„Þótt þessa árs verði ekki minnst sem eins af meiriháttar átakaárum stjórnmálasögu landsins hefur reynt á þolgæði og innri styrk stjórnarinnar. Nefna má að gerð var tilraun til að fá samþykkt vantraust á ráðherra, þetta ár var ekki án vinnudeilna og leiða þurfti til lykta ýmis viðfangsefni sem flokkarnir sem nú starfa saman hafa iðulega tekist á um. Í hvert einasta sinn voru mál leidd í jörð og stjórnin stendur sterkari eftir hverja prófraun.“
Þetta skrifar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í grein sem birtist í áramótablaði Morgunblaðsins sem kom út í dag.
„Það er öllum hollt að skoða hlutina frá ólíkum hliðum og ég fagna því þegar fólk er tilbúið að setja fram málefnalega gagnrýni og krefjast rökstuðnings vegna tiltekinna álitaefna. Slík umræða er gagnleg og til þess fallin að hafa áhrif og bæta ákvörðunartöku.
En til eru þeir sem vilja einfaldlega ala á sundrung og klofningi innan þings sem utan. Þannig birtast okkur afarkostamenn, sem reglulega skjótast fram með yfirlýsingar í hástöfum og hörfa svo aftur inn í bergmálshellinn sinn, í stað þess að taka þátt í umræðum sem byggðar eru á staðreyndum og gögnum um efni máls,“ segir Bjarni.
Hér hafa orðið miklar framfarir
„Leiðarljós ríkisstjórnarinnar hefur verið að gefa ólíkum sjónarmiðum rými, leita samráðs og gefa sjálfum okkur tíma til að ræða mál til þrautar. Þannig höfum við nálgast málefni vinnumarkaðarins og höfum á síðastliðnum tólf mánuðum fundað reglulega í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu með fulltrúum allra aðila, launþega, atvinnurekenda og sveitarfélaganna. Þar hefur verið gerð tilraun til að ræða það svigrúm sem er til skiptanna á vinnumarkaði og aðrar aðgerðir til lífskjarabóta.

Ég furða mig stundum á því hversu hógvær verkalýðshreyfingin og samtök lífeyrisþega eru, þegar kemur að því að meta ýmsar þær umbætur gerðar hafa verið síðustu árin. Velferðarnetið hefur verið styrkt svo um munar, kaupmáttur bóta almannatrygginga aukist verulega og þegar litið er til kjarabóta þeirra sem lægst hafa launin hafa orðið stórstígar framfarir, en svo dæmi sé tekið hækkuðu lágmarkslaun á þriggja ára tímabili um rúm 22% samkvæmt samningum milli VR og SA. Áherslan á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa hefur verið rík undanfarin ár. Af hálfu ríkisstjórnarinnar má sjá þessar sömu áherslur í ákvörðunum um hækkun atvinnuleysisbóta og hærri barnabótum þannig að þær nýtist þeim tekjulægstu best, en einnig má nefna verkefni frá fyrri árum sem hafa verið sett af stað vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði, til að hvetja til nýbygginga, auðvelda fyrstu kaup m.a. með lækkun stimpilgjalda að ógleymdu séreignarsparnaðarúrræðinu, sem nú hefur verið gert varanlegt, þar sem þegar hafa runnið rúmlega 50 milljarðar króna, skattfrjálst, til að létta byrði íbúðareigenda vegna húsnæðiskostnaðar.
Með þessu er ekki sagt að verkefninu sé lokið; einungis að hér hafa orðið framfarir, staðan er betri en hún var og það er afrakstur sameiginlegs átaks aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtaka, sveitarfélaganna, ríkisstjórnar og Alþingis,“ segir fjármálaráðherra.