ur­skoðenda og þeim hef­ur verið skilað í sam­ræmi við lög og regl­ur. Þeir hafa ávallt verið opn­ir öll­um stjórn­ar­mönn­um, líka Karli Gauta Hjalta­syni. Hall­dór Gunn­ars­son sat í stjórn og þriggja manna fjár­hags­ráði flokks­ins, var með aðgang og eft­ir­lits­heim­ild að heima­banka flokks­ins. Hann und­ir­bjó árs­reikn­inga ásamt gjald­kera í hend­ur lög­gilts end­ur­skoðanda. Hall­dór Gunn­ars­son vissi um öll fjár­mál Flokks fólks­ins frá A til Ö. Það er aumt að horfa upp á Hall­dór, Karl Gauta og Ólaf í hefnd­ar­leiðangri nú þar sem þeir reyna að sá fræj­um efa­semda og tor­tryggni um fjár­mál Flokks fólks­ins um leið og þeir vita bet­ur.

Séra Halldór Gunnarsson í Holti var einn stofnenda Flokks fólksins.

Ég er í dag prókúru­hafi flokks­ins ásamt tveim­ur öðrum trúnaðarmönn­um sem bæði njóta óskoraðs trausts. Jón­ína Björk Óskars­dótt­ir varaþingmaður í Suðvest­ur­kjör­dæmi er gjald­keri og einn prókúru­hafa. 

Þeir þre­menn­ing­ar Ólaf­ur Ísleifs­son, Karl Gauti Hjalta­son og Hall­dór Gunn­ars­son þrýstu á að ég af­salaði mér prókúru og aðgangi að reikn­ing­um flokks­ins og færði þetta vald þeim í hend­ur. Stjórn flokks­ins tók það ekki í mál enda alla farið að gruna þessa menn um græsku færi svo að þeir fengju vald yfir fjár­mun­um flokks­ins. Enda hlýt­ur öll­um nú að vera ljóst að þeim var ekki treyst­andi. Okk­ur sem af ein­lægni störf­um í Flokki fólks­ins hrýs hug­ur við til­hugs­un­inni um að þeir hefðu haft sitt fram,“ segir Inga ennfremur.

Gamlir vagnhelstar úr Sjálfstæðisflokknum ekki happafengur

„Klaust­urs­málið hef­ur verið mér erfitt en skömm­in er þeirra, hvorki mín né Flokks fólks­ins. Fram­ganga þeirra Ólafs Ísleifs­son­ar, Karls Gauta Hjalta­son­ar og Hall­dórs Gunn­ars­son­ar í okk­ar garð hef­ur valdið mér mikl­um von­brigðum. Nú er komið á dag­inn að þess­ir gömlu vagn­hest­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa síður en svo reynst happa­feng­ur fyr­ir okk­ur í Flokki fólks­ins,“ segir Inga í grein sinni.