„Það er alger fjarvera siðvits eða vitfirring af einhverju tagi sem gengur út frá því að í lagi sé að sundurlima 22ja vikna mannsfóstur í móðurkviði. Það er barn! Með gengið á 6. mánuð!“
Þetta segir sr. Þórir Jökull Þorsteinsson, prestur Íslendinga í Noregi, en Alþingi er nú með í umsagnarferli frumvarp Svandísar Svavarsdóttir um breytingar á lögum um þungunarrof, þar sem lengja á heimildir til fóstureyðinga fram yfir 22. viku.
„Það getur ekki verið réttur neins að drepa barn sem er rétt ókomið í heiminn,“ segir Sr. Þórir Jökull ennfremur í færslu á fésbókinni.
Heilbrigðisráðherra hafði áður kynnt áform sem ganga skemur, en þar var gert ráð fyrir að heimilt yrði að framkvæma þungunarrof að ósk konu, óháð ástæðum að baki þeim vilja, fram að 18. viku. Einnig var í drögunum gert ráð fyrir takmörkuðum heimildum fyrir þungunarrofi eftir lok 18. viku ef lífi konu væri stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur teldist ekki lífvænlegt til frambúðar.
Í kjölfar umsagna og athugasemda við drögin ákvað ráðherra að leggja frumvarp sitt fyrir Alþingi þar sem viðmið heimildar til þungunarrofs verða við lok 22. viku. Gildir þá einu hvaða ástæður liggja að baki ef vilji hlutaðeigandi konu er skýr.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, hefur sent velferðarnefnd Alþingis erindi vegna málsins, þar sem hún gagnrýnir hugmyndirnar sem „kristin kona og biskup Íslands“. Segist hún hafa heyrt á mörgu fólki í kirkjunni að tillögur frumvarpsins gangi of langt.
Bréf biskups má lesa í heild sinni hér að neðan.