„Ákvörðun félagsmálaráðherra (sem hlýtur að hafa verið rædd í ríkisstjórn) um að skikka sveitarfélög til að halda áfram að þjónusta hælisleitendur sem hafa fengið endanlega synjun er hreint galin!“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, á fésbókinni í tilefni frétta þess efnis að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafi gert samkomulag við Rauða krossinn á Íslandi um tímabundið verkefni sem felur í sér neyðaraðstoð við útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi og eiga ekki rétt á aðstoð á grundvelli laga um útlendinga.
Þá hefur ráðuneytið gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna áðurnefndra einstaklinga. Með breytingunum er skýrt hvað kemur til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við fólkið. Ráðherra hefur sent tilmæli til félagsþjónustu sveitarfélaganna vegna breytinganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sömuleiðis verið upplýst, að því er segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.
„Þar sem óvíst er hvort dvalarsveitarfélag í hverju tilviki fyrir sig hafi yfir að ráða úrræði til að hýsa umrædda einstaklinga, sem ekki eiga í önnur hús að venda, hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fyrr segir komist að samkomulagi við Rauða krossinn um tímabundið verkefni sem felur í sér að umræddir einstaklingar geti fengið gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í gistiskýlum fyrir heimilislaust fólk.
Reglurnar sem ráðuneytið hefur breytt eru nr. 520/2021 og settar á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þeim er kveðið á um aðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna þeirrar aðstoðar.
Eftir breytingarnar á reglunum er nú skýrt kveðið á um hvað komi til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við umrædda einstaklinga á grundvelli 15. gr. laganna. Með aðstoð er átt við gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í úrræðum fyrir heimilislausa hér á landi, svo sem hvað varðar hámarksdvalartíma hvers einstaklings á sólarhring í viðkomandi gistiúrræði sem og fjölda máltíða á sólarhring.
Ráðuneytið væntir góðrar samvinnu við sveitarfélögin við að tryggja umræddum einstaklingum gistingu og fæði í samræmi við framangreint. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti vísað fólki til Rauða krossins í lok þessarar viku,“ segir þar ennfremur.
Þarf enginn nokkru sinni að fara?
Sigmundur Davíð segir að lengi hefði verið vitað að stjórnleysi ríkti í þessum málaflokki og að ríkisstjórnin gerði sér enga grein fyrir eðli og umfangi vandans.
En svo segir hann:
„En með ákvörðun ráðherrans er í raun verið að segja að enginn sem kemur til landsins, löglega eða ólöglega, og sækir um hæli þurfi nokkurn tímann að fara.
Fyrst fá umsækjendur húsnæði, heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjárstyrki osfrv. á kostnað ríkisins. Einnig túlkaaðstoð og sérstkan lögfræðimenntaðan talsmann. Þegar búið er að nýta allar áfrýjunar- og tafaleiðir, eftir t.d. þrjú ár, og loks kemur niðurstaða um að viðkomandi hafi aldrei átt rétt á hæli þá býður ríkið upp á aðstoð við heimferð, borgar flugið og veitir viðkomandi umtalsverðan fjárstyrk til að nýta á áfangastað.
Nýju reglurnar þýða að ef fólkið þiggur þetta ekki og neitar að fara þá fær það að dveiljast hér áfram, þjónustað af sveitarfélögunum (með greiðslum frá ríkinu).
Ríkisstjórnin var áður búin að koma Íslandi rækilega á kortið hjá glæpagengjunum sem skipuleggja og selja ferðir til Evrópu.
Breytingarnar gera Ísland að enn betri söluvöru fyrir þessa aðila. Ekki hvað síst nú þegar nágrannalöndin eru öll að fara í þveröfuga átt.
Stjórnvöld eru algjörlega búin að gefast upp frammi fyrir vandanum sem þýðir að hann mun áfram stækka og stækka.
Með þessu færist málaflokkurinn úr stjórnleysi í kaos.“