Ákall um heilbrigð skoðanaskipti og þjóðmálaumræðu

„Ég hef um langt árabil skrifað greinar um þjóðfélagsmál og birt á opinberum vettvangi. Þar hef ég oftast birt sjónarmið sem byggjast á lífsskoðun minni. Hún felst ekki síst í því að allir eigi að njóta ríkulegs frelsis í eigin lífi en bera fulla ábyrgð á því sem þeir segja og gera.“

Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, í athyglisverðri færslu á fésbókinni þar sem hann setur fram ákall um heilbrigðari skoðanaskipti og þjóðmálaumræðu og nefnir persónuleg dæmi um afleiðingar þess að setja fram skoðanir og standa með sannfæringu sinni.

„Viðhorf mín hafa ekki alltaf notið vinsælda hjá öðrum. Til dæmis skrifaði ég greinar um að mannréttindareglan um sakleysi uns sekt sannast ætti við í refsimálum vegna ásakana um kynferðisbrot. Þá varð ég fyrir heiftarlegum árásum á persónu mína og var jafnvel sakaður um að taka málstað brotamanna gegn réttvísinni. Þetta var auðvitað alger fjarstæða því ég er og hef alltaf verið andvígur ofbeldisbrotum og þá ekki síst í þeim málaflokki sem hér er nefndur.

Það er bæði undarlegt og ámælisvert að geta ekki tekið þátt í umræðum um þjóðmál án þess að þau séu persónugerð með því að veitast að málshefjanda persónulega.

Svo hef ég líka upplifað andúð annarra á sjálfum mér fyrir afstöðu mína til fleiri mála. Þá hafa jafnvel gamlir vinir mínir snúið við mér baki og hætt að tala við mig þrátt fyrir viðleitni mína til að halda góðu sambandi við þá sem hafa haft aðrar skoðanir en ég á viðkomandi málefni. Í slíkum tilvikum hef ég sjaldnast notið þess að fá að heyra hvað hafi efnislega valdið þessari andúð. Það hafa þeir einatt ekki getað vegna þess að ég hef forðast að byggja skoðanir mínar á þjónkun við aðra hvort sem er einstaklinga eða hópa. Þetta virðast þeir ekki þola sem binda trúss sitt við hagsmuni sem þeir vilja styðja, þó að skynsamlegar röksemdir mæli ekki með því. Þá virðast oft ekki vera önnur úrræði en að veitast að ræðumanni með því að tala ekki til hans eða við hann.

Viðbrögð þagnarinnar heldur smánarleg

Ég man til dæmis vel eftir útkomu bókar minnar „Deilt á dómarana“, á árinu 1987. Hún vakti fyrst í stað ekki nokkra athygli á opinberum vettvangi, og var lítið sem ekkert um hana talað eða skrifað, þó að hún hafi fjallað um mjög alvarleg þjóðfélagsmál. Það breyttist reyndar síðar og er ég farinn að halda að hún hafi haft raunveruleg áhrif á þau málefni sem fjallað var um.

Mér finnst viðbrögð þagnarinnar heldur smánarleg. Menn eiga miklu fremur að fagna því í orði ef fram koma sjónarmið um þjóðfélagsmál sem þeir vilja ekki samsinna. Slíkt gefur þeim tilefni til að bregðast við þannig að aðrir heyri. Ég hef oft hvatt menn til að andmæla mér ef þeir telja efni standa til og oft lýst því að ég sé tilbúinn að mæta þeim á fundum til að ræða málin, en þá nær alltaf án árangurs. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um þjóðþekkta menn sem svona hafa brugðist við.

Ég læt það því eftir mér, kominn á efri árin, að hvetja menn til að hika ekki við að taka til máls til andófs við skoðunum sem þeir eru andvígir en halda samt í frið og jafnvel vináttu við þá sem hafa birt aðra afstöðu en þeir hafa til þjóðfélagsmálanna,“ segir Jón Steinar ennfremur.