Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sendir þremur fyrrverandi flokksmönnum sínum, þingmönnunum Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni og stjórnarmanninum og meðstofnandanum Halldóri Gunnarssyni, breiðsíðu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Er greinin svar formannsins við gagnrýni á hana og fjármál flokksins, sem þremenningarnir hafa viðhaft á opinberum vettvangi undanfarna daga.
Inga segir að samkoman á Klausturbar í nóvember hafi haft skýrt markmið.
„Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason áttu aðeins eitt erindi á Klaustur Bar þetta kvöld og vissu mætavel hvað til stóð. Þeir voru að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing. Er uppvíst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólksins engan annan kost en að fara fram á afsögn þessara tveggja þingmanna. Þegar þeir urðu ekki við því þá var þeim vikið úr flokknum og sviptir öllum trúnaðarstöðum á hans vegum. Þeir höfðu með gjörðum sínum báðir fyrirgert öllu trausti.
Enginn stjórnmálaflokkur hefði látið forystumenn þingflokks síns komast upp með önnur eins svik án þess að slíkir stjórnmálmenn hefðu verið látnir axla ábyrgð. Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram innanborðs hefði þingflokkur Flokks fólksins ekki aðeins verið óstarfhæfur heldur einnig meðsekur í þeirri andstyggð sem fram fór á Klaustur Bar. Orðstír flokksins ónýtur og hann rúinn öllu trausti,“ segir Inga.
Skuldlaus flokkur og ekkert að fela
„Víkjum þá að gagnrýni um að ég hafi verið prókúruhafi og gjaldkeri Flokks fólksins. Það var ég hvort tveggja og fyrir því var einföld ástæða. Flokkur fólksins er rétt tveggja og hálfs árs gamalt stjórnmálaafl. Lengst framan af barðist þessi hreyfing í bökkum fjárhagslega enda að upplagi mestan part stofnuð fyrir mitt frumkvæði af fátæku fólki, öryrkjum og öldruðum til að berjast gegn örbirgð og misrétti í okkar ríka landi. Sem formaður hef ég í fullu samráði við stjórn þurft að gæta ýtrustu ráðdeildar þar sem öllu skiptir að hafa fullkomna yfirsýn frá degi til dags.
Þetta hefur tekist farsællega. Flokkurinn býr nú við heilbrigðan fjárhag. Hann er skuldlaus og slíkt er afar fátítt meðal íslenskra stjórnmálaflokka í dag. Reikningar flokksins hafa aldrei hlotið athugasemdir endurskoðenda og þeim hefur verið skilað í samræmi við lög og reglur. Þeir hafa ávallt verið opnir öllum stjórnarmönnum, líka Karli Gauta Hjaltasyni. Halldór Gunnarsson sat í stjórn og þriggja manna fjárhagsráði flokksins, var með aðgang og eftirlitsheimild að heimabanka flokksins. Hann undirbjó ársreikninga ásamt gjaldkera í hendur löggilts endurskoðanda. Halldór Gunnarsson vissi um öll fjármál Flokks fólksins frá A til Ö. Það er aumt að horfa upp á Halldór, Karl Gauta og Ólaf í hefndarleiðangri nú þar sem þeir reyna að sá fræjum efasemda og tortryggni um fjármál Flokks fólksins um leið og þeir vita betur.
Ég er í dag prókúruhafi flokksins ásamt tveimur öðrum trúnaðarmönnum sem bæði njóta óskoraðs trausts. Jónína Björk Óskarsdóttir varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi er gjaldkeri og einn prókúruhafa.
Þeir þremenningar Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason og Halldór Gunnarsson þrýstu á að ég afsalaði mér prókúru og aðgangi að reikningum flokksins og færði þetta vald þeim í hendur. Stjórn flokksins tók það ekki í mál enda alla farið að gruna þessa menn um græsku færi svo að þeir fengju vald yfir fjármunum flokksins. Enda hlýtur öllum nú að vera ljóst að þeim var ekki treystandi. Okkur sem af einlægni störfum í Flokki fólksins hrýs hugur við tilhugsuninni um að þeir hefðu haft sitt fram,“ segir Inga ennfremur.
Gamlir vagnhelstar úr Sjálfstæðisflokknum ekki happafengur
„Klaustursmálið hefur verið mér erfitt en skömmin er þeirra, hvorki mín né Flokks fólksins. Framganga þeirra Ólafs Ísleifssonar, Karls Gauta Hjaltasonar og Halldórs Gunnarssonar í okkar garð hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Nú er komið á daginn að þessir gömlu vagnhestar Sjálfstæðisflokksins hafa síður en svo reynst happafengur fyrir okkur í Flokki fólksins,“ segir Inga í grein sinni.