Af stjórnmálum sjálfsmyndar og ímyndar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Eitt af grund­vall­ar­viðmiðum frjáls­lyndra rétt­ar­ríkja er að all­ir menn skuli vera jafn­ir fyr­ir lög­um. Það má halda því fram að sú regla sé und­ir­staða alls hins, þar með talið al­mennra mann­rétt­inda.“

Þetta skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í grein sem birtist í Áramótablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

„Á und­an­förn­um árum hafa marg­ar þeirra grund­vall­ar­reglna sem þró­ast hafa í meira en 2000 ár og lagt grunn­inn að vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um átt und­ir högg að sækja. Þessi þróun er stund­um eignuð svo­kölluðum póst­mód­ern­isma í heim­speki en stjórn­mál­in sem eru í senn af­leiðing og ástæða þró­un­ar­inn­ar eru kölluð sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál (e. Identity politics).

Í heimi sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál­anna skipt­ir öllu máli hvaða hóp­um menn til­heyra, það hvað menn mega segja og gera velt­ur á því hvernig þeir eru skil­greind­ir. Mann­rétt­indi og laga­leg­ur rétt­ur hvers og eins er jafn­vel háður því hver á í hlut,“ segir Sigmundur Davíð.

Stimpil-stjórnmál

„Áður en hug­takið sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál varð til kallaði ég þetta „stimp­il­stjórn­mál“ enda snú­ast þau að miklu leyti um að setja ákveðna stimpla á mál­efni og fólk og meta í fram­hald­inu allt út frá því hvaða stimpli hef­ur verið komið á viðkom­andi.

Aðra birt­ing­ar­mynd þró­un­ar­inn­ar mætti kalla ímynd­ar­stjórn­mál. Stjórn­mál sem snú­ast um ímynd stjórn­mála­manna og flokka en ekki um þau mál­efni sem menn standa fyr­ir eða ná fram, þ.e. hin eig­in­legu „stjórn­mál“. Það sem menn boða eða gera verður auka­atriði. Allt snýst um þá ímynd­ina eða ,,stimp­il­inn“.

Við þess­ar aðstæður hætta stjórn­mál­in að virka. Lýðræðið hætt­ir að virka. Hug­mynd­in með lýðræði er sú að all­ir hafi jafn­an rétt á að meta þær lausn­ir sem boðið er upp á fyr­ir sam­fé­lagið og taki af­stöðu til þeirra.

Ef við trú­um því að al­menn­ing­ur sé best til þess fall­inn að ráða þróun eig­in sam­fé­lags leiðir það til þess að þeir sem boða og fram­kvæma lausn­ir sem virka fái fyr­ir vikið auk­inn stuðning en aðrir ekki. En þegar stjórn­mál­in snú­ast um ímynd frem­ur en mál­efni breyt­ast þau í leik­hús þar sem allt snýst um per­sónu­sköp­un. Meg­in­mark­miðið verður þá jafn­vel að koma höggi á per­sónu and­stæðings­ins frem­ur en að rök­ræða mál­efn­in. Á meðan er kerf­inu eft­ir­látið að stjórna.

Afleiðing af faglegu ferli

Það verður jafn­vel þægi­legra fyr­ir stjórn­mála­menn­ina að láta aðra um ákv­arðan­irn­ar og vísa í að stefn­an, frum­vörp­in og reglu­gerðirn­ar séu ekki póli­tísk­ar ákv­arðanir held­ur af­leiðing af „fag­legu ferli“. Í stað þess að fram­fylgja kosn­ingalof­orðum og stjórna ein­beita menn sér þá að því að tala inn í ríkj­andi tíðaranda, nota réttu fras­ana og láta mynda sig við borðaklipp­ing­ar og á fund­um með út­lend­ing­um.

Áður tók­ust menn hart á um mál­efni en gátu verið bestu vin­ir þess á milli. Það er erfiðara þegar póli­tík­in geng­ur að miklu leyti út á per­sónu­leg átök. Við þær aðstæður verður póli­tík­in harðari, rætn­ari og nei­kvæðari. En verst er að um leið er valdið tekið af fólk­inu sem á raun­veru­lega að fara með það, kjós­end­um.

Ekk­ert af því sem telst til ímynd­ar­stjórn­mála er nýtt. Fyr­ir 40 árum gerðu til dæm­is bresku þætt­irn­ir ,,Já, ráðherra“ grín að mörg­um þess­ara þátta. Hé­gómagirnd og hræðslu stjórn­mála­mann­anna, kerf­is­ræðinu, bjagaðri fram­setn­ingu bresku götu­blaðanna o.s.frv. Mun­ur­inn er þó sá að áður voru þetta tald­ir gall­ar, nei­kvæðir þætt­ir stjórn­mála. Nú virðist það sem áður tald­ist til lasta vera orðið að mark­miðum í sjálfu sér, jafn­vel alls­ráðandi.

Já, ráðherra þættirnir frá BBC hafa notið gríðarlegra vinsælda í áratugi.

Við það bæt­ast svo sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál­in, til­hneig­ing­in til að líta ekki á fólk sem ein­stak­linga þar sem all­ir eiga að njóta sömu rétt­inda. Það er held­ur ekki nýtt. Komm­ún­ismi, og raun­ar flest­ar öfga­hreyf­ing­ar stjórn­mála­sög­unn­ar, hafa gengið út á að skil­greina fólk sem hluta hópa frem­ur en sem ein­stak­linga. Stefna öfga­hreyf­inga geng­ur iðulega út á að flokka suma hópa sem fórn­ar­lömb og veita þeim fyr­ir vikið rétt­indi um­fram aðra en kúga hina.

Þetta er alltaf sama sag­an. Rúss­land 1917, Ítal­ía 1922, Þýska­land 1932 o.s.frv. o.s.frv. Brot á grund­vall­ar­regl­um rétt­ar­rík­is­ins, regl­um sem tók þúsund­ir ára að móta, hafa alltaf verið rétt­lætt­ar með því að það sé nauðsyn­legt til að rétta hlut þeirra sem hall­ar á. Um þetta eru ótal dæmi á 20. öld og fram á þá 21.

Venesúela var lengi mesta vel­meg­un­ar­ríki Suður-Am­er­íku, það fjölgaði jafnt og þétt í milli­tekju­hóp­um og ungt fólk naut góðrar mennt­un­ar og fjöl­breyttra tæki­færa. Þegar Hugo Chá­vez tók við völd­um lét hann samþykkja nýja stjórn­ar­skrá til að rétta hlut þeirra sem hallaði á í sam­fé­lag­inu. Eft­ir að stefnu Chavez og arf­taka hans Nicolás­ar Maduro var fram­fylgt rík­ir nú neyðarástand í Venesúela og lands­menn líða nær­ing­ar­skort. Eins og alltaf er það fólkið sem var verst sett fyr­ir sem farið hef­ur verst út úr hinu nýja stjórn­ar­fari.

Ekki sjálfgefinn árangur

Árang­ur liðinna alda var ekki sjálf­gef­inn og það er ekki sjálf­gefið að hann varðveit­ist ef við ber­um ekki gæfu til að vernda það sem vel gefst og vinna að því að bæta hitt.

Við lok átjándu ald­ar og upp­haf þeirr­ar tutt­ug­ustu hafði fólk víða á Vest­ur­lönd­um upp­lifað ótrú­legt fram­fara­skeið. Það viðhorf var ríkj­andi að heim­ur­inn ætti aðeins eft­ir að verða betri, vís­ind­in myndu leysa all­an vanda, vel­meg­un gæti ekki annað en auk­ist, heil­brigði og önn­ur lífs­gæði myndu batna jafnt og þétt. Sér­stök áhersla var á að bæta kjör hinna fá­tæk­ari og rétt­indi ein­stak­ling­anna juk­ust stöðugt. Fáir efuðust um þau grund­vall­ar­gildi sem reynst hefðu svo vel. Stríð til­heyrðu liðnum tím­um. Tím­um þegar sam­fé­lög­in og maður­inn sjálf­ur voru frum­stæðari. Slíkt þótti óhugs­andi á þeim upp­lýstu fram­fara­tím­um sem þá ríktu.

Við tók mesta hörm­unga­stríð sem mann­kynið hafði upp­lifað. Við lok þess leituðust stjórn­völd á Vest­ur­lönd­um við að festa bet­ur í sessi þau grund­vall­ar­gildi sem best höfðu reynst. En bak­slag gegn þeim grund­vall­ar­gild­um leiddi svo til enn stærra stríðs og enn meiri hörm­unga.

Alþingishúsið við Austurvöll / Bragi Þór Jósefsson fyrir Alþingi.

Rétt eft­ir lok fyrri heims­styrj­ald­ar­inn­ar öðluðust Íslend­ing­ar full­veldi. Þann sjálfs­ákvörðun­ar­rétt gat þjóðin nýtt til að ná stór­kost­leg­um fram­förum ekki hvað síst vegna þess að tek­ist hafði að varðveita heild­stætt sam­fé­lag með sam­eig­in­leg grund­vall­ar­gildi.

Á und­an­förn­um árum höf­um við séð að póli­tísk stefna og aðgerðir geta skipt sköp­um. Ef við nýt­um lýðræðið eins og til var ætl­ast og verj­um rétt­ar­ríkið, þau gildi sem hafa reynst okk­ur og öðrum lönd­um best, get­um við vænst stór­kost­legra fram­fara fyr­ir alla lands­menn,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.